Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, mars 31

Mánudagsskjall: Inga Þóra

Inga Þóra er glæsileg kona og það gustar af henni hvert sem hún fer - og hún er víðförul: Inga Þóra er heimsborgari og ferðast mikið, drekkur í sig menningu og sögu þeirra staða sem hún kemur til og segir síðan af þessu gríðarlega skemmtilegar sögur. Þá segir hún oft frá hádramatískum hlutum, smellir lófanum í borðið með miklum tilbrigðum og skellir síðan gjarnan upp úr og hlær svoleiðis að maður tekur undir þangað til að tárin streyma. Inga er mikill skörungur og dugnaðarforkur. Hún er líka ákaflega opin fyrir hugmyndum og nýjungum og sífellt að lesa sig til um hitt og þetta og sækja námskeið og ráðstefnur. Yngra fólk hefur ekki roð við henni, félagslíf hennar er með ólíkindum: myndlistaopnanir, saumaklúbbar, matarboð, leikhúsferðir, tónleikar, veislur og fundir. Ég hef oft undrað mig á því hvernig hún fer að þessu, alltaf jafn til í að mæta á næsta viðburð, og alltaf eins og drottning til fara. Það er mikill aristókratabragur á Ingu enda oft vísað til hennar sem Baronessa Von Hapsburger, það kæmi ekki á óvart ef uppgötvaðist að hún hefði verið barónessa í fyrra lífi - og þá á ég ekki við barónessu sem er aðeins upp á punt á handleggnum á von Baron, heldur barónessa sem heldur salon og styrkir listamenn og heldur veislur sem allir vilja mæta í. Inga Þóra er örlát og hefur yndi af því að gefa fólkinu sínu litlar og stórar gjafir, bjóða því upp á mat og drykk og þegar stemningin er rétt spáir hún manni heillaspár í spil. Kostakona. Inga Þóra rúlar.

sunnudagur, mars 30

Eldri

Í dag er ég eldri en ég var í gær - auðvitað er það staðreynd hvers dags - en í dag á ég afmæli. Ég er 35 ára. Eftir að hafa kynnt mér málið yfir morgunkaffinu hef ég komist að því að ég er ekki miðaldra enn, að minnsta kosti ekki sem Íslensk kona. Meðal ævialdur íslenskra kvenna er 82 ár sex mánuðir og tveir dagar. Í Andorra - sem er hérna steinsnar frá - er meðalaldur kvenna 86 ár 2 mánuðir og 3 dagar.
Ég hélt nefnilega að ég væri kannski orðin miðaldra og ætlaði að fara að finna mér konubuxur í konubúð til að halda upp á það. En aðeins í Hondúras, Írak, Belís, Aserbadjan og Túvalú væri ég komin á miðjan aldur. Ég hef aldrei komið til þessara landa og efast um að ég geri það nokkru sinni. Í Tanzaníu, þar sem ég ólst upp, væri ég óver ðe hill, konur þar lifa lengur en karlmenn (konur gera það almennt um allan heim) en mega kalla sig góðar ef þær verða eldri en 53 ára. Í Svasílandi væri ég öldungur, þar hrekkur fólk upp af laust upp úr þrítugu.
Þetta er sem sagt allt saman afstætt, því eins og maðurinn sagði: I was so much older then - I'm younger than that now.

fimmtudagur, mars 27

Nælon Tælon Tæfan

Mig dreymdi að Steinar Bragi og Sölvi hefðu stofnað með sér félag um bókmenntir sem hét Nælon Tælon Tæfan eða Tævan (sá það ekki skrifað) en stefndi í að verða hljómsveit - með Steinar á bassa. Verð foreldralaus í Barselóna á morgun. Í dag barst mér kort frá tengdamóður minni. Hún hefur því unnið sér inn Mánudagsskjall næstu viku. 

