Helga Soffia

Karibuni

föstudagur, desember 31

Að loknu ári

Jæja, þá er komið að því, kalkúnninn út troðinn af allskyns fíneríi og íbúðin svona nokkurn veginn gestahæf. Við ætlum að kveðja gamla árið með Steinar og Öglu, doktor Brynju sem sá fyrir þaki yfir hausinn á okkur (og miklu meira)í rúmar 3 vikur og svo Stefáni og Elínborgu nýgiftu stærðfræðingunum. Við byrjum á því að fá okkur kampavín og mat, kannski kíkjum við á skaupið (do I dare? Eyðilagði næstum því partýið í fyrra) og svo förum við í veisluna. Hogmanay byrjaði með mikilli brennu (sjá sölvablogg) í fyrradag og í gær voru allskonar furðuverur á George Street, m.a. brjálæðislega flott humarfólk á stultum, 4 metra villigöltur og fljúgandi stúlka bundin neðan á zeppilin loftbelg. Ég er enn að naga mig í handarbakið yfir að hafa gleymt myndavélinni.
Líkamsmeiðingarnar hafa ekki einskorðast við handarbaksnag heldur tókst mér með ótrlúlegum klaufaskap hins vansvefta kokks að skera ofan af þumlinum á mér við þð að saxa lauk.
En hvernig var árið 2004?
Bara helvíti fínt. Með þeim bestu verð ég bara að segja.
Það byrjaði á áramótaboði á Njallanum þar sem borðið bókstaflega svignaði undan veitingunum og við skemmtum okkur með góðu fólki á Sæbóli. Síðan voru einhver blankheit og smávægileg vonbrigði en svo fór allt að verða svona helvíti fínt. Við kláruðum að gera upp íbúðina, Pollo kom í heimsókn, við fórum í stórkostlega ævintýraferð norður í land og upp á hálendi, við fórum í sumarbústaðinn hans Sigga, svo í sumarbústaðinn hennar Ninnu sem kenndi okkur dóminó og undur þess að busla í uppblásnum potti,tókum myndir af draugi á Þingvöllum, fórum á Reynishóla með Ástu og sóluðum okkur á ströndinni, sáum gjörningaþoku gleypa Dyrhólaey, ég fór til Köben og hitti Auju og Tóta og fleira skemmtilegt fólk, svo fórum við til Barcelona líka, Sölvi fékk inn í Stirling, ég kláraði BA ritgerðina mína á viku, Einar bróðir útskrifaðist úr leiklistarskólanum og flutti heim frá London, ég fékk McCall Smith til þýðingar (=minni blankheit), Davíð Oddsson hætti að vera forsætisráðherra, Úlfur litli vinur minn fæddist, við fluttum hingað til Edinborgar, heimsóttum Sigga og Gunnhildi í Stokkhólmi, fengum heimsóknir sjálf (Inga Þóra, Ásta, Pabbi, Mamma, Einar Örn og Siggi Sveins.) Þetta hefur verið framanaf alveg indælisár þótt ég verði að segja að þessi síðasti mánuður þess hafi verið ansi heví. Ég vona að nýtt ár verði ekki í stíl við hann og að það séu bjartari dagar framundan.
Ég hef ákveðið að taka upp reglu Silviu vinkonu minnar og ignorera allar sléttar tölur svona afmælisdagalega séð (nema þegar um sléttan tug er að ræða). Þá verð ég aftur 31 í ár, 33 svo næst og þar næst, svo þrjátíu og fimm og svo koll af kolli. Þannig er ég alltaf yngri annað hvert ár. Sniðugt. Oddatölur eru líka fallegri en sláttar tölur. Skál fyrir 2005! Elsku bestu ég þakka ykkur fyrir allt gamalt og gott og óska ykkur gleðilegs nýs árs!

miðvikudagur, desember 29

Agla og Steinar

Halló halló Agla og Steinar nú nálgast hin mikla áramótaveisla og okkur vantar bláberjaskyr.is. gætuð þið komið með eina litla dollu í desertin. Danke.

