Helga Soffia

Karibuni

sunnudagur, október 30

Búningadaman HS


Í gær fór ég í 2 afmæli - eitt til Brynju í skyrtertu og kaffi, og svo annað til Davíðs í smárétti og allskonar áfengi. Fyrir það síðara kom Auður Rán með Hemma til mín í meikóver. Þau voru að fara í hallóvínpartý í sóðahverfi í Leith. Hermann er listamaður og málaði sig dauðann í framan en Auður vildi vera Dauður "My Evil Twin" en kom að tómum kofanum í búningabúðum bæjarins, enda vinsælt hjá bæði fullorðnum og börnum að dressa sig upp á hallóvín hér í borg. Ég málaði hana eins og hóru og setti svo í hana Bjarkarsnúða og svart gel, smellti á hana Elvisgleraugum (má sjá á meðfylgjandi mynd af Hermanni í Sölvaafmæli)og henti henni upp í leigubíl. Það fór ekki betur en svo að þau fundu ekki partýið og komu því bara í búningunum sínum til Davíðs og skemmtu okkur fram á nótt.
Klukkunni var breytt á miðnætti þannig að nú erum við komin á íslenskan tíma, þá geta hjörtu okkar slegið í takt við íshjarta fórstujarðarinnar. Vei.

fimmtudagur, október 27

Busi og Jón


Jamm, sumsé, ég fer mánaðarlega í svona City of Literature partý hérna í Traverse þar sem hittist fólk í bókmenntabransanum og fær sér bjór og minglar. Voða sniðugt. Við íslendingarnir höfum farið saman svona kannski aðallega til að hafa menningarlega afsökun fyrir að drekka bjór. Eníveis, eníród, allavega, síðasta þriðjudag var sumsé Ian Rankin staddur þarna og ég hefði kannski vippað mér að honum og skálað við hann nema hann var í alveg rosalega fráhindrandi skyrtu - hún leit út eins og blá silkiskyrta sem einhver hafði ælt á fimm sinnum í viku í þrjá mánuði. Ég höndlaði það ekki þannig ég ræddi bara við makkerinn (Edinborgarljóðskáldið) og LA spennusagnarithöfund sem var afspyrnu skemmtileg.
Svo má hér fylgja gamansaga sem átti sér stað fyrr í haust: Þannig var að við Sölvi og Ásta ákváðum að bjóða fólkinu (Brynja og Steinar) sem hafði hýst okkur á meðan íbúðarleitinni stóð út að borða. Við fórum á Buffalo Grill í Stockbridge þar sem að Steinar þrástagaðist við að koma sítrónusafa í augað á sér. Á næsta borði sátu tveir menn. Annar ögn eldri en hinn. "Sérðu" segir Sölvi við mig, "Rebus." Ég lít á mennina og sé einmitt Ian Rankin í alveg skelfilgeri skyrtu (hann virðist eiga þær nokkrar). "Aha," segi ég. "Meinarðu ekki höfundinn sem skrifar sögurnar?" Alltaf að reyna að laumast - eins og einhver geti greint orðaskil í vélbyssutalanda íslenskunnar. "Nei! Þessi gamli, hann er alveg eins!" Ég sagði bara ó og hélt að ég hafði tekið svakalegan feil, en það var rétt hjá Sölva, maðurinn var mjög Rebuslegur. Svo poppar Ian inn í partýið á þriðjudaginn og þá átta ég mig á því að við höfðum bæði haft rétt fyrir okkur, mennirnir á næsta borði þarna á Buffalo Grill voru einmitt Rankin og Rebus.

