Helga Soffia

Karibuni

fimmtudagur, nóvember 30

Sjoppenhavn

Jásör, þá hef ég enn og einu sinni stolist í litlu ofurbókina hans Einars bróður. Ég ætlaði að segja ykkur frá ferð okkar SB til Kaupmannahafnar en eg bara nenni því ekki. Þetta var voða dejligt, við hittum fólk, fórum í göngutúra, mændum upp á hús skáldsins sem datt í stiganum, drukkum jólabrygg og lásum aðeins upp úr bókum. Já, og fórum göngutúr um Tívolí sem var fjarska jóló. Á morgun er jólaboð Eddu og mér tókst að kría út boðskort sem ég fékk í hraðsendingu í morgun, ég vildi ekki fara sem viðhengi SB og beitti andlegu ofbeldi til að fá mitt eigið boð.
Annars las ég Skipið hans SM í gær, las hana upp til agna í einum rykk. Mér fannst bókin spennandi og mjög flott stemning í henni, sé hálfpartinn eftir því að hafa ekki átt hana til góða á jóladag, því þá á maður að liggja undir sæng með svona page-turner, drekka heitt glögg og japla á smákökum. Þannig ég er mjög ósammála furðulegum dómi á Kistunni um bókina... og finnst einkennilegt reyndar að AM skuli alltaf reyna að slá tvær flugur í einu höggi í þessum dómum sínum. Hann hnýtir þarna í Stefán og allt að því patróniserar hann með ráðleggingum og ummælum um einhverja forlagspólitík sem mér finnst alveg afleitt. Hann gæti sjálfur alveg þegið nokkur tips frá hinum Mánanum sem er agaðri og betri penni - já, og hananú! Í nótt byrjaði ég á Sendiherranum og les hana til skiptis við Skugga vindsins sem ég fékk með hraðsendingunni í morgun. Læt vita hvað mér finnst um þær seinna... kannski, ef ég nenni því. Það er ekkert svo auðvelt að blogga þegar maður þarf að fara í heimsókn til þess. En, nú ætla ég að fara að sinna erindum sem Skipið tafði mig frá í gær.

föstudagur, nóvember 17

Instant gratification

Ég nenni ekki að blogga þegar ég fæ engin komment. Ég er ungabarn að þessu leyti. Er ekki annars y í því? Bladíblí. Bladýblý.

fimmtudagur, nóvember 16

Upplyftingar

1. Fara á Súfistan í kvöld og hlusta á listaskáldin góðu - þar á meðal Sölva Björn - lesa upp úr verkum sínum í tilefni dagsins (dagur íslenskrar tungu og afmæli Jónasar)
2. Fara á Sykurmola á morgun
3. Kíkja í bíó á Borat - listaverk!
4. Lesa Fljótandi heim eftir Sölva Björn Sigurðsson (hún er á metsölulista Eymundsson(ar?))
5. Lesa Hið stórfenglega leyndarmál heimsins eftir Steinar Braga - eiturfyndin og stórsnjöll
6. Fara á Babalú á skólavörðustíg og fá sér latte og lesa blöðin eða hanga á netinu
7. Fara á Garðinn á Klapparstíg og fá sér dýrindissúpu í hádeginu
8. Fara á Barinn (22) og fá sér plokkfisk
9. Hlusta á BBC Worldservice og drekka heitt kakó undir teppi
10. Fara á Umbreytingu í Þjóðleikhúsinu - stórkostleg sýning Bernd Ogrodnik

miðvikudagur, nóvember 15

Reykjavik

Það er skítkalt í dag - en Esjan og Skarðsheiðin eru fallegar frostslegnar og fjólubláar. Hafið flöskugrænt með hvítum öldutoppum og himinninn roðnar strax upp úr tvöleytinu. Frekar vil ég hafa kalt og fallegt en "hlýtt" og grátt. Leiðinlegir þessi týpísku Reykjavíkurvetrar þegar það er eins og það hvíli skítugt, blautt ullarteppi yfir öllu.

Æ, ætlaði ég ekki að tala um reykingar á skemmtistöðum? Ég bara þoli þær ekki. Hvorki líkamlega né andlega - þær fara í skapið á mér, helvítis ofbeldi, finnst mér. Ég þekki fullt af góðu fólki sem reykir og sem mér þykir afskaplega vænt um, en það ætlar mig lifandi að drepa (og ég meina það bókstaflega). Þegar maður finnur stæka reykingafýlu af brjóstarhaldara sínum daginn eftir útstáelsi, brjóstarhaldaranum sem maður var í undir hlýrabol, kjól og peysu, þá getur maður ekki annað en orðið hræddur um hvernig öndunarvegurinn, húðin og augun í manni eru eftir þetta. Staðir eins og Ölstofan eru ekki nema fyrir hörðustu nagla og fólk með alvarlega sjálfspíningarhvöt, ég með minn astma þoli amk ekki þar við nema í 10 mínútur í senn. En nú skilst mér að það eigi að taka á þessu máli og þótt ég vorkenni mínum ágætu vinum að þurfa að fara út í kuldan að reykja þá vorkenni ég mér meira fyrir að geta ekki farið út að fá mér kollu án þess að anda að mér svo viðbjóðslega eitruðu lofti að augun á mér verða rauð og þrútin, röddin í mér eins og í froski og fötin mín svo stinkandi að ég verð að hafa þau frammi á gangi þangað til þau fara í þvottavélina. Já, og svo vaknar maður með satanískan hausverk daginn eftir. Þynnka er nefnilega 90% óloftið sem maður andar að sér á bar, komst ég að í Skotlandi eftir að reykingar voru bannaðar þar. Það var stórkostlegt að geta farið út á bar og liðið bara vel, vaknað síðan hress daginn eftir og farið í fötin frá því í gær. Oftast þegar maður fer út reynir maður að fara í fín, hrein föt en eftir 2-3 tíma á bar verða þau svo mettuð af reyk og ólykt að þau verða að fara beint í óhreinatauið. Það sér það hver maður að endingin á fíneríinu verður ekki mjög mikil eftir alla þessa þvotta. Hmm, ha? O, seisei, nei.