þriðjudagur, desember 28

Nóaflóðið

Ég er alveg miður mín yfir þessum hörmungum við Indlandshaf. Aumingja fólkið, og var þá nóg á það lagt fyrir. Það er talað um að að minnsta kosti 100þ hafi farist en þetta eru ekki bara tölur. Maður áttar sig á því þegar maður nær að tengja einhvernveginn persónulega. Sá til að mynda tveggja ára sænskan dreng sem minnti mig á Einar litla bróður þegar hann var lítill. Hann var einn og yfirgefinn, foreldranna saknað. Svo sá ég að amk 10 Tansanir hafa farist - það er ótrúlegt, fleiri þúsund kílómetra frá upptökunum. Nú er að vona að þjóðir heimsins séu ekki sömu nánasadjöflarnir og Bandaríkjamenn sem buðu brotabrot af því sem þeir eru að eyða í stríðsrekstur í Írak.

mánudagur, desember 27

Kók kaffi og karamellur

Allur þessi sykur hefur orðið þess valdandi að allar svefnvenjur hér á heimilinu hafa farið í algjört rugl. Ég sef ýmist ekkert á nóttunum eða allt of mikið. Vaknaði til að mynda klukkan 3 í dag og rétt náði að drattast undir teppi í sófanum og kveikja á sjónvarpinu til að horfa á Scotland Today - Highlights of 2004. Við vorum í mat hjá Líneyu og Davíð í gær og spiluðum við Popppunktspilið alveg lengst fram eftir nóttu. Það er bara ansi ágætt spil svona ef maður hefur einhvern smúle áhuga tónlist. Ég er svo búin að vera að reyna að hafa mig í að fara að þýða núna í nokkra klukkutíma en er með einhvern óskaplegan verkkvíða. Er bara með einhvern almennan kvíða þessa dagana sem er sprottin úr ýmsum áttum. Til dæmis ætlaði rithöfundur að leigja íbúðina meðan við færum heim en hann hringdi áðan og beilaði, ég þarf að komast að því hvernig ég borga tv licens og council tax, passinn minn er útrunnnin og blöddí konsúllinn svarar mér ekki - við förum 6. janúar heim - og så videre. Ég hlakka þó til áramótana og vona að það verði ekki sama vonskuveðrið og er núna (eins og það var nú fallegt hérna um jólin) en við ætlum að bjóða fólki hingað í mat áður en við förum niður í garða í partýið og kíkjum á hvernig skotar halda upp á árskiptin

föstudagur, desember 24

Jólakveðjur

Þetta eru skrítin jól. Ég vil biðja alla að hugsa fallega til hennar Hildar minnar, Ragga og Gests því að hún Erla dó í morgun. Erla var miklu meira en bara mamma vinkonu minnar, því að fjölskyldur okkar hafa átt samleið lengi, upplifað óvenjulega hluti saman á óvenjulegum stöðum. Erla og Gestur bjuggu í Kenya þegar við bjuggum í Tanzaníu og buðu okkur til sín oftsinnis og við höfum átt nokkur jólin saman. Þau fluttu seinna í samliggjandi hús við pabba og mömmu í Hjallaselinu og verið bæði góðir nágrannar og góðir vinir. Erla var mikil baráttukona og stofnaði kertagerð í Uganda til að styðja við bakið á stúlkum sem hafa lent á götunni vegna eyðni.
Svona á ekki að gerast á jólunum.
Ég er sorgmædd en óska ykkur öllum samt gleðilegra jóla.

fimmtudagur, desember 23

Hugsa heim

Í dag hugsa ég heim. Heim til Hildar, Ragga og Gests. Heim til Erlu.

