Helga Soffia

Karibuni

miðvikudagur, júní 14

Sumar mæ ass

Hver nennir að blogga lengur? Ekki ég, enda er ég komin í rokrassgat og vetur um mitt sumar. Esjan (sem að mínu mati er ekki nema hálft fjall) var öll grá í gær og svei mér þá ef ég sá ekki í nokkrar ísslettur uppi í Bláfjöllum. Ísöldin er alveg rétt ókomin, jöklarnnir bráðna og Golfstraumurinn flýr suður í heitari höf.
En ég er þó búin að mála ganginn heima hjá mér og rífa drasl upp úr geymslu. Herre Gud , hvað það er mikið til af dóti. Ef við fáum eitthvað sumar ætla ég að halda garðsölu og losa mig við helminginn, svei mér. Svei mér... mér finnst ég sveia mér ansi oft... æ, æl og bla, ég nenni þessu ekki lengur - röfla svona út í sæberspeis. Tek mér frí - sumarfrí - þótt hann rigni og djöflist í gluggunum hjá mér.

mánudagur, júní 5

Rangar upplýsingar

Mikið er ég fegin að ég hafi fengið rangar upplýsingar um bæjarstjórastöðu Selfossbæjar... en þær breyta þó engu um að mér finnst að maðurinn ætti nú að kunna að skammast sín og draga sig úr kosningaslag eftir svona fíflahátt. Já, annars held ég að ég verði bara að horfa meira á rusl í sjónvarpinu og einangra mig heima hjá mér, það er fátt meira deprimerandi en íslensk pólitísk umræða... og Kastljósið, mikið getur það steindrepið allan áhuga hjá mér.... jájá, ég er að fá smá kvíðakast yfir að koma heim en samt - SAMT - hlakka ég alveg til líka. Ég hlakka til að fara í grill til mor og far, að hanga uppi í sófa hjá Einari bróður og að borða skyr við borstofuborðið mitt, hitta Helgu litlu nöfnu mína og foreldra hennar, knúsa Loka, hitta Steinku og Siffa og Badda frænda, Six og Tox og ganga niður Laugaveginn, fara í kaffi til Áka og Klöru, tjalda á Þingvöllum, drekka Malt, kíkja á Báru, bíða spennt eftir öðrum farfuglum, keyra kannski austur og heimsækja tengdó og Þórlaugu og ungana líka, setjast út á svalir á Snorrabraut með frú IÞ Barselónafara og bara allt allt allt þetta sem ég hef alveg tíundað áður svosem. Já, seisei, já.

Ahhh... ok

Afsakið fjarveru mína á blogginu, ég bara varð að taka smá tæmát eftir kosningarnar, ég þurfti að gapa og hrista hausinn í nokkra daga yfir kosningu Eyþórs Arnalds á Selfossi. Merkilegt. Ég var alvarlega að hugsa um að flytja bara ekkert heim til Íslands aftur. Hvar annarsstaðar getur pólitíkus keyrt fullur, keyrt á og stungið af en samt boðið sig fram í bæjarstjórnarkosningum? Og hvar annarsstaðar hefði hann svo verið kosinn þrátt fyrir þetta vítaverða ábyrgðaleysi? Ég á ekki til orð. Að hann skyldi ekki draga sig í hlé. Að hann skildi varpa ábyrgðinni svo yfir á kjósendur: "ég hvatti fólk til að strika mig út til að veikja ekki flokkinn" - hann átti að strika sig út sjálfur - og ekki til að veikja ekki flokkinn heldur til að sýna fólkinu í bænum örlitla virðingu. Og nú situr aumingja tengdapabbi og annað gott fólk uppi með mann í bæjarstjórn sem tekur ekki einu sinni ábyrgð á stórfokköppum sem þessum, hvernig haldiði, gott fólk, þá að hann díli við þá ábyrgð sem fylgir hans nýja starfi? Ömurð.
Mér tókst hinsvegar loksins að loka kjaftinum á föstudaginn og fór þá í ferð með Sölva, Hemma og Auði upp í sveit. Við fórum m.a. til Isle of Skye sem er alveg skuggalega lík Íslandi enda fóru allskonar þarfir og þrár að gera vart við sig: "Mig langar í saltpillur, djöfull væri ég til í saltpillur." "Mmm, pylsa með öllu nema hráum..." "Malt." "Ópal, Tópas... Tröllatópas."
En við þurftum ekki að barma okkur lengi því við sóttum heim hana Ann, mömmu Suzie, og þar voru á borðum þvílíkar veitingar að allur barlómur og djönk og sælgæti varð að engu. Hún gaf okkur hreindýr og önd, lamb og naut, kartöflur, egg, salat og rauðbeður, súkkulaði og geitaost, rautt vín og hvítt og svo mætti áfram telja. Við átum og töluðum og skríktum og flissuðum og göptum - nú ekki af hneykslan heldur af undrun - yfir fegurð staðarins, fjallanna og fjarðarins. Sálin er endurnærð og líkamin ofnærður. Aðhald og meinlæti er það sem koma skal. Reyndar grunar mig að Auði langi ennþá í saltpillur...