Helga Soffia

Karibuni

föstudagur, desember 31

Að loknu ári

Jæja, þá er komið að því, kalkúnninn út troðinn af allskyns fíneríi og íbúðin svona nokkurn veginn gestahæf. Við ætlum að kveðja gamla árið með Steinar og Öglu, doktor Brynju sem sá fyrir þaki yfir hausinn á okkur (og miklu meira)í rúmar 3 vikur og svo Stefáni og Elínborgu nýgiftu stærðfræðingunum. Við byrjum á því að fá okkur kampavín og mat, kannski kíkjum við á skaupið (do I dare? Eyðilagði næstum því partýið í fyrra) og svo förum við í veisluna. Hogmanay byrjaði með mikilli brennu (sjá sölvablogg) í fyrradag og í gær voru allskonar furðuverur á George Street, m.a. brjálæðislega flott humarfólk á stultum, 4 metra villigöltur og fljúgandi stúlka bundin neðan á zeppilin loftbelg. Ég er enn að naga mig í handarbakið yfir að hafa gleymt myndavélinni.
Líkamsmeiðingarnar hafa ekki einskorðast við handarbaksnag heldur tókst mér með ótrlúlegum klaufaskap hins vansvefta kokks að skera ofan af þumlinum á mér við þð að saxa lauk.
En hvernig var árið 2004?
Bara helvíti fínt. Með þeim bestu verð ég bara að segja.
Það byrjaði á áramótaboði á Njallanum þar sem borðið bókstaflega svignaði undan veitingunum og við skemmtum okkur með góðu fólki á Sæbóli. Síðan voru einhver blankheit og smávægileg vonbrigði en svo fór allt að verða svona helvíti fínt. Við kláruðum að gera upp íbúðina, Pollo kom í heimsókn, við fórum í stórkostlega ævintýraferð norður í land og upp á hálendi, við fórum í sumarbústaðinn hans Sigga, svo í sumarbústaðinn hennar Ninnu sem kenndi okkur dóminó og undur þess að busla í uppblásnum potti,tókum myndir af draugi á Þingvöllum, fórum á Reynishóla með Ástu og sóluðum okkur á ströndinni, sáum gjörningaþoku gleypa Dyrhólaey, ég fór til Köben og hitti Auju og Tóta og fleira skemmtilegt fólk, svo fórum við til Barcelona líka, Sölvi fékk inn í Stirling, ég kláraði BA ritgerðina mína á viku, Einar bróðir útskrifaðist úr leiklistarskólanum og flutti heim frá London, ég fékk McCall Smith til þýðingar (=minni blankheit), Davíð Oddsson hætti að vera forsætisráðherra, Úlfur litli vinur minn fæddist, við fluttum hingað til Edinborgar, heimsóttum Sigga og Gunnhildi í Stokkhólmi, fengum heimsóknir sjálf (Inga Þóra, Ásta, Pabbi, Mamma, Einar Örn og Siggi Sveins.) Þetta hefur verið framanaf alveg indælisár þótt ég verði að segja að þessi síðasti mánuður þess hafi verið ansi heví. Ég vona að nýtt ár verði ekki í stíl við hann og að það séu bjartari dagar framundan.
Ég hef ákveðið að taka upp reglu Silviu vinkonu minnar og ignorera allar sléttar tölur svona afmælisdagalega séð (nema þegar um sléttan tug er að ræða). Þá verð ég aftur 31 í ár, 33 svo næst og þar næst, svo þrjátíu og fimm og svo koll af kolli. Þannig er ég alltaf yngri annað hvert ár. Sniðugt. Oddatölur eru líka fallegri en sláttar tölur. Skál fyrir 2005! Elsku bestu ég þakka ykkur fyrir allt gamalt og gott og óska ykkur gleðilegs nýs árs!

1 Comments:

At 5:47 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gleðilegt ár elsku Helga, Sölvi, Brynja og aðrir sem vilja kannast við mig. Hlakka óstjórnlega til að hitta ykkur skötuhjú í næstu viku.

Veifa brjálæðislega,

Embla

 

Skrifa ummæli

<< Home