miðvikudagur, desember 22

Gluggaþvottur og annað vesen

Ég er rosalegt jólabarn. Mér finnst æðislegt að hengja upp seríur, búa til kransa, skreyta jóltréð, sjá allt þetta glit og gler og fínerí. Gaman líka að öllu laumustandinu, finna leiðir til að fela góssið fyrir þeim sem eiga að fá það, pakka því inn þannig að það er erfitt að sjá hvað það er og svo frameftir götunum. EN mér finnst rosalega leiðinlegt að standa í jólahreingerningunum, ég hef yfirleitt svo hrikalega mikið að gera fyrir jólin að ég má ekkert vera að því en samt finnst mér ómögulegt að hafa ekki hreint og fínt (og hrein sængurföt - er á nettum bömmer yfir að vera ekki með neitt hvítt á rúmið hérna). Og nú stend ég frammi fyrir nýju vandamáli - skítugum gluggum. Einhvernveginn verða gluggarnir miklu skítugari hér en heima, ég held að það sé nú ekki vegna þess að það er allt svo skvíkí klín og ómengað heima, heldur vegna þess að það er verið að gera upp kirkjuna (bloggaði um kirkjuviðgerðarslys um daginn)og það felst meðal annars í því að pússa upp steininn sem svo fýkur á gluggana mína. Ég veit ekki afhverju en ég bara meika alls ekki að þrífa þá... skil það ekki, ég var svo dugleg að pússa gluggana í Barcelona, en það var líka bara þægilegt að opna upp á gátt í hitanum... djöfull er þetta annars mikið leiðindahjal. Ég bið forláts, ég veit ekki hvað kom yfir mig.

þriðjudagur, desember 21

Bein útsending

Halló halló! Hér er bein útsending frá Edinborg. Tengdapabbi var að koma hingað inn og er nú að rífa upp úr töskunum: 3 stykki af reyktum silung (Veiðivatnasilungur), þurrkað læri, harðfiskur, RIIIIISA jólapakki, grjónagrautamix, meiri pakkar (vei), hmm spennandi umslag stílað á sör sigurð frá tengdó(vakti mikla lukku), vei, appollolakkrís, síríus súkkulaði, ORA grænar baunir, annað nammi sem ég sé ekki alveg hvað er (sennilega eitthvað nýtt), koníak, rioja rauðvín, jóladagskránna frá Selfossi, annar pakki... mega spennó. Jæja nú er ég farin að hengja upp jakkafötin svo hann geti verið fínn á jólunum.

mánudagur, desember 20

Rétt aðeins

Má ekkert vera að því að blogga en ætla bara rétt að stinga nefinu inn, annars skammar Siggi mig, en já... hvað er málið með Bobby Fischer? Bandbrjálaður maður vann einhverja helvítis skákkeppni áður en ég fæddist og þá á bara að tjalda öllu til, stofna diplómatískum tengslum í hættu og spítta í gegn um allar venjulegar reglur og aðferðir til að veita manninum landvistarleyfi. Þeir eru nú ekki alltaf jafn liðlegir...

sunnudagur, desember 19

Til hvers blogg? (svona eru jólin)

Þetta er ekki heimspekileg spurning hjá mér. Ég var að lesa bloggið mitt núna og leitaði að nýjum kommentum en það hefur ekkert gerst. Og þá fór ég að pæla í því til hvers ég væri eiginlega að blogga. Ég hef ekki sagt mörgum frá blogginu mínu og ætlaði aldrei að gera það því mér finnst ég í rauninni ekki vera bloggari, en samt verð ég alveg megasvekkt þegar það eru engin komment... þá er eins og enginn hafi lesið þetta, og ef enginn les þetta hvað er þá pointið? Ég hélt nefnilega að ég væri bara að blogga vegna Sigga því ég var alltaf að sníkjublogga á kommentakerfið hans, hafði samt enga trú á þessu. En svo er ég sennilega bara eins og hinir... ég vil að fólk kíkji inn og skrifi eitthvað til mín. Það er gaman. Það er nefnilega það sem er gaman við að blogga, það er eins og að opna jólapakka. Maður opnar síðuna sína og gáir spenntur hvað er í henni. Svo gleðst maður yfir því að sjá tölur í stað 0 í kommentakerfinu og smellir spenntur á til að sjá hver skrifaði eitthvað. Og það skiptir engu máli hvað fólk skrifar í rauninni - því það er hugurinn sem gildir!