mánudagur, mars 24

Páskar II

Butifarra á grillið, Bloody Mary í glösin, hvítar baunir með hvítlauk, íslenskt lamb með kartöflumús með Dijon. Kaffi, rauðvín, te og ananas. Spilað út á svölum í sólinni, rætt um flugvelli í borgum, flughraða ýmissa véla og húsnæðisástand vina og vandamanna. Ég og mamma höfum enn ekki farið út úr húsi. Far og Sölvi fóru út að kaupa bjór fyrir svona 2 tímum, mig grunar að þeir hafi ákveðið að drekka einn úti á bekk. Nema þeir hafi fundið fótboltaleik. 

sunnudagur, mars 23

Páskar

Gleðilega páska. Við erum að elda lambalæri frá Íslandi. Ora-baunir ætla Embla og Ingó að lána okkur. Rauðkál finnst hvurgi í Barselóna, hvorki hrátt, soðið né pikklað. Það er allt í lagi. Við átum páskaegg, ananas, vatnsmelónu, brauð, skinku, Gruyere, Brie og kæfu í morgunmat. 

föstudagur, mars 21

Föstudagurinn langi/góði

Föstudagurinn langi heitir Good Friday á ensku - og góður er hann því mor og far koma í kvöld. Þá verður gaman. Þá verður fiesta, folks. Spánverjar eru mjög fiestaglaðir og virðast grípa hvert tækifæri sem gefst til að taka sér frí í vinnunni, klæða sig í múnderingar og henda karamellum hver í annan. Heyrist samt ekki múkk í þeim núna. Ætli þeir séu að ausa yfir sig ösku og skammast sín fyrir að piltur frá Nasaret hafi verið negldur upp á kross fyrir rúmum 2000 árum? Sé á mogganum í dag að snillingar á Filipseyjum eru að gamna sér við það að láta krossfesta sig og hýða. Dísús kræst, segi ég nú bara. Ég ætla að láta nægja að fá mér kaffi úti á svölum og brosa framan í sólina sem blessar allt og gæti ekki verið meira sama um það hvort menn krossfesta sig eða aðra.

fimmtudagur, mars 20

Sól, fáránlegt gengi og kuldakast

Hejsan. Evran fór upp í 128 kr. í gær akkúrat þegar Sölvi var að taka út úr hraðbanka. Ég tók svo út pening 5 mín. seinna og þá var hún komin í 123. Auðvitað dugði þetta til að eyðileggja daginn fyrir Sössa Bjössa, enda orðinn hundleiður eins og við öll hin á þessu fáránlega jójói. En í dag er sól. Ég hef samt kveikt aftur á rafmagnsofnunum því að kuldakastið sem þeir spáðu spámennirnir er komið. Hitinn er svona um 14° C sem fólki í vonskuveðri í Atlantssjó þykir kannski bara fínt - en hér er manni hálfkalt, bæði vegna þess að það er engin kynding í húsum en líka vegna þess að það var orðið svo andskoti hlýtt og gott hérna og viðbrigðin því nokkur. Ég fór annars að lesa gamalt skotablogg í gær í leti minni og skammaðist mín ógurlega, stafsetningavillur galore og oft alveg stóreinkennilegar setningar. Samt gaman að geta flett svona aftur í tímann aðeins - plúsinn við bloggið er að það er ekki eins deprimerandi og dagbókarfærslur... persónulega held ég að ég skrifi aldrei í dagbók nema þegar ég er deprimeruð eða angurvær - ojojojojojojoj. Muna: brenna deprimerandi dagbækur í sumar.
Bæ.

þriðjudagur, mars 18

Pirr dagsins eru þrjú

1. Ráðamenn þjóðarinnar: svar þeirra við efnahagsfokkinu er að bíða þangað til að þetta lagast. Eins gott samt að þessir bjánar eru ekki í slökkviliðinu.

2. Tónlistarfastistar: fólk sem finnst það alltaf hafa miklu betri tónlistarsmekk en allir aðrir og skiptir sér sífellt af þeirri tónlist sem verið er að spila hvort sem þeir eru gestgjafar eða gestir hjá öðrum. Skilur oft eftir sig geisladiska um allar jarðir í æsingnum.

