Helga Soffia

Karibuni

þriðjudagur, febrúar 5

Barselóna enn á ný

Jæja, þá geysist ég fram á bloggvöllinn enn á ný. Ég er komin til Barselóna aftur og bý nú í íbúð Silviu fögru sem er að svala flökkueðlinu í Tælandi. Silvia keypti þessa íbúð hér í Poble Sec á svipuðum tíma og við keyptum okkar skonsu en hún er samt farin að borga niður lánin sín á meðan okkar blása út eins og bollurnar í bökunarofnunum í gær. Sjálf hef ég aðeins blásið út síðustu daga - við skruppum nefnilega til Prag í síðustu viku, þar kostar bjórinn að minnsta kosti helmingi minna en allar aðrar fljótandi veitingar og afleiðingarnar eru auðvitað þrengsli um buxnastrenginn. Bjórbumba - eða velmegunarbumba - þótti einu sinni merki um heilbrigði og sæmilegan samfélagsstatus, Hannes Hafstein þótti til að mynda myndarlegasti maður Íslands enda með svo fallega ístru að konur kiknuðu í hnjánum og roðnuðu niður í tær. En nú er öldin önnur - fita er ekki lengur móðins, að minnsta kosti ekki í hinum vestræna heimi; fyrir nokkru heyrði ég viðtal við konu í Nígeríu sem var að koma af fituhæli ("fatfarm") og var himinsæl, eiginmaður hennar var þó enn ánægðari því að flestir menn hafa aðeins efni á að senda konu sína í nokkrar vikur en hann hafði efni á að senda sína spúsu í 4 mánuði og sagðist nú eiga feitustu og fallegustu konuna í héraðinu. Ef ég væri ekki nýflutt aftur hingað í undraborgina myndi ég íhuga að flytja aftur til Afríku. En hér er ég með tékkneska bjórbumbu sem neitar að haggast þrátt fyrir dugnað minn og elju í Ravalræktinni. Ég er því farin í hungurverkfall til að mótmæla eigin fitu. Að minnsta kosti svona fram að kvöldmat. Það er móðins, skilst mér - hungurverkfall.

5 Comments:

At 4:50 e.h., Blogger Hulda said...

ég hef ákveðið að mér finnst eigin fita vera töff! Böff er Töff

 
At 6:12 e.h., Blogger HelgaSoffia said...

já, reyndar. en það er líka töff að vera í hungurverkfalli. þannig að ég hef verið slátra winegums milli hungurlota.

 
At 6:12 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hey jó kellingar, ég segi: Fellingar eru fallegar! (sko miklu meira gaman að flissa og skríkja á netinu með þér í stað þess að framkvæma tómeygð 240+ magaæfingar og troða stígvélar í laugum með aliciu keys) - algia

 
At 9:25 e.h., Blogger Laufey said...

rambaði í einhverju eirðarleysi á síðuna þína, tek fagnandi þínum skemmtilegu hugleiðingum helga mín góða og fagra, með eða án bumbu því fegurðin kemur að innan, ræktin er leiðinlegasta fyrirbæri í heimi, farðu frekar í göngutúr, þá færðu ferskt loft í lungun, knús frá nabblanum, L.

 
At 10:07 f.h., Blogger HelgaSoffia said...

Ég fæ mér göngutúr niður í rækt, það er góður spotti. Svo set ég eitthvað agressíft í eyrun og hugsa ekki neitt. Það er ágætt, ekkert svo leiðinlegt. Takktakk *snökkt* fyrir fallegu orðin.

 

Skrifa ummæli

<< Home