Helga Soffia

Karibuni

föstudagur, júlí 1

innfluttir ósiðir

Íslendingar eru dónar, segir danskur félagi minn. Það er eitthvað til í þessu en það sem mér hefur fundist meira (og nú er ég afskaplega vel upp alin og það í útlöndum) er að Íslendingar eru bara fámálir. Snúa sér beint að efninu. Fara ekki eins og kettir í kring um heitan graut. "Fá eina kók og opnana" heyrir maður í sjoppunum og þykir bara allt í lagi, sumir brosa kannski ef einstaklega vel liggur á þeim, "og rauðan Winston." Það myndi líða yfir afgreiðslufólk og alla viðstadda ef ég gerði þetta í Bretlandi... hvað þá í Danmark þar sem fólk er komið út í svo mikla öfgar að það segir "må jeg be' om..." - má ég biðja um eina kók og má ég biðja þig um að vera svo væn/n (sjáiði hvað ég er kurteis og PC) að opna hana, takk kærlega. Æ, fyrirgefðu, afsakið, má ég svo biðja um einn rauðan Winston, margar þakkir.
En já... nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að við erum farin að flytja inn ósiði og dónaskap frá kurteisu nágrönnum okkar - t.d. eins og sorablaðamennsku, Hér og nú og DV segja að þeirra tegund af krappi sé stunduð af kappi til að mynda á Bretlandi og Bandaríkjunum. Hmm, jamm, þeir pynta líka fanga í Guantanamo - væri þá ekki bara allt í lagi að gera það á Hrauninu? EN þetta er ekki það sem ég ætlaði að röfla út af núna, ég ætlaði að röfla yfir öðru óþolandi hlvt (bannað að vera orðljót) - við errum búin að læra á bílflautuna. Í bókinni The Xenophobes Guide to Icelanders sem var gefin út á síðustu öld var fjallað um hversu merkilegt það væri að Íslendingar flautuðu afar sjaldan á aðra með bílflautunum, það þætti argasti dónaskapur - sem það er oftast nær. En þetta á ekki við lengur. Ég hef tekið eftir því þessar 4 vikur sem ég hef verið heima að fólk er alltaf að flauta núna, leggjast á flautuna við minnsta tilefni eins og verstu Spánverjar. Voðalega hvimleitt. Ég vona að þetta sé bara eitthvað svona tímabil, einhver sumarsmellur hérna, enn eitt æðið. Kannski segjum við eftir nokkur ár: "Hey, muniði eftir sumarinu 2005 þegar allir lágu alltaf á flautunni?"
Muniði eftir:
Spur?
Celebrate Youth?
Nick Kershaw?
Súkkó?
Ólæstum útidyrahurðum?
Að safna í brennibolta?
Michael Jordan í loftinu?
Plötubúðinni Grammið?
Trix?
Unglingum að "teika"?

2 Comments:

At 12:59 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég verð að viðurkenna að ég er sammála danska vini þínum. Íslendingar eru dónar. Ég meðtalin. Þegar ég er í útlöndum þá tek ég t.d. yfirleitt ekki eftir að það er röð fyrr en mér er bent á það. Og það sem er jafnslæmt, ég kann ekki heldur umgangast mjög kurteist fólk. Skil bara ekki hvað fólkið er að meina. Í London kom það t.d. fyrir að lyftuhurðin hreinlega lokaðist án þess að nokkur færi inn af því að ég fattaði ekki að allir karlarnir sem biðu eftir sömu lyftu og ég voru að bíða eftir því að ég færi innt fyrst. En ég er að æfa mig í að vera kurteis. Honest.
Takk fyrir mig.
Hrönn

 
At 7:01 e.h., Blogger HelgaSoffia said...

Já, en þú segir takk fyri matinn og takk fyrir síðast og gjöriði svo vel þegar þú býður fólki til borðs, ekki satt? Það er nú heilmikil kurteisi, bretar verða meira að segja bon appetit! því þeir eiga ekkert svona á sínu eigin tungumáli - raðaþjóðin sjálf. Svo skal ég segja þér eitt: þeir nota kurteisi til að vera dónalegir. Getra sagt Excuse me! svo rosalega aggresíft að mann langar bara að skríða aftur í móðurleg.

 

Skrifa ummæli

<< Home