þriðjudagur, október 25

Kvennafrídagur og karlinn í kvörninni


Ég lagði niður störf í gær eins og aðrar íslenskar konur og fór að hitta Línu og Ástu á fínni kaffihúsum bæjarins. Við bröntsjuðum og fengum okkur hvítvín og ræddum daginn. Við vorum sammála um það að svo virtist sem að einhver misskilningur væri á kreiki. T.d. er fólk sem óskar manni til hamingju með daginn, eins og þetta sé einhver hátíðisdagur, sem hann er ekki, þetta er baráttudagur og áminning um það að kynjamisrétti sé enn við lýði. Svo var það OgVodafone, fyrirtækið með asnalega nafnið, sem "gaf" öllum konum á launaskrá sinni frí í tilefni dagsins og hvatti önnur fyrirtæki til að gera það sama. Yfirlætið alveg ótrúlegt. Þeir gefa konum ekkert frí - við tókum okkur frí í gær. Með því að koma með yfirlýsingar sem þessar stela þeir af kvenstarfsmönnum sínum verkinu. Já, og svo var það yfirskriftin "Konur og karlar leggjum niður vinnu í þágu jafnréttisins!" Þar var verið að hvetja karlmenn til að sýna stuðning í verki en mér finnst þetta á misskilningi byggt. Konur hættu að vinna kl. 2:08 því að þá voru þær búnar að vinna fyrir kaupinu sínu (ef miðað er við tölur um launamisrétti milli karla og kvenna) og tilgangurinn einnig sá að sýna með áþreifanlegum hætti hversu mikilvæg störf konur vinna, sjá hvað gerist þegar þær ganga allar út. Já, þetta var það sem við ræddum og margt fleira.
Annars voru draumfarir mínar í nótt með svo miklum ólíkindum að ég ætlaði aldrei að tíma að vakna. Það sem loksins reif mig úr álögum Morfeusar var undarlegt tvist í draugasögu þar sem að Sölvi tók upp á því að stökkva ofan í stóra matarkvörn mér til mikillar skelfingar. Jakkafötin hans komu einnig fljúgandi af slánni og tættust í mola en ég náði að bjarga uppáhaldsbindinu hans á síðustu stundu. "Helga mín," heyrði ég þá neðan úr kvörninni. "Hva, ertu ekkert kvarnaður?" spurði ég fegin og hissa. "Nei, nei," sagði Sölvi, "ég ætla bara aðeins að vera hérna um stund." Það fannst mér eðlilegt eins og manni finnst aðeins í draumi og hugsaði að þetta hefði eitthvað að gera með Mussju. Einhversstaðar hrökk þó meðvitund mín í gang og hún ávítaði dulvitundina fyrir vitleysuna og tók stjórnina á ný. Þá fór ég fram og fékk mér skoska skonsu með sýrópi og kaffi með Sölva sem var heill á húfi inni í vinnuherbergi að skrifa.

sunnudagur, október 23

Rauðrunnate og almennur dugnaður


Ég er dugleg. Ég hef tekið til. Farið í gegn um pappírsfjallið ógurlega. Unnið. Ó já. Lagað kaffi, rauðrunnate og löntsj. Skandinavískt húsmóðurssyndróm. Og hvað gerir maður þá? Jú, röltir með góðri samvisku út á lókalinn í eina pintu. En ekki hvað!
Sjáiði bara hvað ég geisla!
Sjáiði hvað ég er glöð!
Vítisglampinn í augunum er ekki nema hálfvolgur og bringsmalaskottan skotin í refsins rassi.
Sturtan flautar á Ástu (hún neitar að láta sjá sig ósturtaða á lókalnum) en ég bíð róleg með runnate og hugsa um stjörnubjór í glasi með myndarlegum haus.
Bráum verð ég geislandi glöð, nokkrum pundum fátækari en reynslunni ríkari.
Ég bið að heilsa. Hvílið ykkur, étið góðan mat og veriði góð við hvert annað. Hasta la pronto.

