Helga Soffia

Karibuni

föstudagur, desember 30

Edinborgar Hogmanay


Jæja, þá er bara tekin við pípandi gleði í Edinborg: kyndilgöngur, langskipabrennur, katalónskir drekar og götupartí. Og hvers sakna ég frá Íslandi? Mor, far, Einsa og vinanna, jú... og þess að fá gott vatn úr krana. Annars er þetta gott að vera komin aftur í músahús með góðu fólki. Ég er á 46/4 Grindlay Street, Edinburgh, EH3 9AP ef einhver (t.d. María og Sjonni sem ég ætlaði nú að hitta heima - dem) vill senda mér sniglapóst.
Það er að hefjast Dóminómót í stofunni og mín er beðið. Verið þið sæl.

sunnudagur, desember 25

Gleðileg jól

Nú hef ég étið hreint dýr, opnað fleiri pakka en manneskja á mínum aldri hefur rétt á (takk takk takk) og haft það svo dýrlega gott að ég verð að fara að leggja mig fljótlega. Gleðilega hátíð öll sömul.

miðvikudagur, desember 21

Rétt að láta vita af mér

Hæ, get ekki bloggað neitt af viti enda hef ég verið að mála og funda og hitta allskonar fólk og ketti.
Velkomin heim Ásta! Hringdu í mig. Á morgun mæta síðan Auður og Hermann og Lína og Davíð og Rófa.

laugardagur, desember 10

enski boltinn, jólamatur og bókadómur

Í gær fór ég í bæjarrúnt og rakst á nokkur ungskáld og tónlistarmenn. Mér finnst Eiríkur Örn alltaf vera að stækka (já og vaxa), er ekki frá því að hann hafi slagað upp í þrjá metrana þarna á Grandinu með hattinum, hann er líka óskaplega loðinn í framan, hálf sæfæ að sjá, hélt fyrst að þarna færi meðlimur úr Hjálmum.
Sölvi er að horfa á enska boltann með pabba, meilbonding - annar púllari og hinn manunari. Sjálfsagt fallegt á einhvern hátt. Mamma skoðar matreiðslubækur í leit að jólamatnum. Ég hef voða lítið innpútt því að ég er södd og get ekki lagt neitt til málanna.
En nú ætla ég að vitna hér í pbb gagnrýnanda á DV (æ, verst að þetta skyldi koma í þessu skítablaði) en:

"Stöðugt fer þeim fram í frásagnartækni, teikningu og litun, Emblu og Ingólfi. Þriðja sagan þeirra sem er sprottin er úr heimi Njálu er heildstæðasta og langbest heppnaða myndasaga þeira til þessa. Þau hafa styrkst í tökum sínum á miðlinum og þessi partur Njálu stendur sér vel...
...Þau spenna söguna líka út, gera meira úr styttri köflum og eru fundvís á myndræn sjónarhorn til að drífa söguna áfram. Letur er skýrt og setningastíllinn nútímalegur... Þá er bara spurt: Hvernig gengur að koma efninu á framfæri við erlenda markaði? Er útrásartækifæri í hinum harða heimi myndasagna? Það eru jú hinar menntuðu Evrópuþjóðir sem helst líta við efni af þessu tagi þar sem það sker allar stéttir og aldurhópa án tillits til menntunar... Emblu og Ingólfi verður að hrósa fyrir þolgæði og forleggjara þeirra fyrir að koma verkinu til lesanda í þriðja sinn. "
(fjórar stjörnur af 5 )

Og þar hafi þið það. Bókin Vetrarvíg fæst í öllum betri bókabúðum

föstudagur, desember 9

Niceland

Hulló. Ég lenti í gær í slagveðri en lét það ekki slá mig út af laginu. Það er gott að tylla hér niður fæti. Nú er svo þetta fallega hægviðri og kisan mín situr ofan á tánnum á mér (það verður ábyggilega að aflima þær á eftir) og ég ætla niður í bæ að skoða íslendinga. Kannski finna Klöru og Áka.
Kormákur á Ölstofunni heldur því fram að enginn sem vinnur hjá honum hafi kvartað undan reyk. Mér finnst það alveg merkilegt. Ég fór einu sinni að skæla á Ölstofunni út af reyk. Á Ölstofunni þarf fólk að flýja inn á klósett annað slagið til að anda. Ég dauðkvíði því að þurfa að fara þangað inn. Ætla að reyna að komast hjá því eins lengi og ég get.
Ég er annars aumingi - ekki vegna þess að ég vil ekki anda að mér reyk út úr öðru fólki heldur vegna þess að ég passa illa upp á málfar og stafsetningu á blogginu mínu, það er skammarlegt. Ég biðst forláts en lofa ekki endilega bót og betrun. Ég er nefnilega óþolinmóð og löt þegar kemur að bloggi - og ýmsu öðru svo sem líka.

