Helga Soffia

Karibuni

föstudagur, apríl 29

Ég er Berlínarbolla

Ja, ich bin ein Berliner, það er gaman í Berlín, ég er búin að skoða mikið, labba óhemju mikið og fara á gamlar slóðir. Skemmtilegast er þó að hafa hitt Finn, Emmu og ÓÐINN sem er alveg mjög mjög mjög skemmtilegur og fyndinn. Við Óðinn spídrídum bækur, hönnum hús (ég er meira fyrir að nýta lóðina og byggja upp en hann er greinilega í góðu sambandi við Íslendinginn í sér og vill bara byggja lágt og breitt) með Legó og svo dönsum við við Eminem og segjum hey!!! hó!!!
Það er rosalega skrítið að Davíð K. skuli ekki vera hér með henni Laufey minni, og ég er alltaf að ramba á staði og kaffihús sem ég kannast við og þá segi ég : Já, hey Davíð fór með okkur hingað eða Við Laufey fengum okkur einmitt brönsj hér. Svo hef ég saknað Helgu Fríðu mjög mikið enda er ég bara í næstu götu við gömlu íbúðina hennar.
En ég ætla nú að fara að sofa þar sem að allir aðrir eru löngu farnir í háttinn og ég held að við Sölvi höfum amk gengið 15 kílómetra í dag. Laufey, ég sendi þér meil en gleymdi að biðja þig um heimilisfangið þitt, mig vantar það.
Góða nótt - tjuuus!

þriðjudagur, apríl 26

Allt að verða klárt... svo að segja

Palli drepur mig - ég er ekki búin með Tony, hef smá afsökun, frekar lélega en afsökun engu að síður, því að ég lenti í þessum skjávandræðum og er orðabókalaus og þá tekur allt alveg hundrað ár... ég er padda.
Á morgun förum við til Newcastle og þaðan til Berlínar til að hitta Finn og Emmu og Óðinn - vei!
Tölvan og Tony koma með.
Svo verður haldið til Ljubljana og Belgrad þar sem að Gummi ætlar að halda brullaupsveislu með henni Kaju sinni - vei!
Kannski hendi ég inn fréttum af okkur stöku sinnum á leiðinni. Hafiði það nú gott á meðan!

sunnudagur, apríl 24

Ný tölva

Þessa færslu skrifa ég á glænýja tölvu sem foreldrar mínir komu með í tilefni sumarsins. Eins og dyggir lesendur vita þá gafst hin upp á rólinu blessunin. Þessi heitir dell en er enginn della það skal ég segja ykkur, o, nei. Ég er enn að læra á hana og á eftir að finna út úr ýmsu - svona eins og hvernig ég kem tölvuorðabókinni inn á þessa, en þetta er fallegur gripur, létt, nett og elegant eins og ég sjálf.
Það var stórkostlegt að fá familíuna hingað, mamma át svo yfir sig á Original Kushi's að hún varð að fara heim að leggja sig á eftir. Okkur tókst þó að fá afmælisbarnið með okkur yfir á Dragonfly þar sem hún lét sér nægja að drekka vatnsglas enda ekki pláss fyrir meira. Einar Örn hélt þá mjög uppfræðandi fyrirlestur um skeifugörnina sem hafði nokkuð skemmtanagildi einnig. Daginn eftir var haldið upp í hálönd, með við komu í Roslin kirkju fyrir sunnan. Við gistum á hótelið við Loch Lomond þar sem ég þóttist sjá U2 hinumegin vatnsins (Bono á hús þar)og Sölvi lét stela af sér peysunni. Við létum þetta ekki slá okkur út af laginu og ókum til Oban, Kilmartin og fleiri fallegra staða þangað til að við enduðum í Glasgow. Familien fór síðan í morgun og mér fannst þetta allt of stutt en hugga mig við það að vera á leiðinni heim eftir rúman mánuð. Ég er reyndar líka á leiðinni til Berlínar og Belgrad og það aðeins eftir örfáa daga. En þangað til er mikið að gera og ég er ekki viss um að það verði mikið aksjón hér á blogginu.

miðvikudagur, apríl 20

krísa

Skjárinn á tölvunni minni gafst upp í gær. Bara upp úr þurru. Og á versta tíma. Bö. Er að stelast í Sölva tölvu á meðan hann leikur sér í frisbí með Steina. Ég ætla að reyna að fara með hana í viðgerð - enda með eitt stykki skáldsögu í vinnslu og heila próförk. Fokk.
En gleðifréttirnar eru að mamma,pabbi og Einar Örn eru að koma á morgun. Allir kveikja á kertum og syngja afmælissönginn því mor verður sextug þá - ótrúlegt, ekki lítur hún nú út fyrir að vera það. Ó, nei.