laugardagur, október 22

Kaffi og kjúklingur í morgunmat og músin sem gaf upp öndina


Ég fór út á Kingfisher undir miðnætti í gær og náði í kjúkling handa okkur Sölva því hann sat heima súr á svip eftir að hafa tapað 100 bls af vinnu inn í djúpvitund tölvu sinnar á meðan aðrir fóru út á The Waverly og ræddu blótsyrði og bókaflóð. Okkur tókst ekki alveg að torga öllu hræinu um nóttina þannig að það var sumsé kaffi og kjúlli í morgunmat hér enda ísskápurinn Buddy orðinn ansi dapurlegur að sjá, hálfsálarlaus og tómur að innan. Við kaupum sólfúd handa honum frá Tescoskrímslinu á morgun.
Annars gerðust þau stórtíðindi áðan að Sölvi hélt að hann hefði rotað mús með inniskó sínum en eftir nánari eftirgrennslan og athuganir sýnist okkur að einhver illa innrættur músafób hafi eitrað fyrir greyinu því hún dó skelfingu lostin á kínverskri skrautservíettu inni í eldhúsi stuttu eftir að ég hafði reynt að hressa hana við með ostbita. Við vöfðum hana inn í skrautservíettuna með ostbita á tannstöngli (alltaf gott að hafa pinnamat með í för) og fórum með hana út svo hún geti farið upp í stóra ostinn í næturhimninum í kvöld. Sjaldan held ég að ein mús hafi farið jafn skrautbúin í dánarheima, henni hlýtur að verða vel tekið.
Svo hringdi Alga í mig rétt í þessu og sagði mér að Lesbókin hafi birt bloggfærslu frá mér í dag. Mér líður eins og einhver hafi tekið mynd af mér á krullunum inn um gluggann... mjög krípí... ég er ekki að skrifa fyrir Moggann eða aðra fjölmiðla og þótt ég viti að ég ætti að líta á þetta sem kompliment þá líður mér frekar eins og einhver hafi farið ofan í nærfataskúffuna mína eins og Agla orðaði það. Mér finnst skrítið að prentmiðlarnir skuli fara svona ofan í bloggkisturnar eftir efni og það án þess að biðja höfunda um leyfi. Ég fer hér með fram á það að enginn birti neitt af mínu stöffi án þess að senda mér emil fyrst og biðja leyfis. Maður skrifar ekki eins fyrir bloggheima og virðuleg dagblöð...hmm ha?
En nú er ég rokin - á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna til heiðurs honum Eiríki sem er kvikmyndafíkill og afmælisbarn dagsins. Hafið það gott. Og lexía dagins? Betra er að standa á öndinni en að gefa hana upp eins og húsamús.

mánudagur, október 17

kenningar um sjúkdóma


Það laust niður í kollinn á mér 2 andstæðum hugmyndum áðan. Sú fyrri var að ég ætti að drífa mig til læknis og fá sýklalyf við lugnabólgunni svo ég steindrepist ekki um leið og fuglaflensan komi hingað. Hin hugmyndin var að ég ætti einmitt ekki að gera neitt í lugnabólgunni og láta hana stríða við fuglaflensuna - svona eins og Alien vs Predator.
Ég hugsa samt að ég hringi í Línu á morgun og fái infó um læknaþjónustu svo að tengdó og pabbi taki mig aftur í sátt. Ég er líka orðin leið á því að gefa frá mér geimverskan andardrátt og hósta ektóplasma. Kannski væri bara best að finna spíritista því það gæti meira en vel verið að berklaveikur draugurinn hafi rokið í mig.
Annars reyni ég að hvíla mig og vinna til skiptis - Ásta búin að koma mér upp á Minette Walters reyfara sem gott er að lesa undir íslensku lopateppi.
Myndin hérna er af gamla staðnum - Advocate's Close, þar sem við bjuggum í fyrra. (var að fatta hvernig maður setur myndir inn og á enga aðra núna í nýju tölvunni, set fleiri síðar)

miðvikudagur, október 12

Alltaf spá þeir vitlaust

Jæja, þá er búið að spá okkur kaldasta vetri í áratug hérna á Bretlandseyjum. Ég verð að segja að ég er orðin svolítið þreytt á öllum þessum öfgum hvort sem það er í veðri, trúarbrögðum eða náttúruhamförum. Nú skil ég loksins bölvunina "May you live in interesting times", skilst að þetta sé frá Kína komið - enda hefur nú ekki skort öfgarnar þar.
það hefur rignt núna sleitulaust í 32 tíma, það hlaut að koma að því. Það gerir svo sem ekki til því að hér getur maður spennt upp regnhlíf án þess að lenda í lífshættu og svo er borgin alveg falleg svona blaut og grá - verður mjög dramatísk fyrir vikið.
Ég dópaði niður manninn minn í gær því að hann var farinn úr því að vera Mía í Múmínálfunum yfir í að vera Morrinn; myrkur í máli og sjón. Þannig honum tókst loksins að sofa heilan nætursvefn þrátt fyrir draugaganginn sem er nokkur hér.
Ég er öllu hressari í dag en í gær þrátt fyrir votviðrið, kannski það sé vegna þess að ég dreif mig út úr húsi í gær og skoðaðið í bókabúðir - og þótt það sé rétt að bókvitið verður ekki í askana látið þá veit það hver maður að bækur eru allra meina bót.
Ég ætla nú að reyna að hafa upp á henni Línu sem ég hef ekki séð síðan hún var dregin á hárinu á morgunbar af sturluðum sambýlingum mínum á afmæli skáldsins.

