Helga Soffia

Karibuni

fimmtudagur, febrúar 23

Listakona

Ég er listakona þegar mér dettur ekkert í hug. Hér er listi yfir 10 drykkjarholur (áhrif frá Cosmo) í Edinborg:

1) Ponana á Fred.str. Þar er hægt að sitja í hólfum og tjatta og fara svo út úr helli sínum og Jump Around með House of Pain, drekka 2 kokteila fyrir 6 pund og tala við Esther sem kemur sér fyrir inni á kvennaklósetti með ósköpin öll af snyrtivörum, myntum og sleikibrjóstsykrum, þiggur þjórfé og öskrar: C'mon sexy ladies! Freshen up! Freshen up!

2) Dragonfly á West Port. 30's orient kitch list, kristalskrónur og 50's stólar og borð - allt saman og það virkar! Mjög flottur bar, staffið er duglegt og ber í mann bjórinn.

3) Jolly Judge á Mílunni. Með elstu krám í bænum, lágt til lofts en það er skrautmálað og við barinn er það skreytt seðlum frá hinum ýmsu heimshornum - hef enn ekki komið auga á krónur.

4) The Canny Man - heitir í rauninni The Volunteer Arms held ég. Þetta er eldgamall staður sem er búinn að vera í sömu familíunni síðan á 19. öld. Hann er fullur af allskonar skrítnu dóti, er með massíft úrval af viskí og býður upp á smörrebröd!!! Morningside Road.

5) The Rutland - á horni Lothian og Shandwick Pl. Stór staður á tveimur hæðum þar sem hægt er að sitja og horfa á mannlífið á Princess Street. Sérstaklega flottur uppi með tyrnesk ljósker hangandi úr loftinu, hátt til lofts og bara þægileg stemning.

6) Clever Dick's á Mílunni. Mjög flottur art deco bar sem notalegt er að hanga inni á.

7) Elephant House á George IV. Bridge. Varð frægur fyrir að J.K. Rowling skrifaði fyrstu H. Potter þarna. En þetta er eitt besta kaffihúsið í bænum. Risagluggar snúa út að Greyfriars kirkjugarðinum og kastalanum. Þarna má stinga tölvum í samband við hvert borð og hanga eins og maður vill yfir einum kaffibolla.

8) Waverly Bar á St. Mary's st. Algjört möst. Eins og beint upp úr bíómynd. Þarna eru líka haldin sagnakvöld þar sem allir sem vilja mega koma og segja sögu. Snilld.

9) Espresso Mondo á Lothian er gott kaffihús með sófum, góðu kaffi, vinalegu fólki og ókeypis þráðlausu neti.

10) Black Bull í Grassmarket. Til að horfa á leikinn.

Auðvitað eru miklu miklu fleiri staðir sem ættu að komast á listann en þetta er bara 10 atriða listi ekki 20 atriða listi þannig þeir komast ekki að. Æ, Æ, eins og Pivo sem er alltaf opinn til 3, og Barrokk og Assembly hmmmmm... já en nei, ekki í þetta sinn. Ég þarf líka að fara að sinna tengdamóður minni sem var að vakna eftir að hafa lagt sig eftir morgunflugið.

...æ, já svo er líka ágætt að minna á að eftir 26. mars má ekki reykja lengur á börum, kaffihúsum eða veitingastöðum í Skotlandi. Vei.

mánudagur, febrúar 20

Pakka

Til að svara spurningu Sigurðar - já, við erum að fara. Fara frá fallegu Edinborg. Dótið okkar fer í skip til Íslands en við sjálf förum með flugi suður á bóginn. Suður til Spánar í 3 vikur og svo austur til Grikklands þar sem við verðum í 2 mánuði við þýðingar og ritstörf. Ætli við hrekjumst svo ekki heim til Íslands, reynum að laga þakið á húsinu, sjóðum naglasúpur úr tilfallandi nöglum og reynum að vera þarna í einhverja stund. Kannski ég drullist til að skrifa MA ritgerð til dæmis. Um hvað ætti ég að skrifa? Einhverjar hugmyndir? Ég vildi helst skrifa um sjálfa mig, því þar væri ég sko á heimavelli. Gæti rumpað af ritgerðinni einhverja helgina, talað um hindina og svona. En það þykir sennilega ekki mjög akademískt. Bö bö bö.
Annars gengur þetta allt saman einhvern veginn. Við erum að öllum líkindum komin með pláss í gámi hjá góðu fólki uppi í Dunblane. Bla bla bla. Mikið get ég verið heiladauð og leiðinleg. Biðst forláts. Ég var með Boggu í búð um daginn þegar mér datt eitthvað ferlega fyndið sem ég ætlaði að blogga um en nú er það gleymt og þið sitjið uppi með þessa röflandi samhengislausu færslu um pakkningar og háskólaritgerðir. Úff. Sölvi er með hita og er sofnaður. Ég ætla að elda; keypti ferskt pasta, lúxús parmesanost og brakandi fínt ruccola, best að tríta sig á meðan maður hefur aðgang að ódýru og góðu hráefni. Bestu kveðjur.