þriðjudagur, apríl 19

Óld skúl

Geðveik óld skúl blankheit í dag: vissi að ég átti ekki krónu á reikningnum. Meistaraheimildin að þrotum komin. Svo ég leitaði í öllum skúffum, veskjum, buxum, yfirhöfnum að klinki til að kaupa mér kaffi. Fann ekkert. Fann þrjátíu punda ávísun sem ég fór með í bankann en gat ekki leyst hana út þar sem ég var ekki með bankareikning, gat ekki stofnað bankareikning því að það það stendur S. Einarsdóttir á símareikningnum (möst að hafa ef maður ætlar að stofna bankareikning í UK) en Helga Soffía Einarsdóttir í passanum, það vantaði sem sagt eitt há. Há- alvarlegt mál. Þannig ég fór heim með hundinn í sjálfri mér og minningar frá menntaskólaárunum... MH! Já, það var svarið! Ég skrifaði mínum gamla kennara og vini Páli Valssyni sem bjargaði mér frá óld skúl blankheitunum með smá sporslu fyrir vel unnin störf. Þannig ég komst á kaffihús... þið sem vinnið ekki ein heima alla daga í útlöndum skiljið kannski ekki hversu mikilvægt þetta er, en ég skal segja ykkur það að ég væri búið að setja mig á bjánabýli uppi í sveit.

laugardagur, apríl 16

andvarp

jæja, nú er ég búin að vera svolítið dugleg. Kveikti meira að segja á þurrkaranum og spældi mér egg. Síðan hef ég horft á hálfan þátt um breskan arkítektúr, pælt í því hvort ég ætti að fara út en ég hætti við - það er ósköp huggulegt heima. Sölvi er farin í púl og skilur mig eftir til að púla heima. Fúla heimað púla... að minnsta kosti að sýn einhverja viðleitni í þá áttina.
Í sjónvarpinu er einn af þessum CSI þáttum þar sem fallegar ofurlöggur segja hvort öðru rosalega ýtarlegar vísindalegar útskýringar á öllu - asnalegustu díalógar í sjónvarpi frá upphafi. Best að ég fari að púla meira.

Ein sit ég heima

Hallú. Ég er að reyna að vera dugleg. Það hefur farið svona. 1. vaknaði rétt fyrir hádegi. 2. Setti í vél og kveikti á heita vatninu með von um að nenna að vaska upp seinna í dag. 3. Þýddi eina blaðsíðu. 4.hringdi í Pósltjörnuna og fór út að fá mér kaffi. 4. Kom heim og fór beint á netið.

Sölvi er með the Dark Loner í Stirling, þeir ætla í frisbí á William Wallace slóðum. Eða það sagði Sölvi lónernum að minnsta kosti - held að hann sé faktískt bara að prenta út blaðið sitt.

Mamma og Pabbi eru að koma og taka hugsanlega leikararann bróður minn (enn í atvinnuleit - hafiði samband) með sér. Það verður gaman. Mamma á afmæli og við ætlum að fara á túr um Skotland til að fagna því.

Jæja, kannski ég fari og sýni dugnað. Það er margt sem bíður. Veriði blessuð.

fimmtudagur, apríl 14

falleg ljóðlína (eftir 'hinn myrka einfara')

vatnið í lauginni sundlar og björgunar
hringur eins og andvarp á bakkanum

unglingurinn í sjálfri mér

Sæl. Í morgun voru draumfarair mínar slíkar að ég steindrap á vekjaraklukkunni þegar hún hringdi með þeim afleiðingum að bjarndýrið við hliðina á mér missti af lestinni. Svona episóður eiga sér æ sjaldnar stað eftir því sem aldurinn færist yfir, en einstöku sinnum nær unglingurinn sem grýtti eitt sinn vekjaraklukku þvert yfir herbergi í svefnrofunum tökum á mér og þá fer svona. Ég veit ekki hvort þetta hafi samt eitthvað með aldur að gera, kannski er ég bara svo heppin að eftir því sem ég verð eldri því sjaldnar þarf ég að vakna snemma? O,já!

miðvikudagur, apríl 13

What the dickens!

