Mánudagsskjall: Inga Þóra
Inga Þóra er glæsileg kona og það gustar af henni hvert sem hún fer - og hún er víðförul: Inga Þóra er heimsborgari og ferðast mikið, drekkur í sig menningu og sögu þeirra staða sem hún kemur til og segir síðan af þessu gríðarlega skemmtilegar sögur. Þá segir hún oft frá hádramatískum hlutum, smellir lófanum í borðið með miklum tilbrigðum og skellir síðan gjarnan upp úr og hlær svoleiðis að maður tekur undir þangað til að tárin streyma. Inga er mikill skörungur og dugnaðarforkur. Hún er líka ákaflega opin fyrir hugmyndum og nýjungum og sífellt að lesa sig til um hitt og þetta og sækja námskeið og ráðstefnur. Yngra fólk hefur ekki roð við henni, félagslíf hennar er með ólíkindum: myndlistaopnanir, saumaklúbbar, matarboð, leikhúsferðir, tónleikar, veislur og fundir. Ég hef oft undrað mig á því hvernig hún fer að þessu, alltaf jafn til í að mæta á næsta viðburð, og alltaf eins og drottning til fara. Það er mikill aristókratabragur á Ingu enda oft vísað til hennar sem Baronessa Von Hapsburger, það kæmi ekki á óvart ef uppgötvaðist að hún hefði verið barónessa í fyrra lífi - og þá á ég ekki við barónessu sem er aðeins upp á punt á handleggnum á von Baron, heldur barónessa sem heldur salon og styrkir listamenn og heldur veislur sem allir vilja mæta í. Inga Þóra er örlát og hefur yndi af því að gefa fólkinu sínu litlar og stórar gjafir, bjóða því upp á mat og drykk og þegar stemningin er rétt spáir hún manni heillaspár í spil. Kostakona. Inga Þóra rúlar.