Helga Soffia

Karibuni

sunnudagur, mars 20

Mávar, stjörnubjór og gotneskt veður

Ahhhh.... stundum er gott að vera til. Eins og í dag. Ekki vegna þess að þessi dagur sé merkilegri en aðrir dagar heldur vegna þess að gærdagurinn var það. Ég vaknaði við aggresíft bjölluhljóð, stökk á fætur og klæddi mig í náttbuxurnar í loftinu, lenti alklædd frammi á gangi og urraði:Halló! (segi alltaf súperíslenskt halló við útlendinga ef ég vil sýna vanþóknun mína). Kona með breska tónun mjálmaði af gleði eins og Disneyfígúra í aldingarði: I have a parcel for you! mínútu seinna stóð þessi elska brosandi með fangið fullt af góssi - pakki frá Auði Rán. Ég glaðvaknaði við þetta og komst í svo gott skap að ég vissi ekki hvort sólin væri í rauninni að skína úti á götu eða hvort ég væri að ímynda mér það. Ég stakk hausnum út um gluggann til að fullvissa mig - jú, svei mér þá, bongóblíða. Það vita það allir að það er ekki hægt að sitja inni við vinnu þessa fyrstu vor/sumardaga þannig að ég fór og hitti Steinar og Öglu á Princess Street og tók þar strætó niður í Leith. Davíð og Sölvi fundu okkur þar og við fengum öll Angus 1flokks risa hamborgara og sátum svo með öl við The Shore sem er einskonar Nyhavn þeirra skota. Síðan fórum við og keyptum sólvörn, sólgleraugu og frisbí. Lékum okkur eins og kálfar á vori, gengum svo heim. Fengum okkur Estrella stjörnubjór sem Emblita kom með. Nú er ég með frisbíverki og úti er gotneskt veður, heimurinn er loðinn og ljós - þið sem heima sitjið munið eftir þriggja daga þokunni í Reykjavík. Það er eins og maður sé í feldinum á hvítum kettlingi. Og enn skín sólin. Geislarnir filterast niður í gegn um þokuna og verða mjúkir og hættulausir. Ahhhh... stundum er gott að vera til.

1 Comments:

At 1:08 e.h., Blogger Helga said...

Ég var með vinum mínum í Edinburg þennan dag og við skiptumst á að gráta af gleði yfir fegurð vorsins og borgarinnar. Drukkum Tenents. Djöfull er Royal Mile Royal.

 

Skrifa ummæli

<< Home