Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, janúar 31

Ceilidh

Agla dró mig á Ceilidh í gær. Snilld! Ceilidh er skoskt dansiball þar sem maður skoppar, hoppar, hleypur, þeytist og djöflast þangað til að maður er orðinn sveittur og sexí. Þetta ball var haldið vegna Burnshátíðarinnar og það var í fallegum sal með 8-10 metra lofthæð, 3 risarisarisa kristalsljósakrónum, speglum og alvöru bandi. Best af öllu var þó að allir strákarnir voru í pilsum, það eru allir flottir í kilti, svo maður tali nú ekki um þegar þeir dansa og þau feykjast upp (flestir í naríum því það er varla gott að hafa þetta laust í djöfulganginum).

Ég veit ekki hvort það hefur komið fram, en ég er sumsé nýbúin að komast að því að ég er með astma. Ég hafði vit á því að fá mér púst áður en ég fór í dansinn en samt var ég orðin eins og tómatur í framan og rétt náði að segja ðaaaank (innsog) hjuu (út) við fyrsta dansherrann minn áður en ég hlunkaðist aftur fyrir mig í stól. Kiltklæddi maðurinn horfði undrandi á mig og forðaði sér hið snarasta.

Eftir 2 tíma hopp og skopp var gert hlé á meðan litlar hálandastúlkur dönsuðu The Pipe Dance sem er svona tindilfættur hoppidans, á meðan spiluðu 3 feðgar á pípurnar A Man´s a Man og fleiri lög sem hafa verið samin við ljóð Burns. Næst var rosa serimónía í kring um haggis og við fengum öll haggis og áfengi til að eiga orku í næstu 2 tíma af dansi.

Eftir haggisið varð þetta allt enn trylltara, fullar stúlkur gerðu fimleikaæfingar á stillettóhælum (ekki við Agla) og karlmennirnir sveifluðu konum um salinn þannig að lappirnar á þeim snertu varla gólfið. Þegar loftið var orðið nánast súrefnislaust og mettað svita tókust allir í hendur og sungu Auld Lang Syne (Aldna langa sinn - í gamla daga eða Hin gömlu kynni gleymast ei eins og það heitir í íslenskri þýðingu. Stórkostlegt, frábært og sjúklega skemmtilegt.

Ceilidhböll eru haldinn einu sinni í viku og ég mæli með því að fólk skelli sér á eitt slíkt ef það á leið um Skotland.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home