Ég sit núna við skrifborð heima hjá Emblu og Ingó í Barcelona. Þau eru góð við mig, færa mér kaffi á morgnana og bjór á kvöldin. Hér er lítill Úlfur sem er nýbúinn að læra á pedala á hjólinu sínu og talar út í eitt við heimilisfólk og sjálfan sig. Hann heimsækir mig og heimtar þá að fá að sjá "vídeófílinn" en það er vídeófíll af fílum á Indlandi.
Indland var stórt, heitt og yfirfullt af öllu; mannfólki, beljum, bílum, rusli og varningi. Minnti mann stundum á tilraun sem er við að fara úr böndunum. Ég var mjög þakklát fyrir að vera hjá Helgu Fríðu sem á mjög fallegt heimili þarna og kettling, það var ólýsanlega gott að koma heim úr hektískum ferðalögum í loftkælingu, hollan mat og familí. Við fórum bæði niður í eyðimrkursléttur Rajastahn og upp í fjöll þar sem við gistum á hóteli í 2250 metra hæð. Ég held ég hafi aldrei verið hærra uppi í heiminum. Við vorum strax farin að hugsa um "næst". Næst ætlum við að fara til Kerala og lengra upp í fjöll. Næst ætlum við að fara til Leh og kannski Srinagar. Næst ætlum við að fara á hestbak. Næst ætlum við ekki að láta KLM rukka okkur um 27 ÞÚSUND krónur í yfirvigt fyrir tæp tíu kíló. Já, það var semsagt það síðasta sem ég gerði á Indlandi - láta stífmálaðan KLM fulltrúa ræna mig með bros á vör. Skelfing. Það lá við að "næst" væri þurrkað út úr orðaforðanum.
Til hamingju með afmælið, mamma mín!