Dickflick
Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér að bækur og bíómyndir þar sem aðalpersónan er kona skuli flokkast strax undir léttmeti og kerlingamynd/bók - svokallað Chicklit eða chickflick. Reyndar þarf aðalpersónan ekki einu sinni að vera kvenkyns, mynd virðist "falla" niður í chickflickdeildina um leið og kvenpersónur eru fleiri en ein. Markhópurinn er hinsvegar strax almennari þegar karlmenn eru í fyrirrúmi í persónugalleríinu. Ég man t.d. eftir því þegar ég sá um bókaklúbba heima á Íslandi að fá endursenda bókina Matthildur eftir Roahld Dahl á þeim forsendum að það væri ekki hægt að senda strákum stelpubækur. Ég fékk hinsvegar aldrei kvörtun á hinn veginn, Jói og risaferskjan kom til að mynda ekki til baka með álíka orðsendingum. Í gær leigðum við The Sentinel. Hún er um harða karla með byssur. Alvöru dickflick. Eva Longoria fékk svo að vera með svo hún gæti ranghvolft augunum þegar strákarnir sendu one-linera sín á milli um hversu mikil bomba hún er. Ég gafst upp snemma og fór að sofa. Ég er líka leið á því að sjá Michael Douglas krumpast framan í yngri konur.