Skrúðganga
Var ég búin að segja ykkur hvað Edinborg er fögur? Ég ætla að biðja Línu um að sýna mér hvernig ég pósta myndir og þá ætla ég að fara að setja fínerí inn svo þið fáið séð. Í dag vaknaði ég til að mynda við skrúðgöngu. Stundum finnst mér eins og ég sé 18. aldar landkönnuður í framandi landi, sérstaklega þegar þeir byrja á gömlum serimóníum. Ég sumsé vaknaði við fyrstu tónana og hvolfsteyptist um íbúðina í leit að einhverju til að fara í að ofan (vildi ekki að einhver liti upp og sæi mig á náttfötunum - það er svo ósæmilegt), hentist svo út í glugga og sá einhverja prósesjón af mönnum í kjánalegum en engu að síður tignarlegum búningum (svartir, hárir strútsfjaðrahattar, rauðir jakkar, kilt og slæður, hásokkar og Andrésar Andar skór) marsera á undan mönnum í grænum morðingjaátfittum með vélbyssur og byssustinga reidda um öxl. Á milli gengu einhverjir búningaklæddir menn með upprúllaðan pappír. Þeim var fylgt að stórri steinpontu með líkneski af hvítum hesti og þar lásu þeir upp einhvern texta, gjörðu lýðnum - þar á meðal mér - eitthvað kunngert. Síðan trítluðu þeir tilbaka og gerðu silly walk aftur þaðan sem þeir komu. Merkilegt.
Ég velti fyrir mér hvað þetta á að fyrirstilla. Kannski ég leggi þetta fyrir mannfræðinginn Línu? Mér dettur þó í hug að strútsfjaðrirnar og sproti hljómsveitarstjórans hafi eitthvað með frjósemi að gera - hvíti hesturinn líka, en einnig vald eins og vopnin gefa til kynna. Kannski var þetta ritúal til að lækna getuleysi mannanna með upprúlluðu skjölin? Manni dettur það helst í hug.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home