Helga Soffia

Karibuni

þriðjudagur, nóvember 29

Auga fyrir auga - pistill fyrir pistil

Ég ætla nú að snúa á Moggann og kópípeista frá honum grein fyrir greinina sem hann stal frá mér áður. Þetta er ritdómur hr. Skapta (Skafta?) um Gleðileikinn:

ÞAÐ MÁ heita nokkuð djarft og lítt söluvænlegt uppátæki, jafnvel bíræfni, af ungu skáldi að ráðast í það að yrkja upp á nýjan leik Divina Comedia eftir Dante, Hinn guðdómlega gleðileik og finna verkinu stað í 101 Reykjavík. Þetta gerir Sölvi Björn Sigurðsson í bók sem hann nefnirGleðileikinn djöfullega. Eins og nafnið bendir til er þó lítt vísað til tveggja hluta gleðileiks Dantes Paradiso og Purgatorio heldur beinist samlíking verksins meir að Inferno, þar sem illa farnar sálir fengu eilífðarvist samkvæmt miðaldarspeki Dantes. Vísun Sölva til gleðileiks Dantes er raunar margháttuð. Samlíking sögusviða er bara einn hluti þess. Auk þess velur Sölvi að setja verk sitt fram sem ljóðleik með terzínuhætti í anda Dantes og aukinheldur á söguhetja hans Mussju sér ást í meinum líkt og ítalska skáldið. Músa hans, Klara, samsvarar að nokkru Beatrice í verki Dantes. Í Hinum guðdómlega gleðileik leiðsagði Aristoteles Dante um landsháttu eftirlífsins en hér leiðir Dante Mussju um niflheima
Reykjavíkur. Á vissan hátt er hér um paródískt verk að ræða. Líkt og Dante gerði í verki sínu notar Sölvi tækifærið og blandar ýmsum nafnkunnum nútímamönnum inn í orðræðu sína og erst það oft kímilega úr hendi. Það rýrir þó alla paródíska tilburði Sölva að honum er ekki
mikið niðri fyrir og ég held að hann meiði engan með þessu hátterni sínu. Hér er fremur um að ræða kímilegan leik með nöfn kunningja en kaldhæðna ádeilu. Innihald verksins er raunar að mestu leyti fyllirísröfl því að sögutíminn og sögusviðið er Reykjavík nútímans frá Hlemmi til Ingólfstorgs um kvöld og nótt þar sem við fylgjum eftir Mussju á fylliríi og barrölti. Kennir þar margra sérkennilegra grasa og ýmsar kúnstugar persónur verða á vegi okkar. Inn í þetta fyllirísröfl fléttar Sölvi þó haganlega heimspekilegum yrðingum og átökum. Skáldmennið Mussju er öðrum þræðinum að berjast við vindmillur og kallast því söguheimurinn einnig á vissan hátt á við Don Quixote. Hann er jafnframt ,,rangur maður á röngum tíma / ívitlausu húsi“. Tímavillan er mikilvægur þáttur í kveðskapnum eins og ráða má af formi hans. En samkvæmt gamalli, íslenskri hefð er Mussju líka að kveðast á við fjandann því að Gleðileikurinn djöfullegi,væri lítils virði og stæði varla undir nafni án átaka við þann í neðra.
Texti Sölva er oft kímilegur og vel spunninn með myndrænu ívafi. Hann leitast við eftir fremsta megni að virða í senn terzínuháttinn klassíska og íslenska ljóðstafi og ferst það oftast nær nokkuð lipurlega. Ávallt er gleðin í nánd við blúsinn í ljóðunum því að sem fyrr segir er Reykjavík dregin upp sem einhvers konar niflheimur sútar og firringar. Mussju tekst á við þennan heim með ofurdrykkju og kjaftavaðli því í sorginni veit hann að hægt er halda drykkjunni áfram endalaust. Til að gefa ofurlitla sýn inn í eðli hins myndræna kveðskapar er rétt hér að tilfæra dæmi frá upphafi XXII. ljóðs:
Ég hélt þá út er húm var yfir fallið
en hugsær nætur enn í deyðu lá,
er enn var ég lífs og óreynt nætursvallið
og enn af veigum stillt var og kyrr mín
brá.
Mér sjálfum fyrir lá að lifa að nýju
og leita þess er féll í grafardá.

Hinn Djöfullegi gleðileikur er póstmódernísk endurvinnsluafurð í töluvert háum gæðaflokki. Þetta er dirfskufull tilraun til nýsköpunar sem ofin er úr Reykjavíkurlífi samtímans og textatilvísunum til fornra rita. Þótt mikill hluti textans gæli við lágkúrumenningu næturlífsinser hér ekki verið að eltast við markaðshugsun í listsköpun, sollinn eða klámið í víðri merkinguþeirra orða heldur listina og þá frjóu nautn sem fólgin er í þeirri rómantísku kennisetningu sem skáletruð er í bókinni: ,,Hið fagra er satt, hið sanna fagurt.“

Hvað finnst ykkur annars um þessa z-notkun? Ég er sjálf mjög hrifin af z svona fagurfræðilega og líka af málsögulegum nördisma en ég veit ekki... svo til að vera nojrotíski makinn þá finnst mér alveg afleitt að segja að Sölva sé ekki niðri fyrir í verkinu - mæn gott, hann er það en hefur þó húmor fyrir því und warum segir hann að honum takist oftast nær lipurlega að fylgja tersínuhættinum? Mér finnst að hann ætti að koma með dæmi þar sem honum finnst það ekki takast ef hann ætlar að halda þessu fram. Jááá, það finnst mér. En ég er auðvitað afskaplega stolt og ánægð með þetta - annars myndi ég ekki líma þetta hér inn. Gott gott. Allir út í búð og kaupa bókina svo. Hott hott.

4 Comments:

At 4:40 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst nú eiginlega meira eins og Skafta sé ekki mikið niðri fyrir, frekar en fyrri daginn reyndar.

-eön

 
At 4:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Og hvaða rugl er það svo að bókin sé bara eitthvað fyllerísröfl? Kannski er ekki mikið uppifyrir hjá honum heldur?
d.

 
At 11:57 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fagra kvendi,
ég plastaði þennan dóm og klíndi fyrir aftan bókina í búllunni minni enda tel ég þetta söluvænlegan ágætisdóm. Það á ekki að kroppa í og einblína á þau fáu orð sem eru ekki á hástigi...

Annars höfum við umræddur maki samið um að hittast öll þegar þú kemur heim - nú klúðrum við þessu ekki kona!
Knús

 
At 12:46 f.h., Blogger HelgaSoffia said...

Já spengilega sprund, það verður að vera svo enda hefi ég lengi óskað þess að eiga við þig fund

 

Skrifa ummæli

<< Home