Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, janúar 30

Eins og jurt sem stóð í skugga

en hefur aftur litið ljós - í vetrarsóóóóóóól.
Sæl og velkomin á bloggið mitt. Í dag er kalt. Ískalt. Svo kalt að ég hef nú legið uppi í rúmi síðan um hádegið (klukkan er 14:55)og ég veit svei mér þá ekki hvort ég þori fram úr. Það gustar upp milli gólfborðanna. En ég er samt kát og bara nokkuð hress.
En hvað get ég sagt ykkur? Hmm, jú! Steinar Bragi fékk 2 ára listamannalaun. Vei! Til hamingju Steinki minn, þú átt þetta (og margt fleira) skilið. Hvenær komiði annars aftur frá Asíu? Þetta er að verða frekar þreyttur djókur. Ég veit alveg að þið eruð bara í felum þarna niðri við Waverly því ég sá þig, Agla, álengdar skjótast inn í lest.
Nei, andskotinn! Ég held að ég hafi rétt í þessu verið bitin á bak við eyrað af einhverju kvikindi. Mýsnar koma sennilega með þetta inn og svo leita pöddurnar upp í hitann hjá manni. Skiljanlega. Sjúga úr manni blóðið. Skiljanlega - það er dísætt og áfengt (ég þurfti smá hvítvín eftir slæmu fréttirnar í gær). Skiljanlegt en ógeðslegt. Svei mér þá ef ég er bara ekki komin með ástæðu til að fara fram úr - heit sturta til að skola blóðsugurnar af mér. I'm gonna wash that thing right out of my hair!
(Takið eftir hvernig ég fer áreynslulaust úr einu lagi yfir í annað... svona er ég nú músíkölsk)

sunnudagur, janúar 29

Fjárhagur versnandi fer

Nefndin sá sér ekki fært að veita SBS listamannalaun þetta árið...
segi ekki meira en hugsa mitt.

laugardagur, janúar 28

Einmitt það

Í Mogganum í kvöld: "...gera má ráð fyrir að Herra Ísland sé fyrirmynd ungmenna í landinu."
HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAAaaaaaaaa.....HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA
HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAH..aaahhhhhmmmhahahmmmm...HAHAHAHAHAHAHAHA!

föstudagur, janúar 27

Titringur

Í dag fengur sumir umslag með gleðifréttum eða sorgartíðindum. Það var sem sagt verið að úthluta listamannalaunum. Hingað barst ekkert umslag. Heldur ekki í fasteignina á Njálsgötunni. Því verður skáldið á Gotlandi að titra og skjálfa fram á mánudag þegar nöfn þeirra útvöldu birtast á netinu. Ég er svo meðvirk (og meðblönk) að ég titra og skelf skáldinu til samlætis.
Ég ætla að bregða undir mig betri fætinum (sá hægri, því að hann er lengri og það eins með leggi og frí - því lengri, því betri)og dansa burt stressið á Burn's Night Ceilidh á laugardaginn. Haggis, viskí og trylltur dans ... (hmm, þetta minnir mig á íslenskt popplag sem mér finnst leiðinlegt eitthvað elegans, stíginn trylltur dans, lifað og leikið, búin að reyna allt sem má...???? Andrea Gylfa???).
En nú er það kaffi sem mig vantar. Strong ínöff tú dífend itself. Um að gera að bæta aðeins i skjálftann.

fimmtudagur, janúar 26

Melantónin og kvíðakast

Svefnvenjur mínar eru fáránlegar og hafa lengi verið það. Ég hélt nú að ég væri loksins búin að höndla tiltölulega normal sólarhring en um leið og hann Sölvi minn fer frá mér þá fell ég aftur í snartruflaðar svefnvenjur. Ég sofna þegar aðrir fara á fætur og vakna um miðjan dag. Píni mig reyndar oftast á fætur hálfeitt - eitt, í þeirri veiku von að ég nái að sofna snemma (fyrir 3). Í fyrradag ákvað ég að nú væri nóg komið og fékk því melantónin (melatónin?) frá US of A hjá Auði Rán til að koma þessu í lag. Ég tók eina kl. 2 (hafði verið á bar að halda upp á afmæli frk. Ástu) og las svo eitthvað þangað til að mér fannst ég mögulega geta sofnað, leit á klukkuna og hún var nýslegin 3 (vei!), slökkti ljósin og sofnaði. Ég vaknaði svo reglulega til að athuga hvort þetta væri ekki alveg ábyggilega að virka. Þegar klukkan hringd í morgun, ákvað ég að snúsa svolítið því að það var ískalt. Á milli snúsa sofnaði ég en vaknaði alltaf með nýjar og nýjar áhyggjur við hvert væl í klukkunni. ZZZZbíbíbískatturZZZbíbíbíþakiðZZZZbíbíbíbíZZZbíbígasreikningurinn...
Ég svaf til 13:20. Men! Melantónið virkar sumsé en ég kemst ekki á fætur því að ég er fáránlegur kvíðasjúklingur ... er ekki til pilla við því?

