Helga Soffia

Karibuni

þriðjudagur, desember 7

Bókmenntaverðlaun

Ég er búin að pæla svolítið í þessum íslensku bókmenntaverðlaunum... mér finnst þau alveg frábær hugmynd, það er ástæða til að fagna því að við getum í svona litlu landi haldið uppi öflugri bókastarfssemi - það er eiginlega óskiljanlegt. En höfundarnir lifa varla á þessu, ég þekki það sjálf, bý nú með einum, þannig að það er um að gera að klappa þeim svolítið á öxlina fyrir að stuðla að því að við séum þjóð meðal þjóða. EN tímasetning þessara tilnefninga hefur alltaf truflað mig og ég hef verið að reyna að átta mig á því hvað það er sem fer svona í taugarnar á mér.
Fyrst er það auðvitað þetta sem maður heyrir útundan sér að það sé ekkert að marka þetta því að það eru bókaútgefendur sjálfir sem standa að þessu og að þetta sé bara sölutrix. Ég er mjög fylgjandi sölutrixum þegar kemur að bókum, mér þætti tildæmis stórkostlegt sölutrix ef að yfirvöld myndu feta í fótspor yfirvalda hér og hætta að skattleggja bækur. En það er rétt að það að koma með þessar tilnefningar í byrjun desember rýrir gildi þeirra og ekki aðeins vegna þess að almenningur á til að halda að þetta sé bara sölutrix.
Ég vann í fjöldamörg ár í bókabúð og kosturinn við það var að maður komst í jólabækurnar um leið og þær komu út. Ég las allt sem vakti áhuga minn og gluggaði í flest annað. Ég myndaði mér skoðun um hvaða 10 bækur ég vildi sjá tilnefndar og það hefur oft gerst að ég skildi ekki alveg val nefndarinnar. Í þetta sinn var ég glöð að sjá Auju vinkonu þarna (ekki bara er hún skemmtileg og góð heldur er hún með frábæra bók) og Guðrún Helgadóttir er Astrid okkar Íslendinga. Karlarnir þrír eru allir fínir rithöfundar en spurning hvort ekki hefði átt að tilnefna Einar og Sigfús fyrir einhverjar aðrar bækur en þessar? Ég er enn að tína andlitið upp af gólfinu heima hjá mér yfir að Bragi hafi verið skilin eftir útundan... og ég bjóst við Steinari Braga þarna -enda með eina mestu stemmingsbók sem ég hef lesið lengi.
En þetta fór svona og ég velti því fyrir mér hversu mikið er að marka þessar tilnefningar. Þetta aumingja fólk sem situr í þessari nefnd þarf að lesa alveg ógrynni af bókum á fáránlega stuttum tíma til að hægt sé að koma með tilnefningarnar í desember. Er þeim ekki orðið óglatt? Eru þau ekki búin að ódía á litteratúr? Eru þau ekki löngu búin að missa skynbragð á hvað er fínt og hvað er frábært? Rennur þetta ekki bara allt saman? Er þetta ekki eins og að reyna að borða 50 konfektkassa á einu kvöldi? Eða eins og að reyna að velja sér ilmolíu eftir að hafa þefað af öllum stinkandi olíuglösunum í Body Shop?
Ég man að þetta varð svolítið svona þegar ég var að lesa í jólabókavertíðinni til að hafa vit á því sem var í boði, maður hafði ekki tíma til að njóta bókanna, hugsa um þær, leyfa þeim að síast hægt í gegn um vitundina, athuga hvort þær sátu í manni á eftir og leituðu á mann eins og góðar bækur gera. Samt las ég ábyggilega helmingi minna en þessi blessaða nefnd þarf að gera.
Þetta er auðvitað alltaf bara skoðun nokkurra einstaklinga en ég er svo hrædd um að þeir nái ekki almennilega að mynda sér skoðun, alla vega ekki að vandlega íhuguðu máli.
Væri ekki nær að hafa þessar tilnefningar aðeins seinna? Bæði til að gefa þessu fólki þann tíma sem það ætti að þurfa til að ákveða hvað séu bestu bækurnar (höfundarnir sem hafa eytt svo mörgum stundum í að skapa listaverkið eiga það líka skilið) og líka til að við hin getum fengið að velja okkar eigin jólabækur í friði. Með þessum 10 bóka tilnefningum er verið að takmarka jólabókamarkaðinn við 10 bækur sem eru kannski og kannski ekki bestu bækurnar í boði. Það þýðir ekkert að segja að þetta sé til að auka umræðuna eða vekja athygli á bókum almennt - það virkar ekki þannig. Ég veit hvernig þetta virkar, ég vann í bókabúð. Þetta virkar þannig að þessar tíu bækur fá límmiða og heiðurssess í bókabúðunum og fólk kaupir þær frekar en frábæru bókina hans Braga því það er búið að segja því að þetta séu bestu bækurnar. Ég veit að það er til fleira fólk eins og ég sem tekur ekki nefndina á orðinu, en flestir gera það. Til hvers að setja sig inn í þetta þegar það er búið að fá "sérfræðinga" til að gera það fyrir mann? Mamman kaupir tilnefndu bókina hans Einars handa þrítugum syni sínum því hún ER góð (miðinn segir henni það) en veigrar sér við að kaupa bókina hans Steinars Braga jafnvel þótt að afgreiðslukonan sem hefur lesið báðar bækurnar mæli tvímælalaust frekar með henni.
Mér finnst að þessar tilnefningar væru meira virði ef þær væru eftir vertíðina, ég held að fólk myndi setja sig meira inn í það sem er í boði, sölutrix stimpillinn væri farin af verðlaununum og það væri líka hægt að vanda til verka.
En þetta er bara mín skoðun...

1 Comments:

At 10:36 e.h., Blogger Helga said...

Heyr heyr !

 

Skrifa ummæli

<< Home