Sá alveg ótrúlegt dæmi í kassanum í gær. Hinn stórkostlega viðbjóðslegi og sjúklega aðkallandi Plastic Surgery Live! er kominn aftur. Þetta er þátturinn sem ég horfi á með aðra höndina útglennta yfir andlitið á mér og garga yfir.
Í gær var t.d. talað við 2 geðsjúklinga sem ákváðu að fara frekar SAMAN í lýtaaðgerðir í honnímúninu en að fara í ferðalag. Hún læt stækka á sér brjóstin og sjúga fitu úr rassinum á sér, hann lét strekkja sig aðeins og fjarlægja bjórbumbuna. Ég vona að þau hafi svo verið geld bæði tvö í leiðinni.
En stjarna kvöldsins var brasilíski einkaþjáfarinn sem vildi fá stærra typpi. Hann var með langt (og frekar vírdlúkking grátt) og mikið typpi en langaði að vera með meira í hjólabuxunum sínum, þannig að hann lét umskera sig og græða - þetta er það ótrúlega - húð af dauðum manni (kom auðvitað dauðhreinsuð og fryst frá USA, hvaðan annarsstaðar)við tittlinginn á sér. Þetta tókst líka svona glimmrandi vel og nú er maðurinn með einhvern óskapnað þarna í brókunum en alveg í skýjunum.
Ágætt að vita svosem að maður er ekki orðinn svo jaded að það sé enn hægt að ganga fram af manni. Ég hugsaði líka til aumingja mannsins sem gaf líkama sinn, hugsaði sennilega að hann gæti bjargað mannslífum (þessi tækni er venjulega notuð til að græða húð aftur í andlit sem hefur farið illa í slysi eins og bruna t.d.) en var notaður til ... tja, ég veit ekki alveg til hvers, svei mér þá.
It's a mad, mad world...

þriðjudagur, apríl 12

Skrúðganga

Var ég búin að segja ykkur hvað Edinborg er fögur? Ég ætla að biðja Línu um að sýna mér hvernig ég pósta myndir og þá ætla ég að fara að setja fínerí inn svo þið fáið séð. Í dag vaknaði ég til að mynda við skrúðgöngu. Stundum finnst mér eins og ég sé 18. aldar landkönnuður í framandi landi, sérstaklega þegar þeir byrja á gömlum serimóníum. Ég sumsé vaknaði við fyrstu tónana og hvolfsteyptist um íbúðina í leit að einhverju til að fara í að ofan (vildi ekki að einhver liti upp og sæi mig á náttfötunum - það er svo ósæmilegt), hentist svo út í glugga og sá einhverja prósesjón af mönnum í kjánalegum en engu að síður tignarlegum búningum (svartir, hárir strútsfjaðrahattar, rauðir jakkar, kilt og slæður, hásokkar og Andrésar Andar skór) marsera á undan mönnum í grænum morðingjaátfittum með vélbyssur og byssustinga reidda um öxl. Á milli gengu einhverjir búningaklæddir menn með upprúllaðan pappír. Þeim var fylgt að stórri steinpontu með líkneski af hvítum hesti og þar lásu þeir upp einhvern texta, gjörðu lýðnum - þar á meðal mér - eitthvað kunngert. Síðan trítluðu þeir tilbaka og gerðu silly walk aftur þaðan sem þeir komu. Merkilegt.
Ég velti fyrir mér hvað þetta á að fyrirstilla. Kannski ég leggi þetta fyrir mannfræðinginn Línu? Mér dettur þó í hug að strútsfjaðrirnar og sproti hljómsveitarstjórans hafi eitthvað með frjósemi að gera - hvíti hesturinn líka, en einnig vald eins og vopnin gefa til kynna. Kannski var þetta ritúal til að lækna getuleysi mannanna með upprúlluðu skjölin? Manni dettur það helst í hug.

mánudagur, apríl 11

Auglýsing

Ert þú milljónamæringur án erfingja? Veist þú ekkert hvað þú átt að gera við aurinn? Ertu hræddur um að vera úlfaldinn sem kemst ekki í gegn um nálaraugað? Ég get bjargað því. Sendu mérlínu og ég skal losa þig við þessa byrði, heiti hjartahlýju, fyrirbænum og fallegri útför. Helga Soffía.

sunnudagur, apríl 10

Sunday morning coming down

Mér leiðist:
Páfinn og jarðarförin hans
Bobby Fischer
Brúðkaup Camillu og Kalla
Að labba útí Tesco eftir sódavatni og fatta að ég keypti óvart venjulegt vatn í staðinn
Að vera ekki rík
Page 3 hálfvitar með stærri geirvörtur en heila
So Sally can Wait og Wonderwall
Tísthljóðin sem tölvan mín gefur frá sér
Menningarleg samkynhneigð (oft misskilin sem kvenfyrirlitning)
Dustin Hoffman, Tom Hanks og Andie MacDowell

þriðjudagur, apríl 5

Fallegt af ykkur

Mikið var gaman að koma heim frá Köben og sjá allar afmæliskveðjurnar - takk takk takk. Já, ég hef afrekað það að verða 31 árs aftur, og það án mikilla hrakfalla. Þó tókst mér bæði að brenna mig og skera mig við það að baka afmæliskökuna okkar Auju sem einnig átti afmæli. Sama dag átti Ingólfur 41 árs afmæli og kisan hennar Ástu átti 5 kettlinga. Ekki má svo gleyma Óla, pabba hans Sigga, Svönu Dóru systur Áka og Vincent van Gogh. En nú verð ég að kveðja og vinna því mikið liggur við.