Fyrst ætla ég að leiðrétta sjálfa mig: Þórlaug frænka mín á auðvitað afmæli 6.mars, ég sló þessu aðeins saman í hausnum á mér við hana Laufeyu sem á afmæli 5.apríl.
Ég er fífl: ég keypti rosa fínt handa Þórlaugu í dag en fór á svo fínt kaffihús að ég týndi því - að minnsta kosti finn ég það ekki lengur.
Embla er að koma til mín í 3 daga - rosa þrekraun að fara frá Lobito svona í fyrsta sinn en ég ætla vera góð og skilningsrík til að auðvelda henni þetta.
Svo er ég víst fýlupúki því mamma segir að það séu allir svo ánægðir með ritlaunin hans Sölva, að hann sé kominn inn og yadaya. Alveg rétt. En ég var nú líka aðallega að gagnrýna þessa stefnu að hafa 3 mánaða ritlaun, mér finnst það afturför. Því að maður nær ekki að skrifa heila skáldsögu á 3 mánuðum, það er rétt mögulegt á 6 mánuðum. Ef þetta snýst um fjármagn þá legg ég til að 3 ára ritlaun verði sett í salt. Mér finnst það bara allt of mikill tími, of þægilegt eins og Steinar sagði. Sleppa 3 ára launum og þá væri hægt að fá fleiri inn á 6 mánaða laun sem mér finnst vera lágmark. SUSaranir grenja um að skattborgarar eigi ekki að vera með þetta á spena en ég ulla bara á þá því þeir eru vitlausir, tala um frelsi til að velja en skilja ekki að það væri ekkert til að velja um ef við styddum ekki við bakið á listafólki... það er nú ekki eins og Sjálfstæðismenn hafi ekki legið undir kúnni, þarf nú ekki nema að nefna Árna blessaðan og kvótakóngana, og hvað ætli þeir sitji margir D-dólgarnir í einhverjum guðsvoluðum nefndum? Helvítis tilberaflokkur....
En listamennirnir eiga að halda kjafti og vera stilltir, vera þakklátir fyrir að það sé aumkast yfir þá. En gott fólk, það er
sjálfsagt að borga listamönnum, borga fyrir það að halda uppi menningarstarfsemi á landinu því annars værum við bara molbúar og menningarsnautt pakk í rassgatsenda veraldarinnar. Það eru ekki listamennirnir sem eiga vera þakklátir okkur heldur við þeim fyrir að nenna að standa í þessu á svona litlu landi þar sem lítið sem ekkert er upp úr þessu að hafa. Ef við ætlum að gera þetta, gerum þetta þá þannig að gagn er að!
(Nú fæ ég aldrei ritlaun)