miðvikudagur, desember 7

Fljúgandi furðuhlutur

Halló. Nú hef ég engin komment fengið og velti því fyrir mér hvort að vinir mínir hafi snúið við mér baki sökum þess að ég afvegaleiddist út á glæpabrautina (leiðist maður inn eða út á glæpabrautina? Ég veit það ekki, ég fór svo hratt). Allavega, ég er að koma heim til að fá botn í þetta mál. Á morgun. Dagurinn í dag fer í lokajólastress og svo ætla ég ekki að jólastressa meir.

Í BA námi mínu við HÍ lærði ég margt skemmtilegt, meðal annars að H er ekki til í mörgum tungumálum, t.d. er H víst G í rússnesku. Væri því eins farið á íslensku hefði þessi færsla verið svona:

Galló. Nú gef ég engin komment fengið og velti því fyrir mér gvort að vinir mínir gafi snúið við mér baki sökum þess að ég afvegaleiddist út á glæpabrautina (leiðist maður inn eða út á glæpabrautina? Ég veit það ekki, ég fór svo gratt.)

Ég þarf ekki að fara lengra með þetta til að þið sjáið að það væri mjög hvimleitt ef við töpuðum niður háinu okkar. Við höfum þegar týnt zetunni, stöndum vörð um háið.

Gelga Soffía (eða Gelgja, annars er rússneska nafnið mitt víst Olga)

þriðjudagur, desember 6

Glæpakvendi


Ég er glæpakvendi. Það er offisjalt og til er ljósmynd því til sönnunar. Þannig er mál með vexti að fyrir nokkru leigði ég bíl og fór í bíltúr með Sölva og Ástu um suðursveitir Skotlands. Ég er nú orðin ansi nösk í að halda mig réttu (vitlausu)megin á götunni og keyrði eins og herforgingi allan daginn og alla leið vestur til Ayr og síðan eftir þjóðveginum heim til Edinborgar. Það er svo þegar ég er að koma inn í bæinn, við eitthvað blöddí fangelsi (go figure) að skyndilega er flassað á mig. Ég sem hafði verið í blússandi stuði (en þó nokkuð örmagna) að hlusta á Cemetry Gates með Smiths fór nú á svo rosalegan bömmer að ég gat ekki talað í nokkrar mínútur og þegar mér svo tókst að koma upp orði þá var það af því tagi sem ég get ekki birt hér því þá segir mamma að ég sé með klámkjaft og hún vill ekki að ég sé með klámkjaft á netinu.
Í dag kom svo bréf frá Yfirvaldinu þar sem mér var sagt að ég væri glæpakvendi og skuldaði því Yfirvaldinu 60 konungleg pund fyrir að keyra á 60 þar sem aðeins má keyra á 50. Þetta eru ss. km/klst ekki mph - ég snaraði þessu snöggvast, enda er ég þýðandi að degi til þótt ég sé glæpakvendi að nóttu. Bömmer bömmer bömmer og fullt af orðum sem ég má ekki segja á netinu.
Eru ekki allir annars bara í stuði?