laugardagur, desember 18

66°Norður

Hvað er málið með þessa 66°Norður auglýsinga herferð? Á það að virka æðislega vel á mann að sjá eitthvað fólk með úldin fýlusvip í grámyglulegu umhverfi? Ég veit að það er voða vinsælt að hafa svona ólundarsvip í auglýsingum, en hann á að vera meira svona come-hither ekki þessi bitchtussusvipur sem fyrirsæturnar eru með. Sjá til dæmis hana Elínu sem er virkilega falleg kona og bara ansi skemmtileg en þarna á þessari bölvuðu mynd er hún eins og leiðindatíkin sem vinur manns er nýfarinn að draga með sér í sumarbústaðaferðir. Elín 66°N: "oh, djöull eredda lið eittvað leim, ég ætla sko ekki í neina fokkin göngu."
Í sumar var risastórt auglýsingaplakat á almenningsklósettinu á Frakkastíg við Iðnskólann með stelpukrakka sem mig langaði til að flengja og henda inn í herbergi þangað til að hún gæti hagað sér innan um fólk. Úr svipnum skein vandlætingin. 66°N krakkahelvíti: "Ég ætla ekki að fara á þetta leikjanámskeið. NEI NEI NEI! Mamma getur brennt þessa glötuðu úlpu, ömurlega hallærisleg, glætan að ég nenni að hitta *nafn* svona."
Það ótrúlegasta af öllu er að þessi herferð fékk einhver verðlaun - fyrir að "sýna vel klædda Íslendinga í þungri og hrikalegri íslenskri veðráttu." Riiiiiight

Já, ég bara varð aðeins að koma inn á þetta. En Sölvi er þunnur. Mjög. Steinar líka. Þeir sátu saman fram á morgun, Steinar lýsti þessu vel í símann áðan: "Við hengum hvor yfir öðrum eins og tveir hrægammar". Ég er ekki þunn. Vei. Enda beilaði ég á hrægammapartýinu á réttum tíma. Agla líka. Við erum eldri og þær sem vitið hafa. Ó,jájá.

föstudagur, desember 17

Heim á þrettándanum

Við Sölvi förum ekki heim um jólin, við ætlum að tékka á skoskum jólasiðum og demba okkur í víðfrægt áramótapartý hérna í Princess Street Gardens. Við sendum öllum auðvitað jólakveðjur og áramótastuðbolta.

Hinsvegar ætlum við að fara heim á þrettándanum og staldra við í nokkra daga eða til 18. janúar. Hún Ásta ætlar að leyfa okkur að vera í glænýrri íbúð sinni á Hofsvallagötunni. Það verður gaman að sjá þá sem enn verða á landinu.

Dem! Fór út með ruslið í morgun áður en ég fór að sofa það hafði nenfilega safnast upp á meðan familían var hér. Þetta er gallinn við að búa í elsta hluta borgarinnar - það eru engir ruslagámar þannig að maður verður að setja ruslið út milli 9-10 á þriðjudögum og fimmtudögum, svo kemur ruslabíll að ná í það. Eitthvað virðast þessir dagar þó vera á reiki því að það má sjá ruslapoka við gangstéttarbrúnina flesta virka daga, eins og í morgun. Ég prísaði mig sæla, fór í kápu yfir náttfötin, smellti mér í inniskó og dröslað 3 ruslapokum niður í lyftunni og út sundið á stéttina. Fór svo inn að sofa helvíti ánægð með mig. Hvað haldiði? Mér verður litið út um gluggan um þrjúleytið (þegar ég vaknaði)og þá er búið að taka allt rusl nema pokana mína þrjá og svei mér þá ekki ef bölvaður Skotinn sé ekki búinn að setja miða á þá! Nú er ég í kvíðakasti og veit ekki hvað ég á að gera - fara út ná í ruslið? Horfa þá allir á mig með svona "Oooh, luk there's a wee li'l litterbum"? Og ef ég læt mig hafa það, hvað á ég þá að gera við ruslið sem er búið að standa þarna í rigningunni? Pirringurinn í mér bendir til þess að ég sé á höfnunarstigi kúltúrsjokks.

