Helga Soffia

Karibuni

sunnudagur, apríl 29

Leyni-þjónustan


Í París má finna veitingastað sem er rekinn af blindum. Þar er niðamyrkur og sjáandi og ósjáandi flykkjast þangað til að borða mat sem enginn sér. Eigendurnir græða á tá og fingri. Mér datt í hug, sökum umræðu um spíóna hér að neðan, að stofna veitingastað með leyniþjónustu. Þar munu þjónar stelast til að afgreiða kúnnana, lauma veitingunum á borðið svo lítið beri á. Ég mun ábyggilega græða á tá og fingri.

laugardagur, apríl 28

Engin mynd í dag

Í dag er ég aftur komin upp í Poble Sec, en hér var ég einmitt síðustu helgi, í íbúðina hennar Silviu. Silvia segist vera þýðandi eins og ég og er víst óskaplega bissí og fannst tilvalið að við værum bissí saman. Mér fannst það sniðug hugmynd þar sem að Úlfur litli er með vírus og er með nettan kofahita á Borrell. Ég er samt ekki viss um að S. sé þýðandi, mig grunar að hún sé njósnari - svona eins og Sidney Bristow, ég hef margt fyrir mér í þessu, ekki síst að síðast þegar ég var hér og fleygði mér í hengirúmið á terrössunni þá hringsóluðu 2 þyrlur yfir húsinu. Hmm. Spennandi. OOX skaust í búðina - riiight, er ábyggileg að droppa upplýsingum í ruslafötu og koma í veg fyrir úraníumsmygl til Írans en ég læt eins og ekkert sé, annars gæi farið illa fyrir mér sjálfsagt.

föstudagur, apríl 27

Háloftin

Þetta er loftið í moskunni í Taj Mahal, ansi fínt, rauður sandsteinn og hvítur marmari. They don't make 'em like they used to. En frétt dagsins er þessi: Eftir 4 daga krús um heimasíður helstu flugféga í heimi varð lendingin (æ, kræst) sú að fljúga frá Barsa til Edinborgar 22. maí og leggjast þar upp á ljónaparið svokallaða - Auði Rán og Her-man - í 9 daga. Við komum því til Reykjavíkur 31. maí og bregðum þar með út af áralangri hefð að koma heim 7. júní. Þar hafiði það.

P.S. Klara! Takk fyrir mig! K&K.

fimmtudagur, apríl 26

Fyrir meistaraliðið í Edinborg

Á Indlandi er til sérstök rúta fyrir fólk eins og Auði Rán og Þorgerði Öglu: Panicker's Travel. Já, taugasjúklingar ferðast - nú er Agla að lenda í Glasgow. Dömurnar skila in mastersritgerðum á morgun: víhí! Þið verðið að drekka eina krónu handa mér á huggulegum pöbb, lassies.

miðvikudagur, apríl 25

höhö Monkey Business


Aparnir við Ganga gamna sér þarna, sniðugt hjá þeim, svo er bara að stinga sér út í og þá skolast allar syndir burt og þeir koma alveg óspjallaðir upp úr. Jáhá. Mér datt í hug að einhverjum barnaheilanum þætti þetta skemmtileg mynd þannig ég smellti henni inn til að þurfa ekki að vera sniðug og hnyttin svona í textaformi, enda held ég að ég sé bara alls ekki jafn fyndin lengur og ég var. Hugsanlega vegna þess að ég er alltaf að verða betri inni í mér. Húmorinn hjá mér var alltaf frekar illkvittinn í den þegar ég var fyndin, svona fyndin á kostnað annarra (samt oft svo sem á eigin kostnað) og það er bara ekki sniðugt. Eftir að ég fann mig á Indlandi lét ég af öllum slíkum ósiðum. Héðan af segi ég bara kúk og piss brandara og birti dónamyndir af dýrum. Eru þetta annars ekki ábyggilega apar? Baksvipurinn og halinn þarna hjá karldýrinu minnir mig á mann sem ég vann með einu sinni ... nema þessi er smáfríðari. Ábyggilega apar, apapar, barapapar. Hnegg hnegg.

þriðjudagur, apríl 24

Íslenskur lopi, frönsk á


Ég lofaði mynd af Sölva í peysunni við Signubakka, fann ekki betri myndir en þessar, reyndar er hann með uppbrettar ermar og með sólina á bak við sig þannig að peysan sést voða lítið - en það sést þó að þetta er alvöruflík. Sko strákinn.

