Helga Soffia

Karibuni

miðvikudagur, febrúar 27

Snailmail

Halló, mig langar í snail-mail eins og póstkort eða eitthvað. Það kemur bara gluggapóstur hingað, eina góða við hann er að hann er ekki til mín. Reyndar fékkég sendingu frá Amazon í dag, það var gaman, póstkonan hringdi bara bjöllunni og ég þurfti bara að taka lyftuna niður að ná í hann. Ekkert vesen með að standa í röð á pósthúsinu eins og svo oft áður. En ég læt addressuna mína fylgja með hér ef einhver finnur hjá sér þörf til að senda mér gamaldagspóst:
Helga Soffia Einarsdottir
c/o Silvia Dunia Ramos Rincon
Blasco de Garay 49, 5°- A
08004 Barcelona

Verð hér til 1. maí

þriðjudagur, febrúar 26

TMM

Vil benda á umfjöllun um Fljótandi heim hans Sölva í nýjasta TMM. 

mánudagur, febrúar 25

ótrúlegt en satt

þau stórtíðindi gerðust í dag að við Blascar fórum með Ravalrósinni og Tóta í spinning í morgun. Já, spinning. Fyrir ykkur sem ekki kannist við fyrirbærið þá snýst það (pardon ðe pönn) um að hjóla eins og vitleysingur undir dúndrandi diskótónlist án þess að hreyfast úr stað. Hver hefði trúað þessu?

sunnudagur, febrúar 24

Nanananana

Vei. Ég á svo fína hvíta fallega tölvu frá makk. Ég er aftur orðin makkpakk. Dell dellumeikarinn minn alltaf að dömpa fiskial memorí á bláum skjá svo þetta fór svona. Ástmaður minn kom með gripinn úr fríhöfninni á Leifsstöð. Hann kom líka með Einar Örn með sér mér til ómældrar gleði. Það var ógnargaman að hafa hann hér en hann fór á föstudaginn sem rommímeistari og ábyggilega nokkrum bjórum þyngri - eins og við húsráðendur. Held reyndar að við þurfum öll að sóla skóna okkar upp á nýtt líka þar sem að við fórum í margra klukkutíma göngutúra (með tilheyrandi bjórstoppum og rommíspili). En nú er það harkan sex: ræktin og vinna.
engar undarlegar draumfarir nýlega.

mánudagur, febrúar 18

Ravalismus

Mig dreymdi indverska leikarann Shah Rukh Khan. Hann var að leika í alveg skelfilegri mynd og ég furðaði mig á því að hann skyldi hafa tekið hlutverkið að sér þar sem hann er langstærsta stjarnan í Bollywood. Furðaði mig! Já, ég var svo sannarlega furðu lostin.

sunnudagur, febrúar 17

Solo

Ég er grasekkja. Sölvi fór til Íslands til að gleðja Beggu systur sína. Hún blés til afmælisveislu og langaði til að hafa allt sitt fólk hjá sér. Hann kemur heim á morgun. Það er gott því að ég er með alveg óskaplega mikinn þrýsting í hausnum svona eins og ég sitji ofan á botni bládjúprar sundlaugar. Ég get flautað með auganu ef ég held fyrir munn og nef og blæs. Ég get hins vegar ekki losnað við helluna sem ég er með hægra megin.
Ég hlusta á The Lyre of Orpheus með Nick Cave - það er mögnuð plata. Plata ... svona kemur maður upp um sig. Hver gefur út plötur í dag?
Jæja, ég ætla að éta chilli og engifer og athuga hvort þetta hauskvef fari ekki.

fimmtudagur, febrúar 14

Fúnkís

Mig dreymdi í fyrrinótt að ég keypti mér pínulítið fúnkíshús sem var svo fallegt að ég fylltist eftirsjá þegar ég vaknaði.

miðvikudagur, febrúar 13

Humm?

Gullfiskaminnið ógurlega ... man bara alls ekki hvað ég ætlaði að blogga um ... ef hárið er rakað af ljóskum hætta þær þá að vera vitlausar? Datt þetta svona í hug... kannski ... maður hagar sér ábyggilega öðruvísi þegar maður er sköllóttur, sér í lagi ef hárið var mikill partur af ídentítedinu og jafnvel tól í samskiptum - hver man ekki eftir (ómigod sjónvarpsmarkaðurinn búinn að infiltrera heilabúið) klassíka atriðinu þar sem stúlka/kona tekur hárið niður og tilvonandi/óskandi verandi (er mikið í sagnpælingum þessa dagana) elskhuginn missir andann?
Já, en það var ekki hár sem ég ætlaði að blaðra um. Síður en svo. Helst í fréttum hjá mér er að ég er ennþá með hita og aumingjaleg öll inn í mér, hálfkjökrandi af leiðindum og sljóleika. Samt sem áður tókst mér að fjárfesta (svo hagstætt gengið) í strigaskóm í dag á 15 evrur - þeir ná að vera dömulegir, sportlegir, glamúrus, hálandalegir og pönkaðir allt í senn, nokkuð góð kaup fyrir 15 evrur (og já PV - þeir eru nr. 39). Mér finnst alltaf ágætt að fá sem mest fyrir aurinn. Ansi er mikið af svigum og þankastrikum og þrípunktum og kommum og almennum útúrdúrum á þessu bloggi mínu (bendir kannski til að ég taki vettvanginn ekki alvarlega - nema það sýni að ég búi alls ekki yfir línulegri hugsun), ég er að velta því fyrir mér hvort það sé pirrandi...
Ætli þetta sé ekki gott bara, ágætt í bili svona miðað við að ég steingleymdi hvað ég ætlaði að segja og man það ekki enn.

