Kaffi og kjúklingur í morgunmat og músin sem gaf upp öndina
Ég fór út á Kingfisher undir miðnætti í gær og náði í kjúkling handa okkur Sölva því hann sat heima súr á svip eftir að hafa tapað 100 bls af vinnu inn í djúpvitund tölvu sinnar á meðan aðrir fóru út á The Waverly og ræddu blótsyrði og bókaflóð. Okkur tókst ekki alveg að torga öllu hræinu um nóttina þannig að það var sumsé kaffi og kjúlli í morgunmat hér enda ísskápurinn Buddy orðinn ansi dapurlegur að sjá, hálfsálarlaus og tómur að innan. Við kaupum sólfúd handa honum frá Tescoskrímslinu á morgun.
Annars gerðust þau stórtíðindi áðan að Sölvi hélt að hann hefði rotað mús með inniskó sínum en eftir nánari eftirgrennslan og athuganir sýnist okkur að einhver illa innrættur músafób hafi eitrað fyrir greyinu því hún dó skelfingu lostin á kínverskri skrautservíettu inni í eldhúsi stuttu eftir að ég hafði reynt að hressa hana við með ostbita. Við vöfðum hana inn í skrautservíettuna með ostbita á tannstöngli (alltaf gott að hafa pinnamat með í för) og fórum með hana út svo hún geti farið upp í stóra ostinn í næturhimninum í kvöld. Sjaldan held ég að ein mús hafi farið jafn skrautbúin í dánarheima, henni hlýtur að verða vel tekið.
Svo hringdi Alga í mig rétt í þessu og sagði mér að Lesbókin hafi birt bloggfærslu frá mér í dag. Mér líður eins og einhver hafi tekið mynd af mér á krullunum inn um gluggann... mjög krípí... ég er ekki að skrifa fyrir Moggann eða aðra fjölmiðla og þótt ég viti að ég ætti að líta á þetta sem kompliment þá líður mér frekar eins og einhver hafi farið ofan í nærfataskúffuna mína eins og Agla orðaði það. Mér finnst skrítið að prentmiðlarnir skuli fara svona ofan í bloggkisturnar eftir efni og það án þess að biðja höfunda um leyfi. Ég fer hér með fram á það að enginn birti neitt af mínu stöffi án þess að senda mér emil fyrst og biðja leyfis. Maður skrifar ekki eins fyrir bloggheima og virðuleg dagblöð...hmm ha?
En nú er ég rokin - á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna til heiðurs honum Eiríki sem er kvikmyndafíkill og afmælisbarn dagsins. Hafið það gott. Og lexía dagins? Betra er að standa á öndinni en að gefa hana upp eins og húsamús.
5 Comments:
Elsku Moli,
datt inn á síðuna þína fyrir algera tilviljun! Unaðslegt að kíkja á bloggið þitt yfir lífrænt ræktuðu viskíi (tei...)og sjá hvað á daga þína drífur í skrítna landinu. Bestu kveðjur frá rykfallna bóksalanum Svanborgu krulludýri og pönkara
Skerí þetta með Lesbókina. Ætli þetta komment komi þá í næstu Lesbók?
Takk fyrir þessa ægilega sætu músasögu.
Takk, hver veit nema ég skrifi síðar framhaldið - Húsamúsalúsasögu, þá lofa ég happí ending
Skrítð comment hér að ofan, þrátt fyrir wv-ið. einhver sem handsetur auglýsingar í blogg? Vá, meiri eljan það ef svo er! En sá held ég kunni íslensku, min hat...:(
Rosa krúttleg músarsaga.
En FREKJAN í Mogganum, ég á ekki orð.
Mér finnst sjálfri jafnvel eins og ég sé aðeins að troða mér hingað að vera að fylgjast þetta með þér þó ég þekki þig ekki meira, hvað þá svona...
Skrifa ummæli
<< Home