fimmtudagur, desember 16

Loksins

Jæja þá kemst ég loksins í að blogga. Ég hef gert nokkrar tilraunir en þær dóu í fæðingu sökum andleysis. Ég lendi til dæmis alltaf í vandræðum með titilinn á þessum bloggum, stari líka alltaf lengi á subject línuna á emilum. En já. Nú erum við orðin ein í kotinu og það verður að segjast að ég varð hálfeinmana á þriðjudeginum þótt að það sé auðvitað líka ágætt að snúa sér aftur að vinnu enda liggur mikið á. Nú er ég að reyna að klára bók #3 í Sögum úr bálki hrakfalla vegna þess að jólmyndin í ár er gerð eftir fyrstu bókunum. Þetta eru mjög skemmtilega twisted barnabækur þar sem allt er óskaplegt.
Talandi um ósköp, það var þvílíkt drama hérna í hádeginu (þá vorum við nývöknuð)með ambúlönsum og kranabíl frá slökkviliðinu. Það er verið að flikka upp á St. Giles hérna beint á móti og búið að slá upp stillönsum utan á kirkjuna. Svo illa vildi til að einn af verkamönnunum datt niður stiga og lá rotaður á næstneðsta pallinum á meðan hetjurnar stumruðu yfir honum og bundu hann á sjúkrabörur sem þeir svo komu yfir á kranabílinn. Við stóðum heilluð og fylgdumst með snörum handtökunum, aðstæður voru hinar verstu, rigning og rok og erfitt að athafna sig á þröngum stillansinum. En þetta tókst allt hjá þeim og okkur sýndist sem að maðurinn væri kominn til meðvitundar áður en honum var stungið inn í bílinn.
Svona er að búa á Royal Mile... var því miður ekki farin að blogga þegar drottningin og allt hennar lið gekk hérna framhjá glugganum á undan borgastjóranum, þingmönnunum og svo ekki sé minnst á Sean Connery sem var sá eini sem leit um og veifaði til mín.
Ég var annars að klára bókina hennar Auju sem Palli sendi með mömmu. Ég las hana í handriti og var ákaflega hrifin en henni hefur tekist að gera hana enn betri og ég vona svo sannarlega að stelpan taki þessi verðlaun - hún er líka búin að lofa partýi í Morokkó ef svo fer. Go! Go! Go!

laugardagur, desember 11

Málamyndablogg

Má eiginlega ekkert vera að því að blogga þar sem ég er með fullt hús af gestum. Ég verð bara að koma einu að sem ég las í Metro -ókeypisblað sem er í strætó og lestunum - því það hefur sótt svo á mig. Þar var frétt sem sagði að 45 milljón börn munu deyja í ár vegna niðurskurðar ríku þjóðanna í þróunaraðstoð. Bandaríkin gefa minna en 1/10 af því sem þeir hafa eytt í að skapa ringulreið í Írak. Mér finnst þetta mjög sláandi...
En gleðilegri fréttir eru að pabbi minn er sextugur í dag. Vei!

