Loksins
Jæja þá kemst ég loksins í að blogga. Ég hef gert nokkrar tilraunir en þær dóu í fæðingu sökum andleysis. Ég lendi til dæmis alltaf í vandræðum með titilinn á þessum bloggum, stari líka alltaf lengi á subject línuna á emilum. En já. Nú erum við orðin ein í kotinu og það verður að segjast að ég varð hálfeinmana á þriðjudeginum þótt að það sé auðvitað líka ágætt að snúa sér aftur að vinnu enda liggur mikið á. Nú er ég að reyna að klára bók #3 í Sögum úr bálki hrakfalla vegna þess að jólmyndin í ár er gerð eftir fyrstu bókunum. Þetta eru mjög skemmtilega twisted barnabækur þar sem allt er óskaplegt.
Talandi um ósköp, það var þvílíkt drama hérna í hádeginu (þá vorum við nývöknuð)með ambúlönsum og kranabíl frá slökkviliðinu. Það er verið að flikka upp á St. Giles hérna beint á móti og búið að slá upp stillönsum utan á kirkjuna. Svo illa vildi til að einn af verkamönnunum datt niður stiga og lá rotaður á næstneðsta pallinum á meðan hetjurnar stumruðu yfir honum og bundu hann á sjúkrabörur sem þeir svo komu yfir á kranabílinn. Við stóðum heilluð og fylgdumst með snörum handtökunum, aðstæður voru hinar verstu, rigning og rok og erfitt að athafna sig á þröngum stillansinum. En þetta tókst allt hjá þeim og okkur sýndist sem að maðurinn væri kominn til meðvitundar áður en honum var stungið inn í bílinn.
Svona er að búa á Royal Mile... var því miður ekki farin að blogga þegar drottningin og allt hennar lið gekk hérna framhjá glugganum á undan borgastjóranum, þingmönnunum og svo ekki sé minnst á Sean Connery sem var sá eini sem leit um og veifaði til mín.
Ég var annars að klára bókina hennar Auju sem Palli sendi með mömmu. Ég las hana í handriti og var ákaflega hrifin en henni hefur tekist að gera hana enn betri og ég vona svo sannarlega að stelpan taki þessi verðlaun - hún er líka búin að lofa partýi í Morokkó ef svo fer. Go! Go! Go!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home