Ok. Þá er ég búin að ræða þetta mál og standa við það loforð. Ég er annars eitthvað svo óskaplega andlaus og nenni óskaplega sjaldan að blogga eitthvað lengur. Það er eins og maður hafi minni tíma hérna heima á Íslandi, en samt finnst mér ég ekkert vera endilega að gera meira en ég geri úti, en tíminn þýtur hjá, dagarnir stuttir og flestir sem maður hittir eru á þönum, hangandi á kjúkunum fram af hengifluginu, hlaupandi eins og hamstrar á hlaupabrettum sem þeir kunna ekki að slökkva á. En næst ætla ég að gera listablogg og mæla með nokkrum hlutum fyrir þá sem kunna að stökkva af brettinu.

Blöddíblogger

Vesen að setja inn færslur í dag.

föstudagur, nóvember 10

Heimsglaumurinn

Það var ótrúlega vel mætt á Barinn í gær og húsið fullt af góðu og skemmtilegu fólki á öllum aldri. Steinar og Sölvi stóðu sig vel, lásu upp úr bókunum sínum við mikinn fögnuð og skenktu fólki bjór og viskí fram eftir kvöldi. Eymundssonskvísur sátu við borð og seldu fólki bækur og gestir kepptust við að skrifa póstkort til ástvina sem voru sett í kassa og notuð í happadrætti síðar um kvöldið. Harpa hét vinningshafinn og hún vann rauðvínsflösku og 2 bækur (Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins og Fljótandi heim). Póstkortin verða svo send af forleggjurunum á áfangastaði eftir helgi. Ég smelli kannski inn nokkrum myndum af kvöldinu seinna í vikunni.
Ég nenni eiginlega ekki að röfla yfir Beverly Hills 90201 - þetta eru bara ömurlegir þættir, þeir voru það in ðe næntís og hafa ekki batnað með tímanum. Skjárinn sýnir margt misjafnt en hann ætti að skammast sín fyrir að endursýna þetta krapp (og það nokkrum sinnum í viku). Viðbjóður. Næst ætla ég að röfla yfir reykingum á skemmtistöðum sem er viðbjóður og ástæðan fyrir því að ég er með hausverk núna.

fimmtudagur, nóvember 9

Bilastæði og bjor

Jamm ég þoli ekki að geta aldrei lagt heima hjá mér vegna þess að gatan er alltaf yfirfull af bílum frá fólki sem tímir ekki að nota bílastæðahúsin. Það ömurlegasta við þetta allt saman er að meirihluti þessara bíla eru risahelvítis jeppar. Fólk kaupir sér margra milljón króna jeppa en tímir svo ekki að borga 100 krónur í stöðumæli þegar það fer á helvítis Súfistan að lesa tímarit úr búðinni. Í Edinborg er eitthvað sem heitir Resident Parking í miðbænum - þá mega aðeins íbúar miðbæjarins leggja í stæðin í götunum en aðrir nota bílastæðahús, bílaplön og stæði með stöðumælum. Fólk sem býr í blámiðbænum á að geta lagt bílum sínum eins og fólk í öðrum hverfum. Ég vil að stöðumæla/bílastæðagjald verði lækkað og stæði á Grettisgötu, Njálsgötu og öðrum götum í blámiðbænum verði tekin undir einkanotkun íbúa þar. Jamm. Næsta röfl verður um Beverly Hills 9020.

Hey, en á léttari nótunum: Sölvi Björn og Steinar Bragi halda veislu á efri hæðinni á gamla 22 í kvöld (frá 8) og bjóða upp á spjall og bjór og jafnvel einhvern upplestur. Gott fólk á endilega að láta sjá sig.

þriðjudagur, nóvember 7

Lífgunartilraun 1

Ég veit að ég ætlaði að byrja aftur að blogga í september en það var bara argasta bjartsýni því að bókabransinn er jú á fullu á haustinn og ég hafði ósköp lítinn tíma til annars en að þýða, prófarkalesa og fikta í textum. En karnivalið er að fara að byrja - hin árlega uppskeruhátíð íslenskra bókaútgefenda og þá nefni ég auðvitað strax til sögunnar glænýja skáldsögu Sölva Björns sem kom með skipi í dag. Hún heitir Fljótandi heimur og ætti að birtast í bókabúðum á fimmtudag-föstudag. Þess má geta að skáldið braut sjálft um bókina og gerði kápuna.
En röfl dagsins hjá mér er yfir skorti á póstkössum í bænum. Ég sit alltaf uppi með hrúgu af umslögum sem ég kem hvergi í póst. Póstkassar eru hverfandi í Reykjavík og pósthúsin sömuleiðis. Ömurleg þjónusta. Röfl röfl röfl...
Á morgun ætla ég að röfla yfir bílastæðum í miðbænum.
Óver end át.