prófa aftur í kvöld, því eins og maðurinn sagði: if at first you don't succeed, try try again, Mr. Kit.

mánudagur, janúar 23

Ég er ekki rasisti en ...

Ég veit ekki hversu oft ég heyrði þessa setningu fyrst þegar ég flutti til Íslands frá Tansaníu. Fólki fannst eins og það þyrfti alltaf að viðra sína fordóma við mig þegar það vissi að ég hafði búið í "svörtustu Afríku". Svakalegasta botn í þessa setningu heyrði ég þegar ég var að horfa á box þar sem annar keppandinn var hvítur en hinn svartur og þekktur íslenskur boxlýsandi sagði: "Ég er ekki rasisti en ... mér líður eins og það sé verið að lúskra á syni mínum." Svarti keppandinn var sem sagt að rústa þeim hvíta.
En nú er komið nýtt spinn á þetta. Di Canio fyrirliði Lazio var dæmdur í keppnisbann og fjársektir fyrir að heilsa að fasistasið eftir leik. Hann er orðlaus yfir þessu: "Ég er fasisti, en sýni engum kynþáttafordóma ... ég [er] alls ekki að hvetja til ofbeldis, og enn síður til kynþáttafordóma."
Einmitt. Ég er fasisti en ...
Fyrir uppátækið fékk hann ekki nema eins leiks bann. Skerí. Í blaðinu í gær var grein um uppgang nýnasista í Bandaríkjunum og Evrópu og í blaðinu í dag var grein um að nasistar í Austur-Evrópu séu að gíra sig upp í að ráðast á svarta leikmenn á HM. Ég er ekki á móti skoðanafrelsi en ...

sunnudagur, janúar 22

Æ, sunnudagur

Ég lá lengi uppi í rúmi eftir að ég vaknaði og spekúleraði í því hvort ég nennti á fætur. Þessi helgi er búin að vera súperleti. Ég hef ekkert gert. Jú, reyndar, ég las Deception Point eftir Dan Brown. Hann er ömurlegur rithöfundur. Þetta er ömurleg bók. Hann skrifar eins og hann sé að reyna að skrifa mynd eftir John Grisham bók. Persónurnar eru alltaf "Harrison Ford í tvídi" eða líta út eins og "Halle Berry með heilabú Hilary Clinton". Æl æl. Svo stendur ekki steinn yfir steini í þessum plottum hjá honum og maður á að trúa því heimsins bestu vísindamenn fatti ekki hluti sem allir með lágmarksþekkingu á vísindum sjá strax í hendi sér. Hann er líka bara svo skelfilegur penni. Samtölin eru alltaf vandræðaleg (allur kafli 57 er bara aulahrollur út í gegn til dæmis), svona CSI-leg, fólk að romsa upp úr sér upplýsingum hvert ofan í annað til að lesandinn skilji betur hvað gangi á. Ömurlegur. Asnalegasta setning bókarinnar er þessi: Sexton sensed that even in her disillusionment with him, Gabrielle felt a pained empathy to think of a bright young woman in danger.
Ömurð.

