Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, maí 28

Dickflick

Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér að bækur og bíómyndir þar sem aðalpersónan er kona skuli flokkast strax undir léttmeti og kerlingamynd/bók - svokallað Chicklit eða chickflick. Reyndar þarf aðalpersónan ekki einu sinni að vera kvenkyns, mynd virðist "falla" niður í chickflickdeildina um leið og kvenpersónur eru fleiri en ein. Markhópurinn er hinsvegar strax almennari þegar karlmenn eru í fyrirrúmi í persónugalleríinu. Ég man t.d. eftir því þegar ég sá um bókaklúbba heima á Íslandi að fá endursenda bókina Matthildur eftir Roahld Dahl á þeim forsendum að það væri ekki hægt að senda strákum stelpubækur. Ég fékk hinsvegar aldrei kvörtun á hinn veginn, Jói og risaferskjan kom til að mynda ekki til baka með álíka orðsendingum. Í gær leigðum við The Sentinel. Hún er um harða karla með byssur. Alvöru dickflick. Eva Longoria fékk svo að vera með svo hún gæti ranghvolft augunum þegar strákarnir sendu one-linera sín á milli um hversu mikil bomba hún er. Ég gafst upp snemma og fór að sofa. Ég er líka leið á því að sjá Michael Douglas krumpast framan í yngri konur.

sunnudagur, maí 27

Skotland á sunnudegi

Ég sit inni í stofu hjá Hermanni og Auði í Edinborg og raða í mig góðgæti. Í gær fór ég með Ástu á Ceilidh í Assembly Rooms. Þar hanga 3 kristalskrónur á stærð við fíla neðan úr rjómalituðu loftinu en undir þeim djöflast fólk á öllum aldri með pilsaþyti og hlátrasköllum um salinn. Í hlé kom furðuflink dansgrúppa frá Írlandi (Absolutely Legless) og dansaði Michael Flatley út af kortinu. Í lok dansleiksins kom Steve, heljarmenni úr hálöndunum, og pípaði okkur, þ.e.a.s. hann kom og spilaði á sekkjapípu, gekk um salinn og stóð svo trampandi fótunum úti á miðju gólfi og spilaði þannig á hljóðfærið að fólk klappaði, stappaði, flautaði og hrópaði af gleði. Því miður var ég ekki með myndavél.
Við ákváðum að fá okkur einn viskí á Dirty Dicks, sem er pöbb en ekki klámbúlla þrátt fyrir nafnið, á Rose Street. Þar uppgötvuðum við ofurmannlega eiginleika sem við vissum ekki að við byggjum (bjuggum, búum? hmmmmm) yfir, sáum furðulegt fólk, her af sköllóttum mönnum, hálft körfuboltalið unglinga, gæsir í bleikum jökkum og sérlega drukkin hjón í Riminigöllum, líkast til komin beint af flugvellinum.
En nú er sunnudagur og sólin skín inn um gluggann, Sölvi sefur en við hin kúrum yfir tölvuskjám, hvert okkar í eigin netheimi. Það er stundum svo ágætt að gera ekki neitt.

mánudagur, maí 21

veðravíti

Ég get ekki bloggað nema örstutt, því að hér er sumar og sól og ég verð að smella mér á ströndina því Esjan er hvít og engu spáð nema rigningu í Skotlandi alla næstu viku. Best að nýta þetta! Bera á sig sólvörn og pakka svo niður öllum sumarbúningum. Norte norte, aye aye aye!

sunnudagur, maí 13

Hvað gengur fólkinu til?

