Scotia kvödd
Hér í Skotlandi hefur ýmisleg gerst. Til dæmis þurfti ég að stofna nýjan notanda á tölvunni minni því að gamla notendanafnið mitt á henni var allt komið í pikkles og neitaði að setja upp vírusvarnir og rabbforrit sem mig hafði lengi vantað. Ég komst að því að sami gallinn hafði lokað mig út frá Blogger, en eins og kannski þrjóskustu bloggflakkarar muna þá gat ég ekki bloggað þessa mánuði á Íslandi nema með því að ræna ofurbók bróður míns. Nú er aldrei að vita hvort þessi blessaði veflógur rísi ekki upp og veiti skapandi skrifum útrás.
Skotland er fallegt, það hef ég oft sagt áður, en þetta er ekki aðeins mín skoðun heldur bláköld staðreynd. Hér er himinninn hár, birtan blíð og nautgripirnir loðnir. Ég leit upp í himinninn rétt í þessu og sá hvar tvær flugvélar höfðu krossað saltírufánann í blámann, St. Andrew's krossinn. Væri myndavélin við hliðina á mér myndi ég smella af og líma hér inn myndina fyrir ykkur að sjá, en myndavélin er inni hjá skáldinu sem sefur. SB er ekki aðeins skáldið sem sefur heldur líka skáldið sem prjónar peysur. Hann kláraði peysuna sína í gær og hún fer honum einkar vel, sérstaklega þegar hann brosir stoltur. Skáldið sem eltir buffalahjörð upp á kastalaplan og nær sér í dýrindissteik. Hvað er betra en að standa í sinni eigin peysu, éta buffal og syngja heimatilbúna texta við lög Bon Jovi's? Ekki margt, nema kannski þá að sitja á Signubökkum með rauðvín og góðan ost og dikta ofan í dagbók.
Á morgun kveðjum við Skotland, skiljum Auði Rán eina eftir í höllinni (Ó, Hermann, kom heim!) og fljúgum með auðveldri þotu til Parísar. Ég læt þessu því lokið, nú þarf ég að sinna Kjarvalsstöðum, lágmenningarlegur þjónn hámenningarinnar - það er ég.