Hliðar saman

Agla kom í heimsókn til Parísar og keypti sér föt. Hún stóð ekki á veggnum, eins og margir gætu talið af þessari mynd, því glöggir sjá að þarna er kommóða sem stendur heldur ekki á veggnum. Myndin er nefnilega á hlið og ég kann ekki að snúa henni án þess að skemma hana. Það vil ég ekki, því að Agla er alveg trés parisienne þarna. Vildi bara deila þessu með ykkur - svona sideways.

mánudagur, apríl 23

Festiu


Í dag er bókadagur hér í Katalóníu - St. Jordi. Þá eiga konur að gefa mönnum bækur og menna ð gefa konum blóm. Dæmigert - hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna... en á þessu heimili er þessu öfugt farið og á meðan Embla gaf bónda sínum rós þá gaf hann henni doðrant og mér lítið listaverk í bókarformi. Úlfur fékk bók um lítinn karl sem er prumpað úr beljurassi. Myndin hér er úr stjörnuathugunarstöð Maharajans í Jaipur. Hann var sniðugur karl.

sunnudagur, apríl 22

Hengirúmið hennar Silvíu


Ég er í íbúðinni hennar Silvíu vinkonu sem skrapp til Cordoba um helgina. Hún á hengirúm úti á svölum sem kallar á mann og truflar mann við vinnu. Ég er nokkuð stolt af mér að láta þetta sírenukall sem vind um eyru þjóta og sit nú sem fastast við borð inni í stofu að þýða Sandy karlinn, fer svona einn rúnt á netinu þegar hávaðinn í hengirúminu er sem mestur. Annars er sumarið bara komið í Barcelona, sól og tuttugu stig, ég er að venjast loftslaginu smám saman en sit samt vafin í pashminu enda meira en tuttugu stiga munur á Indlandi og Spáni núna. Það verður ágætt að fá smá sumar - fara á ströndina og kannski jafnvel í sjóinn - áður en maður heldur heim á gamla Ísland þar sem maður veit aldrei á hverju er von veðurfarslega. Ég er enn ekki komin með miða heim en Klara benti mér nú á það í fyrra að ég hef komið heim 7. júní síðastliðin 3 ár. Ég geri ráð fyrir að koma eitthvað fyrr heim núna, en maður veit aldrei. Ég ætla að minnsta kosti að bíða hér eftir Sölva sem kemur eftir 3 vikur. Í millitíðinni ætla ég í spænskunám og líkamsrækt, en maður gerir ekki alltaf það sem maður ætlar hérna á Spáni, það tekur allt einhvern veginn svo langan tíma.
Ég skammast mín: ég er búin að borða heilan poka af gúmmíböngsum síðan í gær. Viljastyrkurinn er ekki meiri en þetta, en kannski er söngur gúmmibangsa sterkari en hengirúms. Kannski er þetta eitthvað grasekkjusyndróm, 150 gr. af gúmmíböngsum til að slá á söknuðinn eftir Bjössa. En að öllum líkindum er þetta bara blanda af taugaveiklun og græðgi.

laugardagur, apríl 21

Fólk, fílar, rusl og fleira


Ég sit núna við skrifborð heima hjá Emblu og Ingó í Barcelona. Þau eru góð við mig, færa mér kaffi á morgnana og bjór á kvöldin. Hér er lítill Úlfur sem er nýbúinn að læra á pedala á hjólinu sínu og talar út í eitt við heimilisfólk og sjálfan sig. Hann heimsækir mig og heimtar þá að fá að sjá "vídeófílinn" en það er vídeófíll af fílum á Indlandi.
Indland var stórt, heitt og yfirfullt af öllu; mannfólki, beljum, bílum, rusli og varningi. Minnti mann stundum á tilraun sem er við að fara úr böndunum. Ég var mjög þakklát fyrir að vera hjá Helgu Fríðu sem á mjög fallegt heimili þarna og kettling, það var ólýsanlega gott að koma heim úr hektískum ferðalögum í loftkælingu, hollan mat og familí. Við fórum bæði niður í eyðimrkursléttur Rajastahn og upp í fjöll þar sem við gistum á hóteli í 2250 metra hæð. Ég held ég hafi aldrei verið hærra uppi í heiminum. Við vorum strax farin að hugsa um "næst". Næst ætlum við að fara til Kerala og lengra upp í fjöll. Næst ætlum við að fara til Leh og kannski Srinagar. Næst ætlum við að fara á hestbak. Næst ætlum við ekki að láta KLM rukka okkur um 27 ÞÚSUND krónur í yfirvigt fyrir tæp tíu kíló. Já, það var semsagt það síðasta sem ég gerði á Indlandi - láta stífmálaðan KLM fulltrúa ræna mig með bros á vör. Skelfing. Það lá við að "næst" væri þurrkað út úr orðaforðanum.
Til hamingju með afmælið, mamma mín!