þriðjudagur, febrúar 12

Með títuprjóna undir nöglunum

Evran er komin yfir hundrað... frábært. Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessu? Það er hell að búa í útlandi og fá borgað í skítakrónum. Tökum bara eitthvað annað upp, bara eitthvað! Ef ekki evruna þá tékknesku krónuna eða tansaníska sjillinga... bara eitthvað annað en þetta jójó.

mánudagur, febrúar 11

Góður Bubbi

Ég er ánægð með Bubba Morthens í dag: http://www.visir.is/article/20080211/LIFID01/80211075
Nóg af xenophobíu. Hef aldrei skilið hvers vegna Íslendingum finnst sjálfsagt að þeir fái að ferðast um allar trissur, kaupa sér hús í Torreviaja eða Torremolinos eða vottever án þess að læra orð í tungumálinu (það er svo sniðugt þegar þjónninn segir: mamma borga!) en svo á Ísland að vera fyrir Íslendinga, án þess að sú skilgreining sé endilega alveg ljós. Svo finnst fólki alveg frábært hvað Vestur-Íslendingar í Kanada skuli enn halda í íslenska menningu, baka flatbrauð og tala frónskuna, en kvartar svo og vælir yfir því að finna dýrindisilm af karrý og kókos frá nágrönnunum nýaðfluttu. Uss.
Allir á tónleika!

AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARGH!

Evran er komin upp í 99,45! Helvítis króna, helvítis andskotans króna og allt þetta pakk með andskotans einkaþoturnar sínar á Reykjavíkurflugvelli.

Oj bara og sveiattan

Það er ljótt að reykja.

föstudagur, febrúar 8

Fílsungar

Geit-ungar. Hverskonar orð er það? Rost-ungar? Hvernig eru fullorðnir rostar? Með tennur. Fílsungar eru ekki með tennur en fullorðnir fílar eru oft með glæsilegar tennur. Mannskepnan er andstyggileg, hún drepur fíla fyrir tennur. Býr til tilgangslaust pjatt úr þeim og þá kallast það fílabein, en er í rauninni tönn (eru tennur kannski bein, Hildur?). Í Kenýa bakk in ðe dei (áður en fólk fór að drepa hvert annað úti á götu) voru haldnar fílatannabrennur til að klekkja á fílabeinsiðnaðinum. Það virkaði víst. Ég veit ekki hvort að bálkestir komi að einhverju gagni núna til að bæta ástandið í Kenýa (nei, ekki Kenýu, ég þoli það ekki sérstaklega ekki þegar fólk skrifar það með einföldu: Keníu - viðbjóður). Eníhú, það sem ég er semsagt að koma til skila hér er að það eru geitungar í hengirúminu - 2stykki. Hvað lifa geitungar lengi? Ætli þeir verði að geitum í lok dags? Höhöhö.

þriðjudagur, febrúar 5

Barselóna enn á ný

Jæja, þá geysist ég fram á bloggvöllinn enn á ný. Ég er komin til Barselóna aftur og bý nú í íbúð Silviu fögru sem er að svala flökkueðlinu í Tælandi. Silvia keypti þessa íbúð hér í Poble Sec á svipuðum tíma og við keyptum okkar skonsu en hún er samt farin að borga niður lánin sín á meðan okkar blása út eins og bollurnar í bökunarofnunum í gær. Sjálf hef ég aðeins blásið út síðustu daga - við skruppum nefnilega til Prag í síðustu viku, þar kostar bjórinn að minnsta kosti helmingi minna en allar aðrar fljótandi veitingar og afleiðingarnar eru auðvitað þrengsli um buxnastrenginn. Bjórbumba - eða velmegunarbumba - þótti einu sinni merki um heilbrigði og sæmilegan samfélagsstatus, Hannes Hafstein þótti til að mynda myndarlegasti maður Íslands enda með svo fallega ístru að konur kiknuðu í hnjánum og roðnuðu niður í tær. En nú er öldin önnur - fita er ekki lengur móðins, að minnsta kosti ekki í hinum vestræna heimi; fyrir nokkru heyrði ég viðtal við konu í Nígeríu sem var að koma af fituhæli ("fatfarm") og var himinsæl, eiginmaður hennar var þó enn ánægðari því að flestir menn hafa aðeins efni á að senda konu sína í nokkrar vikur en hann hafði efni á að senda sína spúsu í 4 mánuði og sagðist nú eiga feitustu og fallegustu konuna í héraðinu. Ef ég væri ekki nýflutt aftur hingað í undraborgina myndi ég íhuga að flytja aftur til Afríku. En hér er ég með tékkneska bjórbumbu sem neitar að haggast þrátt fyrir dugnað minn og elju í Ravalræktinni. Ég er því farin í hungurverkfall til að mótmæla eigin fitu. Að minnsta kosti svona fram að kvöldmat. Það er móðins, skilst mér - hungurverkfall.