þriðjudagur, október 11

Náttfatahöllin

Ég bý í náttfatahöll. Hér er fólk í náttfötunum eins langt fram eftir degi og hægt er. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður svo sem snaröfugur sólarhringur (setja inn fimmaurabrandara hér), veikindi, kuldi, leti og þörf fyrir að slipp intú somþing mor komfortable. Og náttfötin eru ekki mjög sexí eða smart. Þau eru óversæs og upplituð. Þetta er auðvitað ekki hægt til lengdar - ég held að það sé kominn tími á að fara að kaupa sér ný.

mánudagur, október 10

Rómantísk veikindi

Rómantískustu veikindin eru berklar, tæring og lungnabólga. Ég er með lugnabólgu. Þegar ég anda þá kurrar og brakar í mér. Inni á milli hósta ég þangað til að ég skelf og nötra. Því fylgir órómantískur viðbjóður sem ég hræki í klósettið. Þá finnst mér ég svolítið eins og eitthvað hellbitsj úr Exorcist, en svo skríð ég inn í stofu, leggst undir gamla góða Álafossteppið sem hefur farið alla leið frá Íslandi til Afríku til Íslands til Skotlands, og finnst ég óskaplega lasleg og rómantísk aftur. Maður á alltaf að líta á björtu hliðarnar.

þriðjudagur, október 4

Bloggiddíbloggblogg

Sæl æl æl æl æl... Is there anybody out there? ere ere ere ere....
Allir farnir bara? Já, ég skil það enda hefur þetta partý verið dautt ansi lengi. En nú er ég komin aftur, meira að segja á súdóefidríni og allt. Jájá. Ég er nefnilega aftur orðin veik þannig ég má skella í mig Day Nurse til að vera með meðvitund og verða mjó - það er nefnilega víst svo lystardeyðandi að taka efedrín (listaukandi þó), ekki að ég finni sérstaklega fyrir því, enda hef ég aldrei borðað af hungri einu saman, það eru mun flóknari og sívíliseraðri hvatir á bak við mitt át.
Aber was kann ich ihnen sagen gewesen sein? Jú, Ásta er fallin big time í sína fíkn enda fékk hún hreinasta stöff sem sjónvarpssjúklingur getur fengið - fyrstu seríuna af 24 á DVD. Ég hef ekki séð hana (Ástu sko, ekki seríuna) síðan á sunnudaginn þegar Sölvi kom heim með fullan poka af góssi úr safni dr. Brynju eða sánkti Brynju eins og hún er kölluð hér á heimilinu.
Milli mín og Usher Hall eru síðan menn í gulum göllum að gera skrítnar merkinaga á götuna, gula krossa og tölustafi og strik. Mín kenning er að þetta séu ráðstafanir vegna Blondie tónleikana sem eru annaðhvort í kvöld eða á morgun. Kannski maður athugi hvort það séu til aukamiðar, gaman að sjá Debbie gömlu, nýstrekkt upp á beinagrindina á sér eftir að hafa verið feit og gömul í 15 ár. Lifi pönkið.
Já, einmitt. Og Sölvi er að verða árinu eldri á föstudaginn og vonar til að geta gefið út Gleðileikinn djöfullega um jólin, þá verðið þið öll að hlaupa út í búð og kaupa hann, því hann er ekki bara vel ortur og skemmtilegur heldur verða líka í honum nokkuð fínar myndir eftir Ævar nokkurn laumuskáld og listamann.
En nú eru áhrif apótekarans að dvína þannig ég ætla að slökkva á tölvunni og snúa mér að því að snýta mér, hósta og kjökra undir sæng. Fram að næsta skammti. Veriði sæl.