3. Ryksugur: leiðindatæki, hávær og óþjál. Vil fá ryksugu sem er eins og bakpoki sem maður getur sett á bakið á sér... og sem malar eins og köttur eða kurrar eins og hrjótandi broddgöltur... og er þráðlaus.

mánudagur, mars 17

Mánudagsskjall: Ásta Ásbjörnsdóttir

Ásta er merkileg kona. Hún er gáfum prýdd: flugklár, falleg, brosmild og góð. Þeir sem til Ástu þekkja eru án efa sammála mér í því að hún er generös, á alla vegu. Hún er mikill höfðingi heim að sækja og deilir jafnan öllu sem til er með gestum sínum, hvort sem um er að ræða húsnæði, mat og drykk eða frítíma - en níska á tíma sinn er nokkuð sem eykst í nútímasamfélagi, og er óhætt að segja að Ásta sé gamaldags að því leyti. Að því leyti og engu öðru, því hún er framsækin og frumleg í hugsun og klæðaburði, vel lesin og vel að sér um heiminn og undur hans. Klæðaburður Ástu ber skemmtilegum og litríkum persónuleika hennar vitni og hafa ófáir dáðst að glaðlegum og skínandi (oft bókstaflega) fatnaði hennar. Glaðlyndið er einkennandi fyrir Ástu sem er með jákvæðara fólki, barmar sér sárasjaldan og verður seint sökuð um að vera kvartsár. Hún svarar í síma með sólskinshallói sem Tyra Banks myndi líkast til kalla "her signature hello". Tyra myndi líka segja að Ásta væri FIERCE, og hefði rétt fyrir sér. Fjíers. Ásta er traustur og góður vinur, vill fólki vel og leggur sig fram um að sinna þeim sem lent hafa úti í horni, passar upp á að enginn sé útundan eða utanveltu, hún er ótrúlega þolinmóð og umburðarlynd - og aumingjagóð, enda hefur hún gott og fallegt hjartalag. Hún er ekki bara vinur vina sinna (það er lítið mál) heldur vinalega við alla, konur og karla, krakka með hár og karla með skalla. Ég gæti haldið áfram fram á þriðjudag að tíunda kosti Ástu Ásbjörnsdóttur, en þetta er mánudagsskjall og því ætla ég að fara að ljúka þessum pistli, vil ég þó bæta því við að daman er fjarska góður penni og kann að halda partý sem enginn vill missa af, enda er stuðið þar sem Ásta er, skínandi, dansandi (ahh, já, súperdansari), hlæjandi Ásta lætur öðrum líða vel. Það er mikil gáfa. Ásta er töff. Ásta rúlar.

föstudagur, mars 14

Sniglapóstur

Ásta sendi sniglapóst! Vei! Kort með gríni - fáráðsgríni sem gleður mig fáráðinn - og langt bréf um glamúrlíf í Edinborg og glamúrús ferðaassessorís. Að sjálfsögðu þýðir þetta að hún hefur unnið sér inn Mánudagsskjall og áhugasamir get kíkt hingað inn eftir helgi. Annars erum við SB (lesist Sölvi Björn ekki subb) að steikja 15 lauka. 15 lauka á 15 hamborgara. Vonumst eftir sól á morgun og að Mistral-vindarnir hafi sig hæga milli 1-3.

miðvikudagur, mars 12

107 kr fyrir evru

Við fengum okkur kaffi á svölunum, croissant með súkkulaði, brauð með jamon serrano og nýkreistan appelsínusafa. En það dugði ekki til. Það er ekki hægt að vera hress þegar leigan hjá manni hefur hækkað um 23þ krónur eingöngu vegna þess að íslenska krónan er skítseiði, það þarf 107 skítseiði til að búa til eina evru. Deprimerandi. Mjög deprimerandi. Fyrir nokkrum vikum sagði Tóti brandara. Reyndi að ljúga því að okkur að evran væri komin í 115. Við trúðum honum ekki. En hann sagði: sjáum hvað þið segið eftir nokkrar vikur - þá verður þetta ekki ótrúlegt.
Og ekki heldur fyndið, segi ég. En veðrið er ágætt. Það er gott.