sunnudagur, febrúar 19

Lata stelpan

Það er ég. Ég ætlaði nú að vera löngu búin að blogga - þakka fólki fyrir myndavélaráð og svona... en það hefur bara verið svo mikið að gera í að pakka og ganga frá og taka á móti gestum. Hingað komu tveir hávaxnir aríar sem drukku allar tengundir áfengis, spiluðu golf, versluðu, fóru á kaffihús, bari, krár, veitingastaði og skemmtistaði og gengu líka af sér nokkra sentimetra sem okkur af keltneska stuttfótakyninu fannst gott, enda ansi þreytandi að þurfa alltaf að líta upp til þessa fólks þótt það sé fjarska fallegt og vel að máli farið. Risarnir fóru í morgun en við eigum von á liðsauka strax á fimmtudaginn. Stuð stuð!
En ég fæ ekki að blogga í friði Sölvi er þunnur og þarf að tala við mig. Veriði blessuð.

fimmtudagur, febrúar 9

Hallú. Ég varð fyrir því óhappi að missa myndavélina mína ofan í bjórglas á síðasta ári (aðdragandi þess of heimskulegur til að hægt sé að segja frá) og nú er ég farin að renna hýru auga til betri og fullkomnari véla en þá sem lagðist í áfengisdrykkjuna. Ég var að skoða Canon EOS Digital Rebel XT sem mér finnst líta mjög vel út en verð að viðurkenna að ég er fjarska illa að mér í þessum málum. Mig langar í svona semipró digital vél með fullt af mgpxlm og góðu súmmi og sem er almennileg við verri birtuskilyrði, hún má ekki vera of þung eða fyrirferðamikil, helst svona hybrid vél einhver sem auðvelt er að ferðast með. Ef þið eruð vel að ykkur í þessum málum yrði ég afskaplega þakklát að fá hjá ykkur ráð og hugmyndir. Ég er nefnilega með ýmislegt á prjónunum eins og ferðir til Indlands og Afríku þannig mig vantar eitthvað almennilegt. Hvað finnst ykkur til dæmis um Fuji Finepix s9500? Hún á að vera með afspyrnugóðri linsu. Anyone? Nei? Ég verð að fara að ákveða mig því farfuglarnir tveir sem hættu sér til Asíu ætla að rondevúa við okkur bráðum og þá væri nú sniðugt að láta þá kippa með sér eins og einni almennilegri kameru, hmm ha? O, jújú seisei.

sunnudagur, febrúar 5

Nick Cave er guð

Ég fór í gær á Nick Cave í The Playhouse. Með honum var Warren Ellis og frábær trommuleikari og bassaleikari. Mjög svipað settöpp og heima á Hótel Íslandi. En allt allt allt önnur stemning. Hann byrjaði á því að stika inn í svörtum jakkafötum og taka pósu sitthvorumegin á sviðinu eins og sá Tim Burtoneski ofurtöffari sem hann er. Bandið var þegar farið að skapa svakalegan hávaða á bak við hann. Síðan fór hann yfir að flyglinum, sneri sér að bandinu, stóð gleiður og réri fram í gráðið og skók hægri hendi upp í loftið að bandinu - hljómsveitarstjórinn King Ink. Og síðan lét hann flygilinn hafa það. Hálf sat hálf stóð við hljóðfærið og hamraði og söng Abattoir Blues. Ég skil ekki hvernig hann fer að þessu, það er ekki að sjá að maðurinn sé fimmtugur, ekki að sjá að hann hafi dópað í tuttugu ár. Nick Cave er guð. Þannig er það bara. Weeping Song var tekið í þungarokks útgáfu, Stagger Lee sem tregaljóð (Sad Lee/Sadly), húsið skalf við Tupelo og grét yfir People They Ain't No Good og God is in the House (og einn skotinn hrópaði og benti réttilega á að: God is in the Playhouse!). Hann greip í rafmagnsgítar einu sinni eða tvisvar, var fyndinn og ræðinn við flygilinn og tók öllum hrópum um óskalög af athygli og sagði: "Yup, we can do that." Og Warren Ellis? Guðinn lýsti honum best þegar hann sagði eftir fyrsta encorið "Warren, you're beautiful."

föstudagur, febrúar 3

Hvad er i gange?

Veit einhver hvað er að blogspotti þessa dagana mér finnst allt útlitið í fokki á öllum blogspot síðum. Tenglar einhversstaðar neðst á síðunni og oft skrítnar rákir út um allt. Dularfullt. Ég verð að fá mér eitthvað svona html for dummies.

fimmtudagur, febrúar 2

Jahérna!

Í blaðinu um daginn stóð að vísindamenn hafi fundið vírus sem veldur offitu. Fita er sem sagt smitandi. Ekkert grín. Svo er fólk með áhyggjur af fuglaflensunni...