Helga Soffia

Karibuni

mánudagur, mars 17

Mánudagsskjall: Ásta Ásbjörnsdóttir

Ásta er merkileg kona. Hún er gáfum prýdd: flugklár, falleg, brosmild og góð. Þeir sem til Ástu þekkja eru án efa sammála mér í því að hún er generös, á alla vegu. Hún er mikill höfðingi heim að sækja og deilir jafnan öllu sem til er með gestum sínum, hvort sem um er að ræða húsnæði, mat og drykk eða frítíma - en níska á tíma sinn er nokkuð sem eykst í nútímasamfélagi, og er óhætt að segja að Ásta sé gamaldags að því leyti. Að því leyti og engu öðru, því hún er framsækin og frumleg í hugsun og klæðaburði, vel lesin og vel að sér um heiminn og undur hans. Klæðaburður Ástu ber skemmtilegum og litríkum persónuleika hennar vitni og hafa ófáir dáðst að glaðlegum og skínandi (oft bókstaflega) fatnaði hennar. Glaðlyndið er einkennandi fyrir Ástu sem er með jákvæðara fólki, barmar sér sárasjaldan og verður seint sökuð um að vera kvartsár. Hún svarar í síma með sólskinshallói sem Tyra Banks myndi líkast til kalla "her signature hello". Tyra myndi líka segja að Ásta væri FIERCE, og hefði rétt fyrir sér. Fjíers. Ásta er traustur og góður vinur, vill fólki vel og leggur sig fram um að sinna þeim sem lent hafa úti í horni, passar upp á að enginn sé útundan eða utanveltu, hún er ótrúlega þolinmóð og umburðarlynd - og aumingjagóð, enda hefur hún gott og fallegt hjartalag. Hún er ekki bara vinur vina sinna (það er lítið mál) heldur vinalega við alla, konur og karla, krakka með hár og karla með skalla. Ég gæti haldið áfram fram á þriðjudag að tíunda kosti Ástu Ásbjörnsdóttur, en þetta er mánudagsskjall og því ætla ég að fara að ljúka þessum pistli, vil ég þó bæta því við að daman er fjarska góður penni og kann að halda partý sem enginn vill missa af, enda er stuðið þar sem Ásta er, skínandi, dansandi (ahh, já, súperdansari), hlæjandi Ásta lætur öðrum líða vel. Það er mikil gáfa. Ásta er töff. Ásta rúlar.

1 Comments:

At 5:02 e.h., Blogger Asta said...

Vá, en fallegt skjall!

Takk fyirir mig sæta, þú ert ágæt sjálf.

Knús!

 

Skrifa ummæli

<< Home