miðvikudagur, janúar 18

Espresso Mondo

Nú sit ég inni á kaffihúsi rétt hjá heimili mínu sem er alveg eins og sett í sittkomi. Mér finnst ég alltaf eiga að koma askvaðandi inn, henda mér í sófa (við hliðina á vinum sem eru eins og mubblur á kaffihúsinu) og segja eitthvað eins og: You just wouldn't BE-LIEVE the things I had to do to..... eða: Can anyone tell me just WHY eitthvað eitthvað (ég myndi auðvitað tala ensku því að sittkom eru alltaf bresk eða bandarísk). Ég kem hingað stundum með Ástu að lesa blöðin og drekka kaffi og oft á tíðum erum við ansi sittkomlegar í samræðum, oft bara nokkuð fyndnar... verst að ég man ekki eftir neinu akkúrat núna í augnablikinu til að endurtaka. En ég get sagt ykkur það að ég var að uppgötva að ég er með veikleika fyrir söngvurum með syfjulegar raddir. Ég áttaði mig á því núna vegna þess að Coldplay er í græjunum og þótt ég hafi aldrei fundið þörf hjá mér til að kaupa disk með þeim þá finnst mér notalegt að hlusta á Chris Martin raula í bakrunninum. Hér er listi af nokkrum syfjuröddum:
1. Bono
2. Johnny Cash
3. Kris Kristopherson (Sunday Morning Coming Down... snilld snilld)
4. Stuart Staples í Tindersticks
5. Mugison
6. Leonard Cohen
7. Thom Yorke
8. Luz (söngkona, t.d. á sándtrakkinu á Háir hælar e. Almodovar)
9. Rufus Wainright
10. Chris Martin

þriðjudagur, janúar 17

Bloggað af skyldurækni

Ég hef eiginlega ekkert að segja, eða jújú, það hefur svo sem ýmislegt gerst (ég fór t.d. með Auði og Hemma til Glasgow um helgina - og til Eelie líka) en ég er of andlaus til að segja frá því. En mér finnst ekki hægt að þegja bara og skilja ykkur eftir með blá barabarabapá sönglandi á síðunni þannig ég ákvað að henda inn þessum fáu línum. Þetta minnir mig á það þegar Óttarr Proppé klippti af sér allt hárið á meðan hann var í Ham (jafnvel rétt fyrir kveðjutónleikana í Tunglinu... ahh... súkk og sukk... sælla minninga) og þá sagði Sigurjón hann heddbanga af skyldurækni þótt hárið væri farið.
Já... ömm, einmitt. Ekki að það komi þessu bloggi eitthvað við. Bara einhver nostalgía eftir rokki, heddbangi og síðu hári.

Hey! Jú, Gunnhildur og Siggi eignuðust rúmlega 18 merkur stelpu og heilsast öllum vel.

mánudagur, janúar 16

Söngur grasekkjunnar

Ég er blá
bara barapabá
baara baaraaa
blá bararararabápá
ó, svo blá
já já jájá já já - á
bara bara bablá...



leiðist þetta sölvaleysi, maður...

þriðjudagur, janúar 10

Tilraun

Eitthvað var ég að bitjsa um neskaffi um daginn eins og ég væri einhver kaffikonnosör sem tæki alltaf gæði fram yfir tímasparnað. Einmitt. Ég var að hita kaffi rétt í þessu í örbylgjuofninum vegna þess að ég nennti ekki að hella upp á nýtt kaffi. Nennti ekki að hreinsa pressukönnuna aftur. En ég sauð óvart kaffið. Það er andstyggileg lykt af því en ég ætla samt að smakka það: khhhh! aaaachhh! fff!
Kannski ég fái mér bara neskaffi... eða te.

mánudagur, janúar 9

Velmegunarvandamál

Vinkona mín Angela talar gjarnan um að vera með "luxury problems". Það getur t.d. verið krísa yfir því að þurfa að velja á milli þess að fara til Chile að hitta vini og fjölskyldu eða fara í frí til Kúbu, að vera í stresskasti yfir því að vanta stafræna myndavél en meika ekki að setja sig inn í hinar ýmsu týpur, að vera boðin tvö störf en geta ekki ákveðið hvort mann langar meira í.
Á mbl.is eru tvær fréttir hlið við hlið í dag. Önnur er frétt um að sjö hafi farist í sprengingu í Baghdad þegar einhver aumingja maður ákvað að sprengja sig í loft upp. Hin er svo frétt um farsímanotkun sænskra unglinga: „Þetta er tímasprengja sem kallar á útbrunna unglinga,” segir Palenius. Símanotkun og sms-skeyti geta leitt til svefnleysis, streitu og streitutengdra sjúkdóma.