föstudagur, desember 2

Bakköppdrögs

Það er kaffilaust í húsinu. Þetta er skelfilegt á svo margan hátt. Ég er kaffisjúklingur hinn mesti og fæ alvarleg mígrenisköst ef ég fæ ekki fix strax og ég vakna. Mér finnst andstyggilegt að éta fyrstu 3 tíma dagsins en kaffi verð ég helst að fá áður en ég er að fullu komin til meðvitundar. Steinar og Agla skildu reyndar eftir hjá mér einhverja nojrotík í krukku (Sölvi þykist viss um að Steinar beri ábyrgð á innkaupunum) - koffeinlaust neskaffi. Koffeinlaust. Neskaffi. Þarna eru tvö orð sem eiga aldrei aldrei aldrei að fara saman í setningu. Eins með Koffeinlaust kaffi. Koffeinið er góða stöffið! Það er eina ástæðan fyrir því að standa í því að týna bragðvonda baun, rista hana, hreinsa og mala og leysa upp í heitu vatni. Allt þetta vesen er einmitt til að ná í það sem máli skiptir - koffein!
Neskaffi finnst mér viðbjóður. Fornemast ógurlega þegar mér er boðið neskaffi. Á þó eina afskaplega hugljúfa minningu af þessaari ólyfjan: árið 1995 datt ég hrakin og þreytt inn til Hrafnhildar og Ása í Brooklyn og Ási færði mér neskaffi sem ég drakk úr neskaffikrukku. Það var eitthvað svo ótrúlega viðeigandi þá og þarna að þetta er skráð á spjöld sögu minnar sem eitt af "fullkomu augnablikunum". Ég held að ég hafi næstum komist í sömu sæluvímu þegar ég fann aðra neskaffiskrukku í örvinglaðri kaffileit minni áðan: Rich Roast, neskaffi rammt af kaffeini! Jess. Og þetta drakk ég og las Dead Pets eftir Sam Leith sem að Óttarr sendi mér í gegn um mömmu með Hildi (flókið, en hver treystir póstinum í dag?). Svei mér þá ef mér tókst bara ekki að drekka alveg heilan bolla. Næstum því. Ekki fullkomið móment en næstum því.

fimmtudagur, desember 1

Süskindarleg kona

Stundum er maður heila eilífð að vakna, rankar við sér eins og róni, snýr sér á hina hliðina og mókir, er með þumalinn á snústakkanum tilbúinn að þagga niður í klukkunum sem kalla mann til meðvitundar. En svo kemur fyrir að maður opnar bara augun og er glaðvakandi eins og einhver hafi ýtt á takka. Þannig var það einmitt hjá mér í morgun. Ég opnaði augun og starði á eitthvað kvikindi á veggnum á móti: mölfluga.
Fyrir ári síðan var mér slétt sama um mölflugur, fannst þær bara ansi vinalegar þegar ég sá þær á Advocates Close þar sem að ég hélt að þær væru bara saklaus fiðrildi eins og þessi sem maður sér stundum heima á sumrin. En svo tók ég upp úr kössunum í haust þegar ég kom aftur og fallega, skotapilsið mitt sem ég hef átt síðan ég var unglingur var allt götótt og tætt. Skoska ullin í því heillaði greinilega fatabananna (hehe, fatabananar... æ, leim djók sorrí) og það meira en H&M draslið þannig að ég varð að hugga mig við það að önnur föt virtust hafa sloppið.
Þannig þarna lá ég undir sæng og teppi og starði á óvininn. Ég vissi að ég kæmist ekki alveg strax fram úr til að fanga helvítið og henda því út í vetrarkuldann þar sem að ég óttaðist sjálf þennan sama kulda. Eftir langa störukeppni sem ég ákvað að gefa þar sem ég gat ekki séð hvort mölflugan var með augu eða ekki, leit ég undan til að finna termósokka og föt. Fullklædd (enn undir sæng) áttaði ég mig á því að helvítið hafði notað tækifærið og falið sig. Ég settist upp og skimaði í kring um mig, sá pelsinn hennar Öglu hanga á slánni fyrir framan mig og panikkaði. Nú stökk ég á fætur og tók til við að pakka öllum fötum ofan í plastpoka og svo ofan í töskur, ég ætla að svelta kvikindið, það verður ekki svo mikið sem bómullarsokkur fyrir það að gæða sér á í fjarveru minni. Ó, nei, því verður sko ekki kápan úr því klæðinu.
En nú er ég komin með mölfluguna á heilann. Ég get ekki einbeitt mér að neinu því ég er alltaf að skima eftir flugunni, prófa að slökkva ljósin og kveikja svo skyndilega í von um að hún láti gabbast. Þetta er hið versta mál því að ég þarf að vinna og undirbúa ferð til Íslands - ó, já! Til hamingju með daginn... ég er farin á flugnaveiðar.

ps. Fór með Línu til Glasgow í gær að sjá Oh, Johnson and Tony ...snilld snilld.