Helga Soffia

Karibuni

þriðjudagur, maí 2

Listamenn, fiskar og Alex uppi í tré

Í fyrradag tókum við, hin fjögur fræknu, okkur til og slógumst í för með Walter og Ingibjörgu og keyrðum eftir allri vesturströndinni suður til Lahania að kíkja á myndlistaropnun. Listaverkin voru svona la-la til bða-bða en húsið sem sýningin var í afskaplega falleg uppgerð ólifuólíugerð. Listamennirnir voru allsstaðar frá og alveg óskaplega listamannslegir; með hjarta málað á kringlótt gleraugu, tóbaksklútar um hálsinn, penslar í úfnu hári, etnísk vesti/kyrtlar/pils/mussur, osfrv. Prestarnir úr þorpskirkjunni komu í sínu fínasta pússi með reykelsi og bænabækur og tónuðu einhver ósköpin í rúman klukkutíma en síðan var boðið upp á heimabakkelsi, kók og vín. Einn prestanna er grillmeistari bæjarins og hann rauk til að kveikja upp í grillinu en við fjórmenningarnir máttum ekki vera að því að gæða okkur á himnesku lambi því við vorum búin að ákveða að spæna til Lindos - sem við og gerðum. Þar fengum við inni á gistihúsi eftir nokkra leit. Bla bla - já þetta var alveg óskaplega fallegt og gaman og voða svona grísku eyjarnar eitthvað hjá okkur. Daginn eftir fengum við enn betur að njóta fegurðarinnar, fórum í vík heilags Páls þar sem ég skellti á mig sundgleraugum og skoðaði fiskana. Ég gekk eiginlega í barndóm það var svo gaman hjá mér og óskaði þess að Einar bróðir væri þarna með okkur að synda í kristaltærri víkinni meðal skrautfiskanna. Eftir að hafa þurrkað af okkur saltið og sandinn ókum við til Tsambika og óðum upp á fjall að sjá Tsambikaklaustur þangað sem óbyrjur fara að grenja út barn hjá Maríu mey (þetta á víst að virka og hef ég það frá Stefanó bareiganda sem á einmitt dóttur sem heitir Tsambika), þótt kapellan væri falleg á sinn fábrotna hátt þá varð ég hugfangnari af útsýninu sem hlýtur að vera með því stórbrotnara hér á Ródos. Á leiðinni niður aftur að bílnum áttum við samtal við Alex frá slóvakíu sem sat uppi í tré með hjólahjálm og tambúrínu og böskaði. "Ahhh, Iceland. Ahhh, you chef very good football player - Gudjohnsen! Cwhere is he now? Ahhh, in Chelsea! Ahhh, you go play in Germany?" Nei, við erum of léleg í fótbolta, sögðum við. En Slóvakía? Alex hristi dapur kollinn og fór aftur að spila "Yesterday". Við fórum svo til Stegna keyptum okkur sundfit, snorklgræjur, kústskaft og girni (SB og SBS ætla að útbúa sér veiðistöng). Við fórum svo á Tsambika strönd fyrir neðan klaustursfjallið og syntum og snorkluðum og kepptum í hlaupi og asnaskap. Nú er svo komið að ég nenni engu nema að synda í sjónum og skoða fiska - hugsa að ég skelli mér í eins dags köfun hérna á næstu dögum. En fyrst verð að friða samviskuna og vinna svolítið. Bæ.

2 Comments:

At 12:06 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef einmitt komið í þetta Tsambiki klaustur líka. Vinkona mín lofaði að það væru ekki 300 tröppur þangað upp - þegar ég benti skelfingu lostin á máluð númer á tröppunum. Well. Hún laug. Ég blés eins og fýsibelgur þegar ég komst loks upp. Situr þá ekki ca. 100 ára gamall karl þarna uppi - að gæta helgidómsins. Skil ekki enn í dag hvernig hann komst upp. Öfunda þig bara smá...... Kveðja HH

 
At 9:27 f.h., Blogger HelgaSoffia said...

Hann hefur farid tharna upp thegar hann var tvitugur og ekki farid nidur sidan.

 

Skrifa ummæli

<< Home