fimmtudagur, desember 9

Heimsókn

Pabbi, mamma og Einar bróðir(leikari, mjög góður og þægilegur í umgengni - vantar vinnu. Áhugasamir hafi samband) komu í dag. Dauðuppgefin enda komust þau ekki í að pakka fyrr en eftir miðnæti vegna símhringinga og gestagangs. En þau pökkuðu vel. Palli Vals hinn frækni útgáfustjóri MM og vinur minn sendi mér fullt af skemmtilegu lesefni, þar á meðal bókina hennar Auju og Bítlaávarpið eftir Einar Má. Bjartsmenn sendu mér síðan Samkvæmisleiki eftir Braga og Börnin í Húmdölum - splatterinnpúttið í íslenskar bókmenntir, að mér skilst. Þannig að nú get ég loksins tjáð mig af einhverju viti um þessar tilnefningar - ef ég nenni...
Við fórum í stuttan göngutúr, fengum okkur eina pintu og keyptum nokkrar jólagjafir en síðan ákvað fólk að leggja sig. Mamma og Pabbi voru reyndar að skríða fram þannig að ég ætla að hætta að nördast á netinu og sinna familíunni ... Bush segir að það sé mikilvægt að sinna familíunni, hugsanlega það eina gáfulega sem hann hefur ælt út úr sér um ævina. Svo verð ég að fá Sigga til að kenna mér að linka...

þriðjudagur, desember 7

Bókmenntaverðlaun

Ég er búin að pæla svolítið í þessum íslensku bókmenntaverðlaunum... mér finnst þau alveg frábær hugmynd, það er ástæða til að fagna því að við getum í svona litlu landi haldið uppi öflugri bókastarfssemi - það er eiginlega óskiljanlegt. En höfundarnir lifa varla á þessu, ég þekki það sjálf, bý nú með einum, þannig að það er um að gera að klappa þeim svolítið á öxlina fyrir að stuðla að því að við séum þjóð meðal þjóða. EN tímasetning þessara tilnefninga hefur alltaf truflað mig og ég hef verið að reyna að átta mig á því hvað það er sem fer svona í taugarnar á mér.
Fyrst er það auðvitað þetta sem maður heyrir útundan sér að það sé ekkert að marka þetta því að það eru bókaútgefendur sjálfir sem standa að þessu og að þetta sé bara sölutrix. Ég er mjög fylgjandi sölutrixum þegar kemur að bókum, mér þætti tildæmis stórkostlegt sölutrix ef að yfirvöld myndu feta í fótspor yfirvalda hér og hætta að skattleggja bækur. En það er rétt að það að koma með þessar tilnefningar í byrjun desember rýrir gildi þeirra og ekki aðeins vegna þess að almenningur á til að halda að þetta sé bara sölutrix.
Ég vann í fjöldamörg ár í bókabúð og kosturinn við það var að maður komst í jólabækurnar um leið og þær komu út. Ég las allt sem vakti áhuga minn og gluggaði í flest annað. Ég myndaði mér skoðun um hvaða 10 bækur ég vildi sjá tilnefndar og það hefur oft gerst að ég skildi ekki alveg val nefndarinnar. Í þetta sinn var ég glöð að sjá Auju vinkonu þarna (ekki bara er hún skemmtileg og góð heldur er hún með frábæra bók) og Guðrún Helgadóttir er Astrid okkar Íslendinga. Karlarnir þrír eru allir fínir rithöfundar en spurning hvort ekki hefði átt að tilnefna Einar og Sigfús fyrir einhverjar aðrar bækur en þessar? Ég er enn að tína andlitið upp af gólfinu heima hjá mér yfir að Bragi hafi verið skilin eftir útundan... og ég bjóst við Steinari Braga þarna -enda með eina mestu stemmingsbók sem ég hef lesið lengi.
En þetta fór svona og ég velti því fyrir mér hversu mikið er að marka þessar tilnefningar. Þetta aumingja fólk sem situr í þessari nefnd þarf að lesa alveg ógrynni af bókum á fáránlega stuttum tíma til að hægt sé að koma með tilnefningarnar í desember. Er þeim ekki orðið óglatt? Eru þau ekki búin að ódía á litteratúr? Eru þau ekki löngu búin að missa skynbragð á hvað er fínt og hvað er frábært? Rennur þetta ekki bara allt saman? Er þetta ekki eins og að reyna að borða 50 konfektkassa á einu kvöldi? Eða eins og að reyna að velja sér ilmolíu eftir að hafa þefað af öllum stinkandi olíuglösunum í Body Shop?
