Sjoppenhavn
Jásör, þá hef ég enn og einu sinni stolist í litlu ofurbókina hans Einars bróður. Ég ætlaði að segja ykkur frá ferð okkar SB til Kaupmannahafnar en eg bara nenni því ekki. Þetta var voða dejligt, við hittum fólk, fórum í göngutúra, mændum upp á hús skáldsins sem datt í stiganum, drukkum jólabrygg og lásum aðeins upp úr bókum. Já, og fórum göngutúr um Tívolí sem var fjarska jóló. Á morgun er jólaboð Eddu og mér tókst að kría út boðskort sem ég fékk í hraðsendingu í morgun, ég vildi ekki fara sem viðhengi SB og beitti andlegu ofbeldi til að fá mitt eigið boð.
Annars las ég Skipið hans SM í gær, las hana upp til agna í einum rykk. Mér fannst bókin spennandi og mjög flott stemning í henni, sé hálfpartinn eftir því að hafa ekki átt hana til góða á jóladag, því þá á maður að liggja undir sæng með svona page-turner, drekka heitt glögg og japla á smákökum. Þannig ég er mjög ósammála furðulegum dómi á Kistunni um bókina... og finnst einkennilegt reyndar að AM skuli alltaf reyna að slá tvær flugur í einu höggi í þessum dómum sínum. Hann hnýtir þarna í Stefán og allt að því patróniserar hann með ráðleggingum og ummælum um einhverja forlagspólitík sem mér finnst alveg afleitt. Hann gæti sjálfur alveg þegið nokkur tips frá hinum Mánanum sem er agaðri og betri penni - já, og hananú! Í nótt byrjaði ég á Sendiherranum og les hana til skiptis við Skugga vindsins sem ég fékk með hraðsendingunni í morgun. Læt vita hvað mér finnst um þær seinna... kannski, ef ég nenni því. Það er ekkert svo auðvelt að blogga þegar maður þarf að fara í heimsókn til þess. En, nú ætla ég að fara að sinna erindum sem Skipið tafði mig frá í gær.