Reykjavik
Það er skítkalt í dag - en Esjan og Skarðsheiðin eru fallegar frostslegnar og fjólubláar. Hafið flöskugrænt með hvítum öldutoppum og himinninn roðnar strax upp úr tvöleytinu. Frekar vil ég hafa kalt og fallegt en "hlýtt" og grátt. Leiðinlegir þessi týpísku Reykjavíkurvetrar þegar það er eins og það hvíli skítugt, blautt ullarteppi yfir öllu.
Æ, ætlaði ég ekki að tala um reykingar á skemmtistöðum? Ég bara þoli þær ekki. Hvorki líkamlega né andlega - þær fara í skapið á mér, helvítis ofbeldi, finnst mér. Ég þekki fullt af góðu fólki sem reykir og sem mér þykir afskaplega vænt um, en það ætlar mig lifandi að drepa (og ég meina það bókstaflega). Þegar maður finnur stæka reykingafýlu af brjóstarhaldara sínum daginn eftir útstáelsi, brjóstarhaldaranum sem maður var í undir hlýrabol, kjól og peysu, þá getur maður ekki annað en orðið hræddur um hvernig öndunarvegurinn, húðin og augun í manni eru eftir þetta. Staðir eins og Ölstofan eru ekki nema fyrir hörðustu nagla og fólk með alvarlega sjálfspíningarhvöt, ég með minn astma þoli amk ekki þar við nema í 10 mínútur í senn. En nú skilst mér að það eigi að taka á þessu máli og þótt ég vorkenni mínum ágætu vinum að þurfa að fara út í kuldan að reykja þá vorkenni ég mér meira fyrir að geta ekki farið út að fá mér kollu án þess að anda að mér svo viðbjóðslega eitruðu lofti að augun á mér verða rauð og þrútin, röddin í mér eins og í froski og fötin mín svo stinkandi að ég verð að hafa þau frammi á gangi þangað til þau fara í þvottavélina. Já, og svo vaknar maður með satanískan hausverk daginn eftir. Þynnka er nefnilega 90% óloftið sem maður andar að sér á bar, komst ég að í Skotlandi eftir að reykingar voru bannaðar þar. Það var stórkostlegt að geta farið út á bar og liðið bara vel, vaknað síðan hress daginn eftir og farið í fötin frá því í gær. Oftast þegar maður fer út reynir maður að fara í fín, hrein föt en eftir 2-3 tíma á bar verða þau svo mettuð af reyk og ólykt að þau verða að fara beint í óhreinatauið. Það sér það hver maður að endingin á fíneríinu verður ekki mjög mikil eftir alla þessa þvotta. Hmm, ha? O, seisei, nei.
Ok. Þá er ég búin að ræða þetta mál og standa við það loforð. Ég er annars eitthvað svo óskaplega andlaus og nenni óskaplega sjaldan að blogga eitthvað lengur. Það er eins og maður hafi minni tíma hérna heima á Íslandi, en samt finnst mér ég ekkert vera endilega að gera meira en ég geri úti, en tíminn þýtur hjá, dagarnir stuttir og flestir sem maður hittir eru á þönum, hangandi á kjúkunum fram af hengifluginu, hlaupandi eins og hamstrar á hlaupabrettum sem þeir kunna ekki að slökkva á. En næst ætla ég að gera listablogg og mæla með nokkrum hlutum fyrir þá sem kunna að stökkva af brettinu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home