Helga Soffia

Karibuni

þriðjudagur, október 25

Kvennafrídagur og karlinn í kvörninni


Ég lagði niður störf í gær eins og aðrar íslenskar konur og fór að hitta Línu og Ástu á fínni kaffihúsum bæjarins. Við bröntsjuðum og fengum okkur hvítvín og ræddum daginn. Við vorum sammála um það að svo virtist sem að einhver misskilningur væri á kreiki. T.d. er fólk sem óskar manni til hamingju með daginn, eins og þetta sé einhver hátíðisdagur, sem hann er ekki, þetta er baráttudagur og áminning um það að kynjamisrétti sé enn við lýði. Svo var það OgVodafone, fyrirtækið með asnalega nafnið, sem "gaf" öllum konum á launaskrá sinni frí í tilefni dagsins og hvatti önnur fyrirtæki til að gera það sama. Yfirlætið alveg ótrúlegt. Þeir gefa konum ekkert frí - við tókum okkur frí í gær. Með því að koma með yfirlýsingar sem þessar stela þeir af kvenstarfsmönnum sínum verkinu. Já, og svo var það yfirskriftin "Konur og karlar leggjum niður vinnu í þágu jafnréttisins!" Þar var verið að hvetja karlmenn til að sýna stuðning í verki en mér finnst þetta á misskilningi byggt. Konur hættu að vinna kl. 2:08 því að þá voru þær búnar að vinna fyrir kaupinu sínu (ef miðað er við tölur um launamisrétti milli karla og kvenna) og tilgangurinn einnig sá að sýna með áþreifanlegum hætti hversu mikilvæg störf konur vinna, sjá hvað gerist þegar þær ganga allar út. Já, þetta var það sem við ræddum og margt fleira.
Annars voru draumfarir mínar í nótt með svo miklum ólíkindum að ég ætlaði aldrei að tíma að vakna. Það sem loksins reif mig úr álögum Morfeusar var undarlegt tvist í draugasögu þar sem að Sölvi tók upp á því að stökkva ofan í stóra matarkvörn mér til mikillar skelfingar. Jakkafötin hans komu einnig fljúgandi af slánni og tættust í mola en ég náði að bjarga uppáhaldsbindinu hans á síðustu stundu. "Helga mín," heyrði ég þá neðan úr kvörninni. "Hva, ertu ekkert kvarnaður?" spurði ég fegin og hissa. "Nei, nei," sagði Sölvi, "ég ætla bara aðeins að vera hérna um stund." Það fannst mér eðlilegt eins og manni finnst aðeins í draumi og hugsaði að þetta hefði eitthvað að gera með Mussju. Einhversstaðar hrökk þó meðvitund mín í gang og hún ávítaði dulvitundina fyrir vitleysuna og tók stjórnina á ný. Þá fór ég fram og fékk mér skoska skonsu með sýrópi og kaffi með Sölva sem var heill á húfi inni í vinnuherbergi að skrifa.

2 Comments:

At 9:55 f.h., Blogger Króinn said...

Segdu meira fra Rankin partíinu

 
At 4:32 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

ja segdu fra skyrtunni hans Rankin....

 

Skrifa ummæli

<< Home