Helga Soffia

Karibuni

sunnudagur, apríl 24

Ný tölva

Þessa færslu skrifa ég á glænýja tölvu sem foreldrar mínir komu með í tilefni sumarsins. Eins og dyggir lesendur vita þá gafst hin upp á rólinu blessunin. Þessi heitir dell en er enginn della það skal ég segja ykkur, o, nei. Ég er enn að læra á hana og á eftir að finna út úr ýmsu - svona eins og hvernig ég kem tölvuorðabókinni inn á þessa, en þetta er fallegur gripur, létt, nett og elegant eins og ég sjálf.
Það var stórkostlegt að fá familíuna hingað, mamma át svo yfir sig á Original Kushi's að hún varð að fara heim að leggja sig á eftir. Okkur tókst þó að fá afmælisbarnið með okkur yfir á Dragonfly þar sem hún lét sér nægja að drekka vatnsglas enda ekki pláss fyrir meira. Einar Örn hélt þá mjög uppfræðandi fyrirlestur um skeifugörnina sem hafði nokkuð skemmtanagildi einnig. Daginn eftir var haldið upp í hálönd, með við komu í Roslin kirkju fyrir sunnan. Við gistum á hótelið við Loch Lomond þar sem ég þóttist sjá U2 hinumegin vatnsins (Bono á hús þar)og Sölvi lét stela af sér peysunni. Við létum þetta ekki slá okkur út af laginu og ókum til Oban, Kilmartin og fleiri fallegra staða þangað til að við enduðum í Glasgow. Familien fór síðan í morgun og mér fannst þetta allt of stutt en hugga mig við það að vera á leiðinni heim eftir rúman mánuð. Ég er reyndar líka á leiðinni til Berlínar og Belgrad og það aðeins eftir örfáa daga. En þangað til er mikið að gera og ég er ekki viss um að það verði mikið aksjón hér á blogginu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home