Helga Soffia

Karibuni

sunnudagur, maí 27

Skotland á sunnudegi

Ég sit inni í stofu hjá Hermanni og Auði í Edinborg og raða í mig góðgæti. Í gær fór ég með Ástu á Ceilidh í Assembly Rooms. Þar hanga 3 kristalskrónur á stærð við fíla neðan úr rjómalituðu loftinu en undir þeim djöflast fólk á öllum aldri með pilsaþyti og hlátrasköllum um salinn. Í hlé kom furðuflink dansgrúppa frá Írlandi (Absolutely Legless) og dansaði Michael Flatley út af kortinu. Í lok dansleiksins kom Steve, heljarmenni úr hálöndunum, og pípaði okkur, þ.e.a.s. hann kom og spilaði á sekkjapípu, gekk um salinn og stóð svo trampandi fótunum úti á miðju gólfi og spilaði þannig á hljóðfærið að fólk klappaði, stappaði, flautaði og hrópaði af gleði. Því miður var ég ekki með myndavél.
Við ákváðum að fá okkur einn viskí á Dirty Dicks, sem er pöbb en ekki klámbúlla þrátt fyrir nafnið, á Rose Street. Þar uppgötvuðum við ofurmannlega eiginleika sem við vissum ekki að við byggjum (bjuggum, búum? hmmmmm) yfir, sáum furðulegt fólk, her af sköllóttum mönnum, hálft körfuboltalið unglinga, gæsir í bleikum jökkum og sérlega drukkin hjón í Riminigöllum, líkast til komin beint af flugvellinum.
En nú er sunnudagur og sólin skín inn um gluggann, Sölvi sefur en við hin kúrum yfir tölvuskjám, hvert okkar í eigin netheimi. Það er stundum svo ágætt að gera ekki neitt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home