Helga Soffia

Karibuni

fimmtudagur, desember 1

Süskindarleg kona

Stundum er maður heila eilífð að vakna, rankar við sér eins og róni, snýr sér á hina hliðina og mókir, er með þumalinn á snústakkanum tilbúinn að þagga niður í klukkunum sem kalla mann til meðvitundar. En svo kemur fyrir að maður opnar bara augun og er glaðvakandi eins og einhver hafi ýtt á takka. Þannig var það einmitt hjá mér í morgun. Ég opnaði augun og starði á eitthvað kvikindi á veggnum á móti: mölfluga.
Fyrir ári síðan var mér slétt sama um mölflugur, fannst þær bara ansi vinalegar þegar ég sá þær á Advocates Close þar sem að ég hélt að þær væru bara saklaus fiðrildi eins og þessi sem maður sér stundum heima á sumrin. En svo tók ég upp úr kössunum í haust þegar ég kom aftur og fallega, skotapilsið mitt sem ég hef átt síðan ég var unglingur var allt götótt og tætt. Skoska ullin í því heillaði greinilega fatabananna (hehe, fatabananar... æ, leim djók sorrí) og það meira en H&M draslið þannig að ég varð að hugga mig við það að önnur föt virtust hafa sloppið.
Þannig þarna lá ég undir sæng og teppi og starði á óvininn. Ég vissi að ég kæmist ekki alveg strax fram úr til að fanga helvítið og henda því út í vetrarkuldann þar sem að ég óttaðist sjálf þennan sama kulda. Eftir langa störukeppni sem ég ákvað að gefa þar sem ég gat ekki séð hvort mölflugan var með augu eða ekki, leit ég undan til að finna termósokka og föt. Fullklædd (enn undir sæng) áttaði ég mig á því að helvítið hafði notað tækifærið og falið sig. Ég settist upp og skimaði í kring um mig, sá pelsinn hennar Öglu hanga á slánni fyrir framan mig og panikkaði. Nú stökk ég á fætur og tók til við að pakka öllum fötum ofan í plastpoka og svo ofan í töskur, ég ætla að svelta kvikindið, það verður ekki svo mikið sem bómullarsokkur fyrir það að gæða sér á í fjarveru minni. Ó, nei, því verður sko ekki kápan úr því klæðinu.
En nú er ég komin með mölfluguna á heilann. Ég get ekki einbeitt mér að neinu því ég er alltaf að skima eftir flugunni, prófa að slökkva ljósin og kveikja svo skyndilega í von um að hún láti gabbast. Þetta er hið versta mál því að ég þarf að vinna og undirbúa ferð til Íslands - ó, já! Til hamingju með daginn... ég er farin á flugnaveiðar.

ps. Fór með Línu til Glasgow í gær að sjá Oh, Johnson and Tony ...snilld snilld.

5 Comments:

At 4:43 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hey mér finnst að þú eigir að koma til Köben áður en þú ferð heim um jólin og upplifa helgi með BáruG og InguÞ. Ik?

 
At 5:41 e.h., Blogger Sölvi Björn said...

Ég tek þetta ekki í mál. Þessi kona á að koma til Íslands!

 
At 9:11 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vona að þú hafir ekki pakkað mölflugunni ógurlegu í plastpokann með pelsi Öglu.Koma beint heim.

 
At 9:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

mér fannst þetta ekki leim djók ... ég hugsaði þetta meira að segja áður en ég kom að djókinu ...

 
At 12:42 f.h., Blogger HelgaSoffia said...

æ, það er gott að vita að ég er ekki eini húmoristinn... húmor ristin

 

Skrifa ummæli

<< Home