16 ár. Er það bara ekki orðið gott? Hvernig í ósköpunum bætti D við sig 3 þingmönnum? Allur auður er kominn á hendur örfárra manna, þjóðin er skuldum vafin með blóð írakskra borgara á samviskunni auk náttúruspjallanna uppi á öræfum og annað eins á leiðinni. 4 ár til. Ég er búin að reka títuprjóna í augun á mér og undir neglurnar, skafa húðina með ostaskera af sköflungnum á mér og drekka asinton, en mér líður ekkert skárr. Off! Ég hef ákveðið að leggjast í pólitíska útlegð, ég neita að búa í sjálfstæðisbæli ... og F hélt sínu! Off! Off Boff! Og rassgat. Auglýsi hér með eftir huggulegri íbúð í Barselóna eða Skotlandi.

laugardagur, maí 12

Litli tölvufanginn

Það er sumar í Barselóna: salsatónlist glymur um Poble Sec og einhversstaðar eru Brassar og Afríkanar að berja trumbur. Fuglarnir syngja og sólin skín, fólk situr á kaffihúsum eða fær sér lúr á ströndinni. Allir nema ég. Ég sit inni við tölvuna mína og þýði allskonar litla texta á milli þess sem ég bölva og ragna því að tölvan mín hreytir annað slagið í mig þessum skilaboðum: Limited or no connectivity. Sem er bara bull og svo segir hún: No wireless adapter available in the system. Sem er líka bull. En ég fæ engan botn í þetta og eina sem ég get gert er að slökva á tölvunni og kveikja svo á henni aftur. Það hef ég gert fjórum sinnum í dag. Gaman.

fimmtudagur, maí 10

Back in the USSR

Júróvisjón - for alvor... hvað er pointið, hádramatísk dragdrottning frá Danmörku komst ekki einu sinni áfram. Hýra fönksveitin fra´Belgíu ekki heldur. En cheapest chic on the block í pjötludressinu flaug í gegn með hárlengingar að vopni. OY VAY! En aðalkeppnin lítur ágætlega út og Auja og Tóti hafa keypt sjónvarp í tilefni dagsins. Vei!

mánudagur, maí 7

Til eru fræ

Ég vildi bara segja frá því að við Embla erum að fara á tóneika í kvöld með Mick Harvey and the Bad Seeds. Hljómar furðulega, ekki satt. Eins og einhver hliðarveruleiki. En sumsé ekki Nick og Bad Seeds heldur Mick og Bad Seeds. Ég sem hélt alltaf að Mick væri fræ sjálfur. En hvað er þá Nick?

föstudagur, maí 4

HVAÐ????!!!!!

Kosningahitinn búinn að gjörsteikja allt þarna heima. Við fengum ÞESSA sendingu í dag hingað á Borrell. Ég ... ég bara ... nei, ég á ekki til eitt einasta orð. Ekki eitt.

fimmtudagur, maí 3

Embéellpúnkturis

"Ég var undir vatni í blautbúningi ..."

Einhver niðurskurður þarna í prófarkalesaradeild mbl? Hver er þýðir eiginlega þessar fréttir?
Höff.

miðvikudagur, maí 2

Ekki fá grillur yfir grjótinu mínu


Það er eitthvað búið að taka sér bólfestu undir vinstra herðablaðinu á mér. Mjög vont. Ég hef reynt að ropa, teygja úr mér, hanga, liggja, hoppa og anda djúpt en þetta haggast ekki. Það kommentar enginn lengur á þetta blogg. Það er leiðinlegt - ég hef áður sagt hversu barnaleg ég er: nenni ekki að blogga þegar ég fæ ekkert fídbakk.
Ég er með Jenny from the Block á heilanum: Don't be fooled by the rocks that I got; I'm still I'm still Jenny from the block, used to have a little now I have a lot but I know where I come from. Æðislegt. Rosalega gott að vinna þegar þetta helvíti sönglar í hausnum á manni á replay.
Komst að því að thaibuxurnar mínar sem ég tók miklu ástfóstri við á Indlandi hafa hlaupið um 10sm í þvotti.
Þarna er ég á bazaar í Jaipur, veit ekki hvað er með þessa pósu, Miss Tyra myndi slá mig utan undir og svo faðma mig (atleast I'm showing neck) en þarna eru umtalaðar brækur, og hanga niður við ökkla, í dag eru þær á miðjum kálfa hér um bil. Skelfilegri útskýring á þessu gæti verið að buxurnar hafi ekki hlaupið heldur að ég hafi hlaupið í spik á Spáni. Það væri alveg til að toppa daginn hjá mér.

þriðjudagur, maí 1

1. maí

www.solvibloggar.blogspot.com