Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, júlí 25

helgin

Um helgina buðum við í garðpartý og elduðum 30 sjóbirtinga og 4 laxa á einu bretti. Veislan stóð í 4 tíma en samt voru nokkur kíló eftir í lok hennar. Það gerði ekkert til því að við töltum bara með restina upp á Bergþórugötu þar sem súpersysturnar Hulda og Ásta héldu risaafmæli og þar fór fiskurinn ofan í gutlandi bollumareneringu í kviðbelgjum gestanna þar. Þynnkudagurinn var næs og mjúkur í blindandi þoku fórum við með foreldrum mínum í lúxússalinn að sjá Sin City sem var stórkostleg á allan hátt en hæst bar upprisu Mickey Rourke úr gleymskunnar dái. Rokk rokk rokk.

laugardagur, júlí 16

lykt af blautum hundi

Reykjavík stinkar eins og blautur hundur enda er rigningin sleitulaus - óþolandi - ég fyllist sjálfsvorkun og leti og geri ekki neitt í þessu votviðri, leigi bara slæmar bíómyndir sem ég horfi á með öðru auganu, á Njallanum er til dæmis hægt að horfa á videó í baði. Það er ánægjulegt.

mánudagur, júlí 11

bloggleysi og andleysi

Afsakið lítið blogg en það er erfitt að fara á netið á sumrin og síðan er bara svo mikið um að vera að maður má bara ekki vera að því að blogga um það. London... ég get ekki bloggað um það eiginlega - það fór heill dagur þar sem að ég var límd fyrir framan skjáinn með Einari bróður uppi í Breiðholti og horfði vantrúuð á BBC, skil ekki svona mannvonsku að ráðast á ókunnugt, saklaust fólk - ég get ekki einu sinni drepið geitunga. Skrítið að horfa á svona, maður getur ekki einu sinni orðið reiður því að maður er svo dapur og skilningsvana.
Ég hef verið að sinna bróður mínum, hjálpa til við að gera fínt hjá honum svo hann geti farið að flytja inn, ég veit nefnilega hvað maður verður slitinn á síðustu metrunum í svona íbúðaveseni. Já og svo tók ég að mér veislustjórn í eitt stykki brúðkaupi en Ninna og Árni gengu sumsé í það heilaga á laugardaginn og ég hef setið við allskonar undarlegt föndur og dúllerí af þeim sökum og var sennilega eina edrú manneskjan í því sturlaða fylleríi sem átti sér stað í Kiwanishúsinu - en ég skemmti mér engu að síður ekki minna en flestir.
Sölvi veiðikló kom heim með lax úr Soginu um helgina líka og við elduðum hann ofan í Kára og Ástu áðan enda 5 punda lax allt of stór í 2 manneskjur. Æ, dfls prump, ég get ekki meir, andleysið er algjört og augnlokin farin að þyngjast enda vaknaði ég snemma og fór í sund með Emblu og Úlfi á meðan aðrir jöfnuðu sig á Fisherman og annarri áfengisneyslu.
bö bö bö óver end át.

mánudagur, júlí 4

Vísir að sumri

Svei mér þá. Sól og hiti og jafnvel bara sumar. Ég hef reyndar ekkert að segja í rauninni, er alveg heiladauð inni á Vegamótum en ákvað að henda inn nokkrum línum fyrst ég kemst á netið. Það eru 4 norskar kvennsur á næsta borði, 3 kynslóðir. Merkilegt, ég get horft yfir á MM húsið án þess að fá kvíðakast, merki um hvað tíminn hefur liðið hratt og langt síðan að ég praktiklí bjó þarna hinumegin. Ég fékk í fyrsta skiptið frekar vondan mat hérna á Vm - burrito, allt löðrandi í sósum og ekki með neinum hrísgrjónum og bara frekar jökkí og óspennandi. Maður fær nú oftast þrælgott að borða hérna en kannski er kokkurinn í sumarfríi... eins og ég sagði áðan, þá hef ég ekkert að segja ekki rass, ekki neitt. Jú, hey sá Lemony Snicket myndina í gær sem var mjög fín, Carrey flottur Ólafur og lúkkið ágætt og handritið vel unnið - en þessir krakkaormar þarna! Djísös! Mini Russel Crowe sem Kláus, allt of stór og svalur á því og svo einhver bölvuð kókaíntæfan (Mary-Kate Olsen wannnabe) sem Fjóla, gerði ekkert nema setja á sig stút og sveifla mjöðmunum - hriiiiiiikalegt! Ég var farin að halda með greifanum og óska þess að hann næði í krakkaófétin og drekkti þeim í Angurvatni eða Sorgarfljóti eins og það hét í bíómyndaþýðingunni.