mánudagur, mars 10

Mánudagsskjall: Sigurður Ólafsson bestur

Sigurður Ólafsson hefur löngum verið þekktur fyrir drengskap sinn og hugprýði. Hann er einkar dagfarsprúður og ljúfur, góður við gamalmenni og börn og sannkallaður séntilmaður við konur. Gáfur hans eru annálaðar, og þá ekki eingöngu bókvitið heldur einnig brjóstvitið, enda kunna vinir hans vel að meta ráð hans og mælsku. Sigurður er þar að auki myndarlegur maður og hefur gengið undir ýmsum nöfnum þar af lútandi víðsvegar um heim, í hinum spænskumælandi heimi til dæmis er hann jafnan kallaður El Guapo sökum haukfrárra augnanna og klassískrar beinabyggingar. Sigurður er sérlega vel lesinn og vel að sér í flestu. Hann er umburðalyndur án þess að vera laus við gagnrýnisauga, enda er hann skynsamur með afbrigðum. Þrátt fyrir skynsemi og áreiðanleika sinn kann Sigurður aldeilis að sletta úr klaufunum og er hann jafnan hrókur alls fagnaðar þar sem hann kemur, leiftrandi húmorinn og góðlátlegt glottið aldrei langt undan. Þessir mannkostir Sigurðar hafa skilað honum mörgu, þar á meðal sérlega fallegri og gáfaðri konu sem hann á með dótturina Helgu (fjarskalega fallegt nafn á fallega stúlku) sem líkist foreldrum sínum í einu og öllu. Hefur margur haft orð á því hversu einkar vel upp alin stúlkan er og skal engann að furða.
Sigurður Ólafsson er töff. Sigurður Ólafsson rúlar. Skál fyrir Sigurði Ólafssyni.
Og þetta er allt satt. Ég kríta undir þetta hvenær og hvar sem er.

Ó, ég hef tekið gleði mína á ný!

Sigurður Ólafsson, min gamle ven, var fyrstur til að bregðast við kalli mínu um kveðju í póstkassann (sjá neðar um snail-mail). Í dag fann ég póstkort innan um allan gluggapóstinn. Vei. Hann hefur því unnið til Mánudagsskjallsins ég set það í sérfærslu á eftir til að þetta komi upp sem sjálfstæður texti ef einhver skyldi gúggla hann.

Skítakróna

Ég er í fýlu, mjög mikilli fýlu: evran er nú komin yfir 105 kr! Hvað er að gerast? Ber enginn ábyrgð á þessu rugli? Er ekki hægt að taka einhverja aðila til hýðingar fyrir framan þinghúsið, tja, eða fyrir framan seðlabankann? Skítapakk. Ufsapakk.
Svo er ég með satanskvef og hósta viðbjóði upp úr lungunum á mér. Dfls hlvts ndsktns.
Ég er sem sagt í fýlu.

þriðjudagur, mars 4

Ítalía

Ég er að fara til Mílanó á eftir að hitta vinkonu mína Helenu sem ég kynntist í heimavist í Tanzaníu. Vei.

sunnudagur, mars 2

ööööööö

....hmmmm...... öööööö..... veit ekki alveg hvað ég er að gera hérna inni.... voðalegur sunnudagur eitthvað. bæ.

laugardagur, mars 1

Ömurð

Ég er ekki tapsár - ég vandi mig af því fyrir mörgum árum síðan. En nú hefur Sölvi unnið mig 10 sinnum í röð í rommý og það er ömurð og ég finn að ég fitja upp á nefið eins og ég gerði í gamla daga þegar ég var tapsár.