Ég man að þetta varð svolítið svona þegar ég var að lesa í jólabókavertíðinni til að hafa vit á því sem var í boði, maður hafði ekki tíma til að njóta bókanna, hugsa um þær, leyfa þeim að síast hægt í gegn um vitundina, athuga hvort þær sátu í manni á eftir og leituðu á mann eins og góðar bækur gera. Samt las ég ábyggilega helmingi minna en þessi blessaða nefnd þarf að gera.
Þetta er auðvitað alltaf bara skoðun nokkurra einstaklinga en ég er svo hrædd um að þeir nái ekki almennilega að mynda sér skoðun, alla vega ekki að vandlega íhuguðu máli.
Væri ekki nær að hafa þessar tilnefningar aðeins seinna? Bæði til að gefa þessu fólki þann tíma sem það ætti að þurfa til að ákveða hvað séu bestu bækurnar (höfundarnir sem hafa eytt svo mörgum stundum í að skapa listaverkið eiga það líka skilið) og líka til að við hin getum fengið að velja okkar eigin jólabækur í friði. Með þessum 10 bóka tilnefningum er verið að takmarka jólabókamarkaðinn við 10 bækur sem eru kannski og kannski ekki bestu bækurnar í boði. Það þýðir ekkert að segja að þetta sé til að auka umræðuna eða vekja athygli á bókum almennt - það virkar ekki þannig. Ég veit hvernig þetta virkar, ég vann í bókabúð. Þetta virkar þannig að þessar tíu bækur fá límmiða og heiðurssess í bókabúðunum og fólk kaupir þær frekar en frábæru bókina hans Braga því það er búið að segja því að þetta séu bestu bækurnar. Ég veit að það er til fleira fólk eins og ég sem tekur ekki nefndina á orðinu, en flestir gera það. Til hvers að setja sig inn í þetta þegar það er búið að fá "sérfræðinga" til að gera það fyrir mann? Mamman kaupir tilnefndu bókina hans Einars handa þrítugum syni sínum því hún ER góð (miðinn segir henni það) en veigrar sér við að kaupa bókina hans Steinars Braga jafnvel þótt að afgreiðslukonan sem hefur lesið báðar bækurnar mæli tvímælalaust frekar með henni.
Mér finnst að þessar tilnefningar væru meira virði ef þær væru eftir vertíðina, ég held að fólk myndi setja sig meira inn í það sem er í boði, sölutrix stimpillinn væri farin af verðlaununum og það væri líka hægt að vanda til verka.
En þetta er bara mín skoðun...

mánudagur, desember 6

Uppgjöf

Ok ég gefst upp. Ég verð bara að hætta þessu sníkjubloggi - ætlaði að leggjast á bloggið hans Sölva með sníkjubloggi á kommentið hans, lenti í einhverjum bölvuðum vandræðum þannig að ég ákvað bara að játa mig sigraða og ganga í lið bloggaranna. Ég er líka alltaf síblaðrandi, eins gott að veita því einhverja leið, það er ekki hægt að leggja það eilíflega á aumingja Sölva að meðtaka og bregðast við munnræpunni í mér (þú hlustar aldrei á mig! blablabla). Já, þannig að ég hef innreið mína hér á blogspot punktur com (hver kom? haha...dísös - æ ég er stundum svolítið mikið ein) enda nýbúin að ljúka við langa þýðingu. Þarf ég að segja eitthvað meira? Gæti svosem farið út í George Michael umræðuna og hvað mér finnst mikill viðbjóður að kommersjal batteríið sé orðið svo allsráðandi að listamenn megi ekki einu sinni gagnrýna yfirvöld lengur en ég er eiginlega bara ekki í stuði... ég var nefnilega að fá sorglegar fréttir að heiman og held að ég láti háhestinn bíða aðeins.