Gleðilegt ár
Ég var í miklu hátíðarbloggskapi í gær og ætlaði nú aldeilis að láta til mín taka og segja ykkur frá stórskemmtilegu Hogmanaygleðinni. Það fyrsta sem ég ætlaði að gera var að setja inn myndirnar sem ég tók á símann sem Einar bróðir lánaði mér. En það gekk illa. Það gekk eiginlega bara ekki neitt. Ég er með fullan síma af myndum en kann ekki að ná þeim úr honum. Helv. rassgat. Tæknin sumsé að stríða mér - sumt breytist ekkert þótt nýtt ár gangi í garð. Ég hætti þá við bloggfærsluna og fór á stúfana (en ég er af hinu keltneska stuttfótakyni í aðra) með Huldu, Ástu og Jóni Þór, Sölvi þurfti að fá að sofa aðeins meira. Það gerðist ekkert sem telst til tíðinda þarna á stúfunum, við gengum einhver ósköp og dásömuðum veðrið og fegurð bogarinnar, settumst inn á öldurhús til að fá okkur bita og síðan heim eftir svipuðum leiðum.
Guðjón hennar Árdísar sendi Ástu mynd af skvísum í áramótapartýi hjá Ninnu. Það var gaman. Og virtist líka gaman í þessu partýi sem við misstum en þó ekki beint af. Hefði viljað vera þarna í skvísuhópnum en hefði samt ekki viljað missa af því að standa í Prinsagörðum með G&T á flösku og hlusta á KT Tunstall rokka á sviði á meðan hálfuppleyst jörðin rann undan fótum fólks. Það hafði rignt svo mikið um daginn að sumstaðar var drullusvaðið eins og á Woodstock og tragískur skrípaleikur stóð allt kvöldið með fólki á sparifötunum að spóla og detta í drullunni. Ég mætti hinsvegar í hælum sem ég keyrði niður í svaðið eins og tjaldhæla og stóð því hnarreist og hrein undir flugeldasýningunni og söng Old Lang Syne. Það getur haft sína kosti að vera dama.
Jæja, en kaffið er búið og kannan er tóm eins og segir í laginu og ég ætla að snúa mér að vinnu.
1 Comments:
Gleðilegt ár Helga babe. Sé þig alveg fyrir mér á hælunum í drullusvaðinu ;)
Gunnhildur
Skrifa ummæli
<< Home