föstudagur, júlí 1

innfluttir ósiðir

Íslendingar eru dónar, segir danskur félagi minn. Það er eitthvað til í þessu en það sem mér hefur fundist meira (og nú er ég afskaplega vel upp alin og það í útlöndum) er að Íslendingar eru bara fámálir. Snúa sér beint að efninu. Fara ekki eins og kettir í kring um heitan graut. "Fá eina kók og opnana" heyrir maður í sjoppunum og þykir bara allt í lagi, sumir brosa kannski ef einstaklega vel liggur á þeim, "og rauðan Winston." Það myndi líða yfir afgreiðslufólk og alla viðstadda ef ég gerði þetta í Bretlandi... hvað þá í Danmark þar sem fólk er komið út í svo mikla öfgar að það segir "må jeg be' om..." - má ég biðja um eina kók og má ég biðja þig um að vera svo væn/n (sjáiði hvað ég er kurteis og PC) að opna hana, takk kærlega. Æ, fyrirgefðu, afsakið, má ég svo biðja um einn rauðan Winston, margar þakkir.
En já... nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að við erum farin að flytja inn ósiði og dónaskap frá kurteisu nágrönnum okkar - t.d. eins og sorablaðamennsku, Hér og nú og DV segja að þeirra tegund af krappi sé stunduð af kappi til að mynda á Bretlandi og Bandaríkjunum. Hmm, jamm, þeir pynta líka fanga í Guantanamo - væri þá ekki bara allt í lagi að gera það á Hrauninu? EN þetta er ekki það sem ég ætlaði að röfla út af núna, ég ætlaði að röfla yfir öðru óþolandi hlvt (bannað að vera orðljót) - við errum búin að læra á bílflautuna. Í bókinni The Xenophobes Guide to Icelanders sem var gefin út á síðustu öld var fjallað um hversu merkilegt það væri að Íslendingar flautuðu afar sjaldan á aðra með bílflautunum, það þætti argasti dónaskapur - sem það er oftast nær. En þetta á ekki við lengur. Ég hef tekið eftir því þessar 4 vikur sem ég hef verið heima að fólk er alltaf að flauta núna, leggjast á flautuna við minnsta tilefni eins og verstu Spánverjar. Voðalega hvimleitt. Ég vona að þetta sé bara eitthvað svona tímabil, einhver sumarsmellur hérna, enn eitt æðið. Kannski segjum við eftir nokkur ár: "Hey, muniði eftir sumarinu 2005 þegar allir lágu alltaf á flautunni?"
Muniði eftir:
Spur?
Celebrate Youth?
Nick Kershaw?
Súkkó?
Ólæstum útidyrahurðum?
Að safna í brennibolta?
Michael Jordan í loftinu?
Plötubúðinni Grammið?
Trix?
Unglingum að "teika"?

Bannað að blóta

Mamma og Þorgerður segja að ég sé orðljót á blogginu. Ég sem hef reynt að fara ekki offari, en stundum er þetta svona. Annars er bara ekkert sérstakelga gaman hjá mér í dag. Það vill ekkert vera eins og ég vil hafa það. Draumaíbúðin í Edinborg sem ég var búin að biðja um að yrði tekin frá fyrir mig var látin í hendur einhverra annarra, íbúðin sem ég var í er hinsvegar enn á minni könnu, íbúðin mín hérna er kannski eitthvað pöddubæli, peningar streyma sífellt frá mér og út í saltan sjó - þannig er ég eins og Viktoríuvatn (fannst ykkur skrítið að upptök Nílar skildu vera niðri og renna upp út í sjó? Hversvegna er suður niður? Segir maður ekki farðu norður og niður?), ekki að þessi fjárskortur sjáist mikið utan á mér enda er dýrt að vera heilsusamlega mjór, ég gleymdi símanum mínum hjá Emblu í gær, veðrið er hundfúlt og mér er ennþá hrikalega illt í skrokknum eftir að hafa dottið í sturtu síðustu helgi eins og samviskufangi. Já, svo er ég orðljót. Þannig er semsagt sitjúasjónin í dag, ég er orðljót, feit og fátæk. Og með rosalegt keis af PMS. Gó figjör.