Erum við ekki aðeins búin að missa það hérna megin í veröldinni?

sunnudagur, janúar 8

Þið eruð vond. Þið segið aldrei neitt á móti. Eða með. Nú þá þegi ég bara líka.

föstudagur, janúar 6

Það eru jól í austrinu

Jólin komin enn og aftur. Nú þarna fyrir austan. Hjá Gumma og Kaju til dæmis. En hérna í Edinborg er jólunum hinsvegar að ljúka. Jólatrjám er hent út á götu og búðirnar að verða öruggar á ný, útsölubarbarisminn yfirstaðinn og túristarnir farnir heim. Það er ágætt. Þá er hægt að fara niður í bæ og spássera í stað þess að hlaupa undan kaupóðum hjörðum á buffalaskóm.
Ég þykist ætla að verða dugnaðarforkur í janúar. Vinna eins og vorið sé komið og fara í líkamsrækt og elda góðan og hollan mat. Sjáum til. Í dag verður ekkert úr þessu held ég. Ég er búin að skila af mér dagsverkinu, komin í nýjar joggingbrækur sem ég ætla að ganga til með því að horfa á Coupling uppi í rúmi. Seríu 2.
Svo elda ég kannski fisk í kvöld. Beibísteps.

miðvikudagur, janúar 4

Sölvi er farinn. Bö. Í heilan mánuð. Eins gott að ég á kyssulegan kodda.

þriðjudagur, janúar 3

Pillow talk

Bróðir minn gaf mér ótrúlegan kodda í jólagjöf. Hann er svo mjúkur að maður breytist í kött við það eitt að faðma hann að sér. Í gærkvöldi tók Sölvi Björn feil á mér og koddanum. Strauk koddanum á kollinn (hárið á mér lá yfir hann) og kyssti hann svo góða nótt. Mín fyrstu viðbrögð voru svekkelsi út í koddann fyrir að hafa haft af mér blíðuhótin. Svo hló ég brjálæðislega - og geri enn.

mánudagur, janúar 2

Gleðilegt ár

Ég var í miklu hátíðarbloggskapi í gær og ætlaði nú aldeilis að láta til mín taka og segja ykkur frá stórskemmtilegu Hogmanaygleðinni. Það fyrsta sem ég ætlaði að gera var að setja inn myndirnar sem ég tók á símann sem Einar bróðir lánaði mér. En það gekk illa. Það gekk eiginlega bara ekki neitt. Ég er með fullan síma af myndum en kann ekki að ná þeim úr honum. Helv. rassgat. Tæknin sumsé að stríða mér - sumt breytist ekkert þótt nýtt ár gangi í garð. Ég hætti þá við bloggfærsluna og fór á stúfana (en ég er af hinu keltneska stuttfótakyni í aðra) með Huldu, Ástu og Jóni Þór, Sölvi þurfti að fá að sofa aðeins meira. Það gerðist ekkert sem telst til tíðinda þarna á stúfunum, við gengum einhver ósköp og dásömuðum veðrið og fegurð bogarinnar, settumst inn á öldurhús til að fá okkur bita og síðan heim eftir svipuðum leiðum.
Guðjón hennar Árdísar sendi Ástu mynd af skvísum í áramótapartýi hjá Ninnu. Það var gaman. Og virtist líka gaman í þessu partýi sem við misstum en þó ekki beint af. Hefði viljað vera þarna í skvísuhópnum en hefði samt ekki viljað missa af því að standa í Prinsagörðum með G&T á flösku og hlusta á KT Tunstall rokka á sviði á meðan hálfuppleyst jörðin rann undan fótum fólks. Það hafði rignt svo mikið um daginn að sumstaðar var drullusvaðið eins og á Woodstock og tragískur skrípaleikur stóð allt kvöldið með fólki á sparifötunum að spóla og detta í drullunni. Ég mætti hinsvegar í hælum sem ég keyrði niður í svaðið eins og tjaldhæla og stóð því hnarreist og hrein undir flugeldasýningunni og söng Old Lang Syne. Það getur haft sína kosti að vera dama.
Jæja, en kaffið er búið og kannan er tóm eins og segir í laginu og